Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 17:56:41 (233)

2002-10-04 17:56:41# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[17:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna talaði um íslensku kúamjólkina, að hún væri heilnæm og heilnæmari en þekktist víðast hvar, en hann vék einnig sérstaklega að heilbrigðiskerfinu. Hann sagði að íslenska heilbrigðiskerfið væri skilvirkara, það væri ódýrara og það þjónaði þegnunum betur en hið bandaríska. Hann talaði bara um eitt kerfi. Auðvitað veit ég að það er boðið upp á margt í Bandaríkjunum en þessi maður, sem er heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, varaði Íslendinga við því að fara út á braut einkavæðingar eða einkareksturs innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta eru bara staðreyndir og mér fannst fagnaðarefni að heyra það enda benda allar tölur til þess, menn væru að fara inn í óskilvirkara kerfi sem þjónaði fólki verr, auk sem það væri miklu dýrara fyrir þá sem eiga að borga brúsann.