GSM-dreifikerfið

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:19:20 (1411)

2002-11-13 17:19:20# 128. lþ. 29.12 fundur 189. mál: #A GSM-dreifikerfið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:19]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, Guðmundi Árna Stefánssyni, fyrir þá fyrirspurn sem hér er sett fram og góða ökuferð um kjördæmi landsbyggðarinnar að hluta þó, nokkrum stöðum var sleppt sem ekki bæta ástandið í GSM-sambandinu.

Ég vildi aðeins leggja áherslu á það sem hér hefur komið fram um öryggisþátt GSM-símans. Í vondum veðrum á fjallvegum er ákaflega mikilvægt, eins og fram kom í máli ráðherra, að Vegagerðin og aðilar sem þetta mál snertir fjalli um og fari í gegnum það hvað hægt er að gera til að auka öryggisþátt GSM-símans. Áður voru það NMT-símarnir sem dekkuðu þessi svæði en það má líka segja sem svo að þeir símar eru nú dálítið að detta út og menn eru ekki mjög fúsir til að endurnýja þá og hafa þá hjá sér í bíl líka þannig að menn þurfi að vera með tvo síma. Ég vil því ítreka og segja: Hér er verið að ræða um ákaflega mikið öryggisatriði og ákaflega brýnt er að farið sé í gegnum þetta sem allra fyrst, sérstaklega hvað varðar hina miklu fjallvegi.