Samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 13:44:18 (1574)

2002-11-19 13:44:18# 128. lþ. 32.91 fundur 251#B samkomulag við Samtök aldraðra um hækkun bóta o.fl.# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil koma fram tvennu til viðbótar. Það er varðandi öryrkjana og þátt þeirra í þessu samkomulagi. Þetta samkomulag á rætur að rekja til formlegrar samstarfsnefndar við aldraða. Slík nefnd er því miður ekki til hvað öryrkja snertir þó full þörf sé á að koma slíkri nefnd á laggirnar. Hins vegar lagði ég áherslu á það frá upphafi að örorkubæturnar fylgdu og þær gera það. Þarna er ákvæði um að hækka tekjutryggingaaukann sem kemur þeim lægst launuðu til góða sérstaklega. Skerðingarhlutfallið í tekjutryggingaraukanum er lækkað úr 67% niður í 45% sem er sérstaklega mikilvægt fyrir öryrkja. Ég mun að sjálfsögðu gera forustu Öryrkjabandalagsins grein fyrir þessu samkomulagi. Við höfum reyndar átt viðræður við þá í sumar þó að þeir hafi ekki átt aðild að þessum viðræðum af þeim ástæðum að samkomulagið varð til í samráðsnefndinni við aldraða sem er formleg. Þetta er ættað frá því samstarfi.

Í öðru lagi varðandi hjúkrunarheimilin þá eru ákvæði í þessu samkomulagi, sem að sjálfsögðu verður kynnt betur og rætt, m.a. við fjárlagaumræðu, um að breyta hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra þannig að hann fái formlega það hlutverk að greiða öldrunarstofnunum húsnæðisframlag eða leiguígildi sem standa undir viðhaldskostnaði og að stærstum hluta fjárfestingarkostnaði nýrra hjúkrunarheimila. Þetta er tímamótaáform sem við verðum að vinna að í framhaldinu.