Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 14:40:54 (3246)

2003-01-30 14:40:54# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mér finnst ekki koma fram hjá hv. þingmanni og ekki heldur öðrum þeim sem talað hafa úr hennar flokki við þessa umræðu er hvað er hættulegt við þessar breytingar. Hún segir að ekki þurfi að fara út í allar þessar breytingar. Hvað er að því að fara þessa leið? Það kemur ekki fram. Er það bara þessi almenni ótti við breytingar og þessi ákveðna fyrirframskoðun hjá þessum hv. þm. Vinstri grænna að vera á móti? Ég hef ekki heyrt hvað er í raun að þessu fyrirkomulagi sem við erum að reyna að koma á með frv.

Nú er ég búin að segja frá því að verð hefur lækkað, eins og í Þýskalandi, og þá hefur það ekki lækkað nógu mikið. Það er þó a.m.k. rangt sem hv. þm. sagði áðan, að það hefði hækkað. Hvað er að því að breyta þessu fyrirkomulagi í þá átt sem frv. kveður á um? Það væri mjög gaman að heyra það í stuttu máli.