Fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 14:23:36 (1359)

2002-11-13 14:23:36# 128. lþ. 29.5 fundur 273. mál: #A fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Hjálmar Árnasyni um að fjöldatakmarkanir séu ekki lengur í takt við tímann. Ég er og hef jafnan verið þeirrar skoðunar að fjöldatakmörkunum hafi fyrst og fremst verið beitt að undirlagi viðkomandi stétta. Ég barðist, sem formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands á sínum tíma, harkalega gegn því að það væru við lýði fjöldatakmarkanir í læknadeild. Það hefur komið í ljós að þær röksemdir sem hafðar voru uppi gagnvart fjöldatakmörkunum í tannlæknadeild og í læknadeild Háskóla Íslands, þ.e. möguleikinn til verklegrar kennslu, stóðust ekki. Í báðum þessum tilvikum, a.m.k. varðandi læknadeildina, var aukið við án þess að maður sæi nokkrar breytingar á möguleikum til verklegrar kennslu.

Ég skora á hæstv. menntmrh. að taka til endurskoðunar þessa kreddukenndu afstöðu sem mér fannst hann hafa til hlutverks háskóla og sjálfstæðis háskóla.