Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:06:00 (2651)

2002-12-12 21:06:00# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þm. hefur á móti þessu frv. þrátt fyrir ræðu hans áðan. Hann efast um að bara sé verið að tala um formbreytingu en raunin er samt sú. Ég flyt þetta mál að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar og þar þekkir hv. þm. jafnvel betur til en ég. Ég undrast þessa ræðu og ég átta mig ekki á hvaða draug hv. þm. sér í þessu máli. Þetta er ekkert annað en það að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag og hlutafélagaformið er mjög þekkt form á Íslandi. Flestir hafa sætt sig mjög vel við það rekstrarform.

Þegar Akureyrarbær biður um að þetta frv. sé flutt og gert að lögum fyrir áramót undrast ég að hv. þingmaður skuli ætla að beita sér gegn því eins og ég skildi hann. Hann talar um að samanburður sé óheppilegur og blandaði reyndar nýju frv. sem nú liggur á borðum þingmanna en hefur ekki komið til umræðu, raforkulagafrv., inn í mál sitt. Málið er að hugmyndirnar með því að sameina ákveðin orkufyrirtæki, sem ég hef nú greint frá að verður einhver frestur á, eru þær að þar með gæti náðst samkeppni í sambandi við vinnslu raforku og það tel ég mikið grundvallaratriði. Hv. þm. virðist ekki vera sammála mér um það.

Ég endurtek að ég átta mig ekki alveg nógu vel á því hvað hv. þm. er að fara.