Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:17:15 (3220)

2003-01-30 11:17:15# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil halda því til haga að vandamálin í Noregi eru að verulegu leyti út af veðurfarsástæðum, en að einhverju leyti búa þeir náttúrlega við allt aðrar aðstæður en við. Þeir selja rafmagn úr landi. Við erum hins vegar með einangrað kerfi á Íslandi. En það var ágætt að hv. þm. nefndi félagslega þætti vegna þess að mér fannst hann aldrei átta sig á því þegar ég var með fyrra frv. og fylgifrv. með því sem kvað á um að tekið skyldi sérstaklega á óarðbærum einingum. Þá var hann heldur ekkert ánægður og þakklátur fyrir þá framsetningu. Málið virðist því gagnrýnt af hans hálfu sama hvernig það er fram sett.

Niðurstaðan varð sú að setja þetta atriði inn í þá nefnd sem mun starfa og allir þingflokkar eiga aðild að því að þetta er stórmál og annað hefur aldrei komið til greina af minni hálfu en að taka á því í tengslum við framlagingu raforkulagafrv. Það fyrirkomulag sem lagt var til miðað við frv. sem dreift var hér í vor var að lagt yrði sérstakt gjald á allar seldar kílóvattstundir til þess að koma til móts við þennan kostnað sem eru kannski 400--500 millj. í allt. Hv. þm. má vera alveg viss um að ekki mun verða gengið þannig frá þessu máli að ekki verði tekið á þeim félagslega kostnaði sem til staðar er í dreifða kerfinu. Það kemur fram í frv. að þetta er eitt af því sem nefndin fjallar um.