Fjáraukalög 2002

Þriðjudaginn 26. nóvember 2002, kl. 14:34:36 (1703)

2002-11-26 14:34:36# 128. lþ. 36.1 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þm. sé að ræða um fjáraukalög en ekki einhverja aðra hluti því þegar ég hlustaði á ræðu hv. þm. áðan þá talaði hann fyrst um gríðarlega mikil útgjöld í fjáraukalögum. Síðan taldi hann upp langan langan lista af því sem vantaði inn í fjáraukalögin. Mér fannst þetta mjög sérkennileg ræða og stundum áttaði ég mig ekki á því hvort hann væri að fjalla um fjárlög eða fjáraukalög.

Hv. þm. sagði að menn hefðu ekki haft tækifæri til þess að kynna sér þau gögn sem hér eru lögð fram. Það vill nú þannig til að hér var sérstakur fundur í gær þar sem þessum þingskjölum var dreift þannig að þingmenn hafa haft talsvert góðan tíma til þess að kynna sér þessi mál. Ég er alveg viss um að bæði hv. þingmaður og aðrir þingmenn hafa skoðað þessi skjöl og lesið. Þau liggja öll frammi. Ég tel alveg óþarfa að lesa hvert einasta orð sem stendur í þessum þingskjölum, m.a. vegna þess að þau liggja á borðum þingmanna.