Ferill 621. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1437  —  621. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.    Meginmarkmið frumvarpsins er að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands annars vegar og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra hins vegar 11. mars 2000.
    Minni hlutinn tekur undir það sjónarmið að koma skuli á gæðastýrðri framleiðslu í sauðfjárrækt, sem og í öðrum greinum landbúnaðar. Einn megintilgangur gæðarstýringarinnar er að hafa framleiðsluna í samræmi við landkosti, æskileg landnýtingarsjónarmið og umhverfisvernd. Annar megintilgangur gæðastýringar er neytendavernd og um leið sóknarfæri til hærra vöruverðs, bæði á innanlandsmarkaði og á erlendum mörkuðum. Síðast en ekki síst á gæðastýringin að vera bændum hjálpartæki til að ná betri árangri í rekstri, kynbótum, búfjárhaldi og landnýtingu.
    Minni hlutinn hefur gagnrýnt nokkra þætti sem lúta að framkvæmd fyrirhugaðrar gæðastýringar og telur að eins og gæðastýringin er sett fram í frumvarpinu muni ávinningur af henni ekki skila sér alla leið til neytenda. Gæðastýringin og gæðahandbók Bændasamtaka Íslands ná frá sauðburði að sláturhúsdyrum, en eftir að dýrið er komið í sláturhúsið tekur við heilbrigðiseftirlit, kjötmat og flokkun, hver skrokkur er skráður samkvæmt viðurkenndu kjötmatskerfi en gæðastýringarkerfið sem slíkt er lagt til hliðar. Enginn munur er gerður á flokkun kjöts eftir því hvort um gæðastýrða framleiðslu er að ræða við kjötmatið né heldur við markaðssetningu vörunnar. Neytendur hafa ekki möguleika á að fá vottað hvort ræktandi taki fullt tillit til landnýtingarsjónarmiða og að lyfjagjöf sé í lágmarki á líftíma sláturdýranna. Þessi vitneskja kæmi fram með því að merkja kjötvörurnar með sérstöku viðurkenndu merki íslenskrar gæðastýringar. Því til viðbótar ættu upprunamerkingar að koma fram á neytendaumbúðum.
    Gæðastýrð framleiðsla af því tagi sem að framan greinir er nær því að nálgast kröfur neytenda og legði grunn að mismunandi verðlagningu kjötvara, eftir því hvort þær hefðu fengið vottun um gæðastýrða framleiðslu eður ei.
    Fyrst og fremst ættu tekjur sem gæðastýringin skapar að skila sér til bænda í formi hærra afurðaverðs, en ekki með sérstökum álagsgreiðslum sem teknar eru af stuðningi ríkisins við framleiðendur. Fjármagn það sem nú er ætlað til álagsgreiðslna vegna gæðastýringar þarf að haldast innan greinarinnar og bæta þarf við fé til að hvetja bændur til þátttöku í gæðastýringarátakinu.
    Í grannlöndum okkar er hvarvetna verið að vinna áætlanir um lífræna landbúnaðarframleiðslu og minna má á þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi í þessa veru. Líta má á gæðastýringuna sem vottun fyrir vistvæna framleiðslu.
    Í núgildandi sauðfjársamningi er enginn sértækur stuðningur við lífræna sauðfjárrækt og það er augljóst að búum sem leggja stund á lífræna sauðfjárrækt mun ekki fjölga nema til komi frekari opinber stuðningur við greinina.
    Minni hlutinn styður því að gildistökuákvæðum um gæðastýrðan framleiðsluferil verði frestað um eitt ár og tíminn notaður til að undirbúa málið betur.
    Minni hlutinn styður þá tillögu að taka strax upp sauðfjársamninginn. Komið hafa fram mjög alvarlegar ábendingar um ágalla á samningnum sem nauðsynlegt er að fara yfir, að því gefnu að full sátt sé milli samningsaðila um að taka samninginn upp. Til að eyða rekstrarlegri óvissu hjá sauðfjárbændum við þessar aðstæður er mikilvægt að hraða endurskoðun samningsins. Stefnt verði að því að þeirri vinnu ljúki fyrir ágústlok.
    Núverandi sauðfjársamningur er framleiðsluhvetjandi í stað þess að taka mið af birgðastöðu, innanlandsmarkaði og stöðu markaðssetningar á erlendum mörkuðum. Hann hvetur til slátrunar á þyngri gripum og gengur í því sambandi gegn markaðssetningu á fersku kjöti og nýjum þróunarverkefnum á þessu sviði.
    Minni hlutinn telur afar óhyggilegt að framsal á greiðslumarki verði gefið frjálst við þessar aðstæður. Komið hefur fram tillaga um að takmörkunum verði strax aflétt en ef taka á samninginn upp telur minni hlutinn rétt að hafa ákvæðið um að aflétta takmörkunum á frjálsu framsali inni í þeirri endurskoðun. Mjög mikilvægt er að fá góða greiningu á því hvernig uppkaup ríkisins á greiðslumarki samkvæmt sauðfjársamningnum hafa komið út með tilliti til dreifingar og búsetuskilyrða fyrir aðra sauðfjárbændur.
    Minni hlutinn telur því öll rök mæla með því að hraða endurskoðun búvörusamningsins sem mest og fresta afnámi takmarkana á viðskiptum með greiðslumark svo og öðrum slíkum breytingum sem eðlilegt er að hafa undir í samningaviðræðum um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar. Minni hlutinn mun því flytja breytingartillögu í þessa veru.
    Sauðfjárbændur eru flestir mjög tekjulágir og því brýnt að auka ekki álögur á búgreinina. Gjaldþrot Goða hf. hefur komið mjög hart niður á mörgum bændum og mun enn auka á útflutningsskyldu allra sauðfjárbænda.

