Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 10  —  10. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skattfrelsi lágtekjufólks.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að kanna hvaða leiðir eru færar til að afnema eða lækka verulega tekjuskatt lágtekjufólks og lífeyrisþega sem hafa tekjur undir lágmarkslaunum. Í því sambandi verði m.a. skoðaðir möguleikar á endurgreiðslu skattsins eða sérstökum frádrætti frá tekjum. Í nefndinni verði m.a. fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og samtaka aldraðra og öryrkja.
    Niðurstöður verði lagðar fyrir Alþingi á haustþingi 2003.

Greinargerð.


    Tilgangur þessarar tillögu er að leitað verði leiða til að afnema eða lækka verulega skatta lífeyrisþega og launafólks sem hefur tekjur undir lágmarkslaunum fyrir fulla dagvinnu. Hugmyndin er að lækkun, afnám eða endurgreiðsla skattanna nái eingöngu til þeirra sem hafa sér til framfærslu tekjur frá skattleysismörkum að lágmarkslaunum. Með lágtekjufólki er eingöngu átt við fólk sem hefur launatekjur og lífeyrisgreiðslur undir lágmarkslaunum, auk atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Þannig eru fjármagnstekjur ekki innifaldar. Sérstakur frádráttur í skatti á móti launatekjum láglaunafólks þekkist t.d. í Finnlandi og Bandaríkjunum. Flutningsmenn þessarar tillögu gera sér grein fyrir því að málið er ekki einfalt, einkum með tilliti til jaðaráhrifa. Engu að síður er það sannfæring flutningsmanna að það sé vilji mikils meiri hluta þjóðarinnar að ná sátt um skattfrelsi lægstu launa og lífeyrisgreiðslna, sem og atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, sem eru langt frá því að hrökkva fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Brýnt er að það verði skoðað sérstaklega hvaða leiðir eru færar í þessu efni og meta kosti og galla slíkra breytinga á sköttum láglaunafólks.
    Verulegar breytingar hafa orðið á skattgreiðslu láglaunafólks og lífeyrisþega á síðustu árum. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar á sl. ári greiddi láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90 þús. kr. á mánuði um 1 milljarð kr. í tekjuskatt og útsvar. Þá er miðað við heildarlaun og greiðslur frá Tryggingastofnun og úr lífeyrissjóði, auk atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.
    Í nýjum upplýsingum frá ríkisskattstjóra kemur fram að samkvæmt skattframtölum ársins 2002 eru tæplega 11 þúsund einstaklingar og samskattaðir með tekjur á bilinu 781.579 kr. til 1.100.000 kr. í árstekjur á árinu 2001, þ.e. frá skattleysismörkum að 92 þús. kr. á mánuði. Þá eru undanskildir þeir sem eru á þessu tekjubili og hafa einhverjar fjármagnstekjur. Ljóst er að langur vegur er frá því að þessar tekjur dugi fyrir allra brýnustu nauðþurftum, enda þarf fólkið með lægstu launa- og lífeyristekjurnar iðulega að leita sér fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum eða matargjafa hjá hjálparstofnunum. Skemmst er að minnast nýlegra upplýsinga frá kirkjunni, mæðrastyrksnefnd og félagsþjónustunni í Reykjavík, þar sem fram kom að fjöldi þeirra sem þurfa að leita sér fjárhagsaðstoðar eða matargjafa hafi vaxið um 20–30% sl. 12 mánuði. Í Reykjavík fengu 2.615 manns fjárhagsaðstoð á sl. ári en mikil aukning hefur orðið milli ára á fjárhagsaðstoðinni. Ef bornir eru saman fyrstu sex mánuðir þessa árs kemur í ljós að það stefnir í 40% aukningu milli ára og að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna fjárhagsaðstoðar verði nálægt 800 millj. kr. Í leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins frá nóvember 1996 um reglur sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð er lágmarksfjárþörf vegna framfærslukostnaðar skilgreind þannig átt sé við þá lágmarksupphæð sem ætlað er að einstaklingur eða fjölskylda þurfi til að lifa af. Í rannsókn sem nýlega var gerð af Hörpu Njálsdóttur félagsfræðingi sem rannsakað hefur fátækt í íslensku þjóðfélagi kemur fram að 40 þús. kr. vantar mánaðarlega upp á fullan lífeyri frá Tryggingastofnun til þess að bótaþegar sem ekki hafa aðrar tekjur en frá ríkinu geti framfleytt sér miðað við lágmarksframfærsluviðmið. Það segir sig sjálft að það gengur ekki að skattleggja fólk sem vantar tugi þúsunda á mánuði til að eiga til hnífs og skeiðar, en algengt er að lífeyrisþegar sem eingöngu hafi sér til framfærslu lífeyri almannatrygginga greiði sem svarar eins mánaðar lífeyrisgreiðslum í skatta. Skattgreiðslur þeirra eru 5–7 þús. kr. á mánuði. Þeir sem eingöngu hafa lágmarkslaun sér til framfærslu greiða nú 11–12 þús. kr. í skatt á mánuði.
