Samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:27:22 (1389)

2002-11-13 15:27:22# 128. lþ. 29.20 fundur 333. mál: #A samkeppnisstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi VigS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Vigdís Sveinbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og umræðuna sem hér hefur farið fram um þetta nauðsynlega mál. Mér er fullkomlega ljóst að bændur í landinu eru kröftugir og tilbúnir að takast á verkefnin. Mér er líka fullkomlega ljóst að við eigum mjög góðar mjólkurvörur og stöndum vel að mjólkurframleiðslunni. En eftir sem áður er alltaf talað um verðið. Það kemur til með að ráða ansi miklu þegar ákvarðanir verða teknar um þetta mál.

Komist menn hjá því að einblína á verð á landbúnaðarvörum, eins og hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom inn á áðan, gætu þeir skoðað verðlag á drykkjarvöru á markaðnum í dag. Mjólkin er ódýrust. Það er ástæða til að velta því fyrir sér hvort það er eðlilegt með tilliti til framleiðslukostnaðarins. Það er auðvitað miklu dýrara að framleiða mjólkina. Verðinu er haldið niður með styrkjum. Vildu menn ekki styrkja þessa grein þyrftu þeir að sætta sig við mjólkurlítrinn yrði heldur dýrari en lítri af vatni eða gosi. Þá er ég hrædd um að innflutningskórinn fari af stað, þrátt fyrir öll gæði. Þess vegna vil ég leggja áherslu á að hið fyrsta verði, ekki bara byrjað að vinna við þennan samning heldur honum lokið þannig að bændur viti í hvaða umhverfi þeir starfa.

Aðlögun tekur heldur lengri tíma hjá bændum. Þetta er ekki eins og gosverksmiðja. Við verðum að varast að kasta mjólkurframleiðendum fyrir úlfana rétt eins og gert var við kjötframleiðendur hér um árið.