Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 11:54:33 (437)

2002-10-10 11:54:33# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[11:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er ég ekki talsmaður Sjálfstfl., ég er aðallega talsmaður sjálfs mín. Ég fylgi sannfæringu minni og ég segi aldrei ,,við samfylkingarmenn`` eða ,,við vinstri grænir`` eða ,,við sjálfstæðismenn``. Ég tala bara fyrir sjálfan mig.

Svo er það með öryrkjann. Hann fær 87 þús. kr. Það er ekki hámark, það er lágmark í ráðstöfunarfé. Hann fær aldrei minna vegna þess að ef hann vinnur einhvers staðar eitthvað þá er það til viðbótar, þetta er því lágmark. Öryrkjar sumir hverjir eru með mjög góðar tekjur, örorkulífeyri og lífeyrissjóð, sérstaklega vegna framreiknings. Menn geta verið með 100, 200 þús. kr. í örorkulífeyri ef þeir hafa verið í lífeyrissjóði, að sjálfsögðu.

Það sem menn eru að tala um hérna er að menn ætla að auka jaðarskattana, auka fátæktargildruna. En ég hef ekkert á móti því að skipa nefnd til að fara í gegnum skattkerfið almennt og athuga hvernig t.d. sumt fólk sem borgar hátekjuskatt er statt.