    Hér skal sérstaklega vikið að afnámi skattlagningar á fjárhagsaðstoð en sérstök tregða hefur verið í þá veru hjá framkvæmdarvaldinu að afnema skattlagningu á fjárhagsaðstoð. Þegar skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar voru til afgreiðslu á 126. þingi, sem að meginhluta til fólu í sér verulega skattalækkun á fyrirtæki, fluttu þingmenn Samfylkingarinnar breytingartillögu við frumvarpið um að fella niður skatta af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Sú breytingartillaga náði ekki fram að ganga. Samfylkingin telur fráleitt að skattleggja fjárhagsaðstoð fátæks fólks sem ekki á fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða fyrir ríkissjóð, en skiptir öllu fyrir þá sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Samkvæmt lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar á sl. ári kostar 120–135 millj. kr. að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Rétt til fjárhagsaðstoðar hafa þeir einstaklingar og fjölskyldur sem hafa ónógar tekjur sér og sínum til lífsviðurværis. Tilgangur fjárhagsaðstoðar samkvæmt leiðbeiningarreglum sem félagsmálaráðuneyti hefur gefið út er að koma í veg fyrir að einstaklingar eða fjölskylda komist í þá aðstöðu að geta ekki framfleytt sér og sínum. Litið er á fjárhagsaðstoð sem stuðning á meðan einstaklingur eða fjölskylda er að vinna sig út úr ákveðnum erfiðleikum, því er litið á þessa aðstoð sem hreina neyðaraðstoð. Í reglunum kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar möguleika á annarri aðstoð en fjárhagsaðstoð og henni aðeins beitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsmálanefndar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar. Jafnframt kemur fram að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli lágmarksfjárþörf viðkomandi lögð til grundvallar. Lágmarksfjárþörf skal að öðru jöfnu metin svo að hún sé mismunur á því sem telst framfærslukostnaður miðað við fjölskyldustærð annars vegar, og ráðstöfunarfé fjölskyldunnar hins vegar. Með lágmarksframfærslukostnaði er átt við þá fjárhæð sem ætlað er að einstaklingur eða fjölskylda geti lifað af. Mjög óeðlilegt er að skattleggja þessa fjárhagsaðstoð, enda er hún aðeins veitt þeim sem ekki eiga fyrir brýnustu nauðþurftum. Ekki er óalgengt að þeir sem leita sér fjárhagsaðstoðar þurfi að leita þangað aftur gagngert til að geta greitt skatta af fjárhagsaðstoðinni sem þeir fengu árið á undan. Það sýnir kannski best fáránleika málsins.
    Rökin fyrir afnámi skattlagningarinnar eru því augljós. Hér er um að ræða neyðaraðstoð sem ætluð er til skamms tíma og þar af leiðandi eru upphæðirnar lágar. Þannig eru þær hugsaðar til þess að fólk geti dregið fram lífið í stuttan tíma meðan verið er að komast yfir erfiðleika. Af sjálfu leiðir að það er afar óeðlilegt að taka skatt af slíkum bótum. Skattlagning fjárhagsaðstoðar hefur líka leitt til þeirra tilhneigingar að halda bótunum sem næst skattleysismörkunum til að reyna að forðast skattlagningu þeirra. Skattleysismörkin hafa á undanförnum árum dregist mjög aftur úr almennum verlagshækkunum og vísitölu, sem aftur hefur leitt til að fjárhagsaðstoðin hefur lítið hækkað. Staðgreiðsluskyldan gerir það líka að verkum að skattur er tekinn af fjárhagsaðstoðinni og síðan er gert upp með öðrum tekjum í lok árs, en fjöldi fólks hefur svo lágar tekjur að ekki kemur til skattgreiðslu af fjárhagsaðstoðinni. Annars staðar á Norðurlöndum hefur ekki verið greiddur skatt af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Því var þó breytt fyrir 3–4 árum í Danmörku þegar tekin var upp skattlagning á fjárhagsaðstoð um leið og tekið var upp samræmt viðmið um aðstoð um allt land, en þar eru fjárhæðir aðstoðar líka miklu hærri en hér á landi.