Alþingi, 29. apríl 2002.Þuríður Backman.Fylgiskjal I.


Aðalfundur Félags sauðfjárbænda í Skagafirði,
haldinn á Löngumýri 3. apríl 2002,
beinir eftirfarandi til landbúnaðarnefndar Alþingis.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal II.


Einar E. Gíslason,
Syðra-Skörðugili:


Óðaframleiðslustefna bændaforustunnar.
Til umhugsunar fyrir landbúnaðarnefnd Alþingis.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Fylgiskjal III.


Halldór Gunnarsson,
bóndi og sóknarprestur í Holti undir Eyjafjöllum:Forsjárhyggja sauðfjársamnings.

(Morgunblaðið, miðvikudaginn 6. mars 2002.)


    Sauðfjársamningur sem samþykktur var 11.3. 2000 með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis er með ótrúleg nýmæli varðandi beingreiðslur og aðrar greiðslur, vegna framleiðslunnar til að greiða niður verð til neytenda.

Framleiðsluhvetjandi ákvæði.
    Samningurinn kveður á um sérstaka úthlutun til góðra bænda sem „hafa haft miklar og vaxandi afurðir eftir hverja á eða hafa stækkað bú sín á undanförnum árum“, 60 milljónum á ári er varið til þessara bænda allan samningstímann.
    Stenst svona ákvörðun í mismunun milli bænda stjórnarskrá Íslands? Samkvæmt GATT-samningum og WTO-samningum, sem ríkisstjórn Íslands er aðili að, gengur þetta þvert á stefnu þeirra samninga, að greiða jöfnunargreiðslur eða styrki út á framleiðsluna. Þessi ákvörðun er framleiðsluhvetjandi og kemur því aftan að öllum sauðfjárbændum miðað við markaðsaðstæður innanlands.
    Hvernig gat ríkisstjórn Íslands og Alþingi samþykkt þessar greiðslur? Hvernig gátu bændasamtökin það og komið þannig enn og aftur aftan að þeim sauðfjárbændum, sem hafa hlýtt kalli með því að draga saman framleiðslu sína, með því að verðlauna þá sem framleiða meira á yfirfullan innanlandsmarkað? Öll aukning framleiðslunnar kemur niður á bændum, því þeir verða sjálfir að greiða með útflutningnum.
    Er hægt að rökstyðja að þessi nýja úthlutun til sérstakra bænda, upp á 420 milljónir í samningnum, sé niðurgreiðsla til neytenda?

Hluti af ráðstöfunarfé.
    Í samningnum er kveðið á um að bændur hafi m.a. umsjón með ráðstöfun á þjónustu- og þróunarkostnaði, 235 milljónir á ári til að greiða t.d. geymslugjald á kjöti, vaxtagjöld og nánast hvað eina, sem þeim gæti dottið í hug. Hvernig gat ríkisstjórn Íslands og Alþingi afhent þessa fjármuni til Bændasamtakanna, án þess að tryggja aðild sína að úthlutun með tilliti til jafnrar niðurgreiðslu á markaði innanlands og hvetjandi aðgerðum til hagræðingar á þeim markaði?
    Í samningnum er einnig ákveðið að veita 35 milljónum árlega til að efla fagmennsku í sauðfjárrækt, sem framkvæmdanefnd samningsins á líklega að hafa frjálsar hendur með að úthluta, í allt 245 milljónum.
    Hvernig á að rökstyðja að þessi sérkennilega greiðsla í búvörusamningi, til hliðar við aðrar greiðslur ríkisins til félagskerfisins, sé niðurgreiðsla til neytenda í nýjum búvörusamningi?

