Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:43:05 (4769)

2003-03-11 18:43:05# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ógjörningur að tala í alvöru um samgöngumál á þeim forsendum að ekki megi stytta leiðir. Við erum að tala um að stytta leiðina til Akureyrar um ríflega 80 km. Hvernig í ósköpunum dettur hv. þm. í hug að hægt sé að tala eins og það skipti bara engu máli? Hvernig í ósköpunum dettur honum það í hug? Auðvitað skiptir það máli fyrir þá sem þurfa að komast leiðar sinnar og nota veginn að hann sé styttri frekar en lengri.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á að það myndast nýr hringur með þessum vegi. Þannig geta menn ekið þennan veg norður, t.d. í Skagafjörð og farið síðan hring um Húnavatnssýslur til baka. Þessi leið mundi líka opna möguleika til að komast að vötnunum á Arnarvatnsheiði og vel má vera að þar sé hægt að byggja upp ferðamannaþjónustu. Við sjáum ekki alltaf fyrir okkur hvaða afleiðingar betri samgöngur hafa. Það er a.m.k. alveg ljóst að hvarvetna hefur ný og meiri umferð komið eftir því sem samgöngurnar hafa batnað. Það er a.m.k. deginum ljósara. Eins mun verða í þessu tilviki.

Ég held að hv. þm., sem er kunnugur í Skagafirði, eigi svolítið að gæta sín ef hann heldur að það að stytta leiðina þangað sé af hinu illa fyrir Skagfirðinga. Svo er ekki en menn sem eru afturhaldssamir verða að fá að njóta þess.