Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:51:35 (4774)

2003-03-11 18:51:35# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:51]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vona að hv. þm. Halldór Blöndal hafi ekki misskilið mig. Ég er auðvitað fylgjandi því að stytta leiðir. Og við höfum heyrt það hér í umræðunni í dag eins og hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á að það megi þá ekki skerða aðrar byggðir eða hafa þær afleiðingar sem óhjákvæmilega verða ef við höfum það líka í huga að stefnan í samgöngumálum er að stytta leiðir. Við hljótum að halda því áfram.

Hitt er svo annað að ég var nú aðeins að nefna þetta hér og gott að það kemur fram að taxti flutningafyrirtækjanna er annar í reynd en sýndur er. Það er af hinu góða. Hins vegar er alveg ljóst og það er þakkarvert að hinar stóru verslunarkeðjur eru að selja matvöru á sama verði um allt land. Það er af hinu góða. Aftur á móti þarf að gæta að þessum strandflutningum eins og margir hafa komið inn á. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í því, miðað við þær upplýsingar sem hér koma fram, að það sé 70% dýrara að flytja 40 feta gám landleiðina en sjóleiðina.