Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 04. mars 2003, kl. 14:30:52 (4330)

2003-03-04 14:30:52# 128. lþ. 87.6 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á endinum. Ég mæli ekki með því. Umræðan hefur leitt það af sér, hin mikla umræða sem hefur farið fram um þetta mál í þrjátíu ár hefur leitt það af sér að ég hef ekki heyrt þá sem mæla með því að veita Jökulsá á Fjöllum niður á Hérað. Ég er ekki talsmaður þess og hef aldrei verið. Og við höfum ekki verið talsmenn þess í Framsfl. svo ég viti og það er vegna umræðunnar.

En ég hjó eftir því að hv. þm. talaði áðan um að það hefði nú verið mikil guðs blessun ef álverið á Grundartanga hefði risið fyrir austan, (Gripið fram í.) og við hefðum verið að stækka það núna. Ja, það hefði verið betra, hann sagði nú ekki guðs blessun, hv. þm. En ég spyr: Hvað hefði þá átt að virkja? Við féllum frá að virkja Eyjabakkana. Það hefði að mörgu leyti verið svona passlegra inn í efnahagskerfið á Austurlandi. En hvar hefði þá átt að virkja? Hefðum við þá ekki þurft að virkja fyrir austan? Við féllum frá Eyjabökkunum, því það var ekki talið fært af umhverfisástæðum að virkja þar og við, stuðningsmenn virkjana, féllum frá því. En það leiddi það af sér að horfið var að þessum kosti.

En ég vil endurtaka það í lokin að byggðamálaþátturinn --- það má vel vera að þetta sé stærsta byggðamál sem við höfum átt við fram að þessu. En hitt er allt saman að auki, það er alveg sama á hvorum endanum er byrjað í þessu máli. Þetta er landsmál. Þetta er til að auka þjóðartekjurnar. Og þetta er mjög stórt byggðamál þar að auki. Það er kostur þessa máls.