Atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 23. janúar 2003, kl. 17:08:40 (3010)

2003-01-23 17:08:40# 128. lþ. 64.14 fundur 52. mál: #A atferlis- og eldisrannsóknir á þorski á Vestfjörðum# þál., SI
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 128. lþ.

[17:08]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Fiskeldi sem atvinnugrein hefur vaxið og þróast með miklum hraða í heiminum á undanförnum árum. Hér á landi höfum við gert tilraunir með að ala ýmsar fisktegundir, reyndar með misjöfnum árangri. Þróunin með eldi hefur verið fremur hæg hér á landi. Helst hefur bleikjueldið verið í sókn að ógleymdu lúðueldinu í Eyjafirði. En í gegnum þetta ferli höfum við öðlast dýrmæta þekkingu og reynslu.

Nú velta menn fyrir sér hvort framtíð sé í þorskeldi á Íslandi. Þetta er spurning sem hefur verið áleitin að undanförnu og þeim sem hafa trú á að svo sé er stöðugt að fjölga. Og vissulega er mikið í húfi. Ef við lítum til baka eða til ársins 2000, þá voru veidd 81 millj. tonn af villtum fiski í heiminum og hafði veiðin á ársgrundvelli staðið í stað sl. áratug. Þetta sama ár, þ.e. árið 2000, voru framleidd 13,3 millj. tonn með fiskeldi í heiminum og hafði framleiðsla eldisfisks þá aukist um 49% á sl. áratug. Á næstu tíu árum sjá menn fram á a.m.k. tvöföldun á þessum afla, þ.e. fiskeldinu.

Frændur okkar Norðmenn ætla sér stóra hluti á þessu sviði. Framleiðsla þeirra á eldisþorski í ár verður líklega um 3 þús. tonn en þeir stefna á að tífalda þá framleiðslu á næstu fimm árum. Sumar spár gera einnig ráð fyrir því að framleiðslan verði komin í 400 þús. tonn árið 2015 eða nálægt því tvöfalt það magn af þorski sem Íslendingar eru að draga upp úr sjó nú.

Mörg öflug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa kosið að setja aukinn slagkraft í uppbyggingu í fiskeldi. Þetta er ein af leiðum sjávarútvegsfyrirtækja til að mæta samdrætti í aflaheimildum og aflauppbygging sem getur orðið þjóðarbúinu mjög mikilvæg í framtíðinni. Um er að ræða bæði stór og smá fyrirtæki sem eru að gera athyglisverðar tilraunir með þorskeldi og hefur svokallað áframeldi þorsks skilað þokkalegum góðum árangri. En það hefur sýnt sig að tveggja kílóa þorskur sem er veiddur að vori til og alinn í kvíum í fjóra til fimm mánuði, sveltur í fjórar vikur og síðan slátrað hefur þyngst að meðaltali um 100--120% á þessu tímabili. Þyngd hans hefur verið 4--4,5 kg þegar honum er slátrað.

Slíkar tilraunir hafa einnig kennt okkur margt varðandi ýmsa þá þætti sem áhrif hafa á vaxtarhraða þorsksins, fóðrið, ytri aðstæður eins og áhrif sjávarhita og fleira. En betur má ef duga skal. Ef við ætlum að halda í við samkeppnisþjóðir okkar hvað þorskeldið varðar verður að huga að seiðaeldi og kynbótum. Tilraunir með seiðaeldi eru frekar skammt á veg komnar hér á landi en talið er að allar forsendur fyrir stórfelldu þorskseiðaeldi séu hér til staðar sem og öll grundvallarþekking.

Eins og fram kom í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu gerði Samherji samstarfssamning við norska sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækið Fjord Seafood og keypti jafnframt hlut í fyrirtækinu. Með þeim aðgerðum er einnig að vænta einhverrar samvinnu í þorskeldi því að þetta norska fyrirtæki er einn öflugasti laxeldisframleiðandi í heiminum í dag og býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á fiskeldi sem vonandi verður einnig nýtt hér á landi.

Það er mjög margt sem taka þarf tillit til þegar farið er út í eldi en ég tel þó afar brýnt að mótuð sé almenn stefna í rannsóknar- og þróunarvinnu varðandi þorskeldi í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki og faglega sé staðið að atferlis- og eldisrannsóknum eins og þessi þáltill. gerir ráð fyrir. Sé rétt að málum staðið hér á landi varðandi þessa atvinnugrein, þorskeldið, er ég ekki í nokkrum vafa um að hún eigi framtíðina fyrir sér.