Gæðastýringin.
    Samningurinn segir að þeir bændur sem taka þátt í gæðastýringu fái greiðslur að hámarki 100 kr. á kg á ákveðna gæðaflokka dilkakjöts, frá beingreiðslum, fyrstu uppkaup ríkissjóðs af 25.000 ærgildum fyrstu tvö árin, 2001 og 2002, síðan af niðurfærslu beingreiðslna 2003. Árið 2003 12,5% og síðan hækkandi til 2007, þá 22,5%. Í peningum talið frá 217 milljónum til 391 milljónar á ári, sem á að færa frá lélegum(!) sauðfjárbændum til góðra(!) sauðfjárbænda. Þessi tilfærsla á beingreiðslum yfir á framleiðslu kjötkílóa er verulega framleiðsluhvetjandi inn á yfirfullan innanlandsmarkað og er þess vegna ótrúleg niðurstaða.
Í fylgiskjali með sauðfjársamningnum var sett fram áætlun um gæðastýringuna, sem var ekki samþykkt á Alþingi árið 2000, þar sem segir: „Landbúnaðarráðherra skal leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2002 frumvarp til laga um breytingu á IX. kafla laganna með nánari ákvæðum um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar.“
    Gæðastýring í framleiðslu sem nær ekki til markaðarins og neytenda er engin gæðastýring, heldur tilraun til ráðstjórnar í tilbúnu opinberu kerfi, með ströngu eftirliti embættismanna og löggjöf, sem myndi þá væntanlega heimila fjársektir og refsingar, ef eftirlitsmönnum væri ekki hlýtt.
    Þessi framkvæmd fyrirhugaðrar gæðastýringar hefur ekki verið rædd við sláturleyfishafa, með tilliti til þess hvernig hún þjóni markaðinum eða hver eigi að borga þann kostnað, sem af því hljótist. Stenst væntanlega gæðastýring það, að hægt sé að taka beingreiðslur frá bónda og færa til annars bónda, ef hann uppfyllir ekki inngönguskilyrði til gæðastýringar?
    Nær væri fyrir samtök bænda og sláturleyfishafa að vinna að því að þjóna markaðinum betur, t.d. með því að neytendur gætu keypt dilkakjöt eftir kjötmati í verslunum og tryggja þannig að fjármunir ríkisins nái til niðurgreiðslu til neytenda í lægra verði, sem síðan skili sér beint til bóndans í meiri innanlandssölu þegar hann framleiðir það sem markaðurinn sækist eftir. Ef hann framleiðir ekki góða vöru, þá sé hún verðfelld. Eftirlitið sé þar, en ekki hjá embættismönnum sem yfirlíta gæðahandbók, sem bóndinn á að skrifa í til þóknunar þeim, kanna málningu útihúsa, athuga fermetrafjölda í fjárhúsi o.fl.
    Þegar búvörusamningurinn var kynntur sauðfjárbændum töluðu forystumenn bænda um, að það væri krafa ríkisins, að fyrirhuguð gæðastýring næði fram að ganga. Þetta er ekki rétt. Hvaðan koma þá þessi sérkennilegu gæðastýringaráform? Enginn hefur enn kannast við krógann? Hér með er kallað eftir aðstandendum hans, að þeir rökstyðji framsetninguna.
    Sú gæðastýring, sem segir í sauðfjársamningnum að gerð hafi verið sérstök áætlun um, var því engin þá. Hún virðist hafa verið sett saman á samningafundum af sex fulltrúum bænda eða einhverjum þeirra. Þessi fyrirhugaða gæðastýring og ráðstjórn endar með sínum aukna tilkostnaði á haustin hjá bóndanum við sláturbílinn, sem tekur féð hans til slátrunar.
    Útilokað er að samþykkja að stjórn BÍ og Landssamtök sauðfjárbænda geti ákveðið gæðastýringu, sem ráðherra síðan staðfesti með reglugerð. Þessa fyrirhuguðu meðferð fjármuna af niðurgreiðslufé ríkisins til neytenda verður Alþingi að bera ábyrgð á.
    Hafna á algjörlega fyrirhugaðri gæðastýringu mismununar, ofstjórnar og skriffinnsku. Beingreiðslur til bænda eru niðurgreiðslur á framleiðslunni til neytenda innanlands og eiga að tryggja eins og hægt er rekstraröryggi bænda og jafnræði miðað við áunna stöðu.