Viðskiptabankar og sparisjóðir

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 15:32:59 (400)

2002-10-09 15:32:59# 128. lþ. 7.4 fundur 8. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (stofnfjárhlutir) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. er að segja um hv. samþingmenn sína er að þeir hafi ekki skilið þá ræðu sem ég hélt hér á sínum tíma og hafi ekki skilið lögin sjálf. Ég vænti þess ekki. Ég vænti þess að menn hafi skilið nákvæmlega hvað um var að ræða og viti nákvæmlega hvað var að gerast. Þeir geta því ekki sagt að vilji þeirra hafi verið annar. Þingmenn eiga að orða vilja sinn í lögunum. Það á ekki að vera einhver andi laganna sem svífur eins og í andaglasi þannig að menn geti komið löngu seinna og sagt: ,,,Ja, andi laganna. Ég meinti þetta.`` Af hverju í ósköpunum settu menn það þá ekki í lög? Af hverju var það ekki sett inn í texta laganna ef menn ætla að hafa einhvern vilja í því? Það var ekki gert. Þessi andi laganna sem menn eru alltaf að tala um, það er bara eins og að vera á andafundi, herra forseti.