Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:12:16 (3623)

2003-02-06 18:12:16# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:12]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér hefur verið boðið að fara um þjóðgarða í Kanada og ef ég man rétt var t.d. hægt að komast þar á vatnssalerni, svo ég taki nú dæmi. Við erum auðvitað að tala um staði sem alls ekki er hægt að hugsa sér að leggja gjald á.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði, að af almennum skatttekjum er búið að byggja upp töluvert í ferðaþjónustu. Búið er að gera ýmislegt í nágrenni Reykjavíkur og á Suðurlandi. En á hinn bóginn hefur það setið á hakanum að vinna að sams konar hlutum fyrir norðan þó að þau svæði séu mjög fjölsótt.

Ég vil ítreka það sem ég sagði, herra forseti, það er næsta grátbroslegt að sjá að skattheimtumaðurinn skuli vera kominn á þessa staði áður en búið er að leggja veginn þangað. Það er náttúrlega varla hægt að hugsa sér annað aumara. Eins og ég man þetta helst, það má vera, herra forseti, að ég muni þetta ekki rétt frá því í sumar, en ég man ekki hvort einhverjir útikamrar eru við Dettifoss að vestan, en aðstaða þar er nú slík að ég skil bara ekki hvernig mönnum dettur í hug að tala um að skattleggja slíkt, það er algjörlega fráleitt. Og eiga svo að vera einhverjir aurakarlar á hverjum stað, einhver aurakarl við Dimmuborgir, aurakarl við leirhverina, aurakarl í Herðubreiðarlindum, aurakarl í Hvannalindum, aurakarl á Öskjuleið, aurakarl við Dettifoss, bæði fyrir austan og vestan, aurakarl við Hafragilsfoss, Forvöð, Hljóðakletta, Ásbyrgi? Hvað eiga margir aurakarlar að vera þarna til þess að safna þessum peningum?

Það er náttúrlega fráleitt að menn uni ofríki af þessu tagi.