Rannsóknir á sumarexemi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2002, kl. 12:09:27 (1845)

2002-11-28 12:09:27# 128. lþ. 38.10 fundur 318. mál: #A rannsóknir á sumarexemi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 128. lþ.

[12:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er lítið um þetta mál frekar að segja. Íslenskir vísindamenn hafa þetta verkefni með höndum og 25--30 milljónir eru auðvitað miklir peningar eigi að síður. Það var valið á milli tveggja verkefna. Hvað næmniprófið varðar, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, þá gengur ekkert orðrómur um það. Til eru menn sem halda þessu fram. En vísindamenn greinir auðvitað á um allt. Ef unnt verður að þróa svo næmt próf að greina megi þá hesta sem muni fá sumarexem þá má búast við að það taki nokkur ár áður en hægt verður að taka það í almenna notkun, segja vísindamenn mér. Næmnipróf á ofnæmisviðbrögðum gefa nær aldrei 100% líkur segja þeir jafnframt.

En ég vil bara segja fyrir mig að þetta var mjög erfitt mál á mínu borði. Dr. Leibold kom hingað og átti hér fundi með mönnum. Hann hafnaði samstarfi á þeim grundvelli sem þetta var lagt upp þá. Þegar ég síðan lét fara yfir þetta hér, eins og komið hefur fram í mínu máli, af doktor við háskólann, dr. Ingileif Jónsdóttur, þá kom það í hennar hlut að fara yfir þetta sem vísindamaður. Hún taldi engan vafa á því, eins og ég rakti áðan, að mjög áhugavert væri að reyna þá leið að finna lyf sem væri vörn gegn sumarexemi. Það varð niðurstaða mín að fallast á þau sjónarmið sem hún af hlutleysi fór yfir fyrir mína hönd. Þetta var erfitt val. En þetta mál er í farvegi og er mikilvægt fyrir hrossabændur.

Reyndar sögðu margir að það væri mjög mikilvægt að rannsaka þetta í landinu, þ.e. á Íslandi, sem á hestinn. Við þurfum að hafa forgöngu (Forseti hringir.) og forustu í málefnum hestsins á öllum sviðum. Ég teysti því fólki sem nú fæst við þetta mál (Forseti hringir.) og trúi því að það muni ná vísindalegri niðurstöðu. Það er gott, hæstv. forseti, að hafa smátrú.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hæstv. ráðherra á að virða tímamörk.)