Ferill 338. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1383  —  338. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um búfjárhald o.fl.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Ólöfu Valdimarsdóttur og Hákon Sigurgrímsson frá landbúnaðarráðuneyti og Sigurgeir Þorgeirsson og Ara Teitsson frá Bændasamtökum Íslands.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, Búnaðarsambandi Suðurlands, Búnaðarsamtökum Vesturlands, Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga, Bændasamtökum Íslands, Dýraverndarráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, Vottunarstofunni Túni hf. og yfirdýralækni.
    Með frumvarpinu eru kynntar töluverðar breytingar á búfjáreftirliti. Lagt er til að búfjáreftirlitssvæði verði stækkuð, dregið úr forðagæslueftirliti hjá umráðamönnum búfjár sem sinna skyldum sínum vel, umráðamenn búfjár verði skráðir og gerðar endurbætur á úrræðaferli fyrir mál er varða slæman aðbúnað og/eða fóðrun búfjár.
    Eftir athugun málsins telur nefndin rétt að leggja til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að sveitarstjórn hafi yfirumsjón með aðgerðum sem grípa þarf til ef handsama þarf búfé sem sloppið hefur úr vörslu umráðamanns í stað þess að þær skyldur séu lagðar á lögreglustjóra.
     2.      Lagt er til að kveðið verði skýrar á um það að sveitarfélög beri kostnað af búfjáreftirliti innan síns umdæmis enda er eftirlitið á ábyrgð þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn verði ekki heimilt að innheimta eftirlitsgjald fyrir venjulegt búfjáreftirlit en verði heimilt að inheimta gjald vegna kostnaðar sem hlýst af handsömun, fóðrun og hýsingu gripa vegna ákvæða 9., 15. og 16. gr.
     3.      Lagt er til að búfjáreftirlitsmenn fari í voreftirlitsferð til þeirra umráðamanna búfjár sem ekki hafa innra eftirlit sem viðurkennt er af héraðsdýralækni.
     4.      Þá er lagt til að sérstök talning búfjár fari ekki fram nema rökstuddur grunur leiki á um vantalningu líkt og kveðið er á um í gildandi lögum.
     5.      Enn fremur er lagt til að frestir til aðgerða skv. 16. gr. verði styttir en reynslan hefur sýnt að yfirleitt er skjótra aðgerða þörf.
     6.      Jafnframt er lagt til að kveðið verði nánar á um heimild og skyldu landbúnaðarráðherra til að gefa út aðbúnaðarreglugerðir.
     7.      Að lokum eru lagðar til nokkrar smávægilegar lagfæringar á hnökrum í frumvarpinu sem ekki þarfnast nánari skýringa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali og gerð er grein fyrir hér að framan.
    Sigríður Jóhannesdóttir og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þuríður Backman ritar undir álitið með fyrirvara. Guðjón A. Kristjánsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. apríl 2002.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Karl V. Matthíasson.



Einar Oddur Kristjánsson.


Þuríður Backman,


með fyrirvara.


Sigríður Ingvarsdóttir.



Kristinn H. Gunnarsson.