    Lífeyrisþegar sem eingöngu hafa sér til framfærslu tekjur almannatrygginga hafa mátt sæta því að lífeyrisgreiðslur þeirra hafa ekki haldið í við launavísitölu á umliðnum árum. Grunnlífeyrir og tekjutrygging hefðu á árinu 2001 verið rúmum 7 þús. kr. hærri á mánuði, eða rúmum 84 þús. kr. hærri á árinu, ef lífeyrisgreiðslur hefðu tekið mið af þeim breytingum sem orðið hafa á launavísitölu á árabilinu 1995–2001. Ef skoðuð er þróun kaupmáttar samanlagðs grunnlífeyris og tekjutryggingar á árunum 1995–2001 samanborið við kaupmátt lágmarkslauna kemur í ljós samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar að kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefur aukist um 11,09% á árabilinu 1995–2001, en kaupmáttur lágmarkslauna hefur aftur á móti aukist á sama tímabili um 42,07%.
    Það eru því ekki síst lífeyrisþegar sem hafa farið illa út úr skattlagningu. Því til viðbótar hefur meira en helmingur aldraðra framfærslueyri sem er undir lágmarkslaunum og það staðfestir bág kjör allt of stórs hóps aldraðra í íslensku þjóðfélagi. Auk þess hefur lyfja- og lækniskostnaður hækkað gífurlega og ekki er óalgengt að öryrkjar og aldraðir greiði í lyfjakostnað á einu ári sem samsvarar eins mánaðar lífeyrisgreiðslum. Þannig þurfa þeir verst settu í hópi aldraðra og öryrkja iðulega að greiða sem svarar tveggja mánaða lífeyrisgreiðslum í skatta og lyf, auk þess sem húsnæðiskostnaður er þessum hópi líka ákaflega þungbær. Það segir líka sína sögu að tæplega 49% lífeyrisþega höfðu óskerta tekjutryggingu á árinu 2001. Í skýrslu um kjör öryrkja sem Samfylkingin óskaði eftir frá forsætisráðherra og lögð var fram á Alþingi á þarsíðasta þingi kom fram að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði.
    Annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu er notuð neysluviðmiðun til leiðbeiningar um mat framfærsluþörf og greiðslugetu fólks. Í Svíþjóð og Noregi hefur verið lögð mikil vinna í þróun og vinnslu viðmiðunarneyslu á sl. 20 árum. Þar hefur verið tekið mið af neysluviðmiðun heimilanna þegar ákvarðaðar eru bætur skattalaga. Hér á landi tekur hið opinbera mið af a.m.k. mjög mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitinga. Má þar nefna tryggingakerfið, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir. Hagstofan gerir síðan reglulega neyslukannanir. Síðast en ekki síst eru það svo tekjutengdar bætur skattkerfisins. Allur gangur virðist vera á því að hve miklu leyti kannanir liggja að baki þegar áætlaður er nauðsynlegur framfærslukostnaður hverrar fjölskyldugerðar. Ráðgjafarstofa heimilanna notar framfærslugrunn sem miðaður er við fólk í miklum greiðsluerfiðleikum og ætlaður aðeins til að sýna framfærsluþörf í skamman tíma meðan fólk er að ná sér út úr greiðsluerfiðleikum. Hann sýnir því framfærsluþörf fyrir allra brýnustu nauðþurftum. Raunverulegur framfærslukostnaður til lengri tíma er því eðli máls samkvæmt mun hærri.
    Í nýlegum samanburði frá miðju síðasta ári á framfærslukostnaði samkvæmt lágmarksframfærslu Íbúðalánasjóðs, viðmiðunarneyslu Ráðgjafarstofu heimilanna og neyslukönnun Hagstofunnar áætlar Íbúðalánasjóður framfærslukostnað hjóna með tvö börn 108 þús. kr., Ráðgjafarstofan tæpar 140 þús. kr. og Hagstofan rúmlega 242 þús. kr. Framfærsluviðmið Ráðgjafarstofu heimilanna er miðuð við framfærsluþörf í skamman tíma fyrir fólk í miklum greiðsluerfiðleikum. Ef miðað er við þá framfærsluþörf vantar um 50 þús. kr. til að lágmarkslaunin dugi fyrir brýnustu nauðþurftum fjögurra manna fjölskyldu.
    Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mælir fyrir um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skuli tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ætla má að á margan hátt séu þessi mikilvægu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar ekki virt, þegar litið er til hvaða aðstaða láglaunafólki, atvinnulausum og fjölda aldraðra og öryrkja er búin. Það samræmist ekki almennum mannréttindum þessa fólks, barna þeirra og fjölskyldna, að auk þess að hafa sultarlaun sér til framfærslu séu launin skattlögð.
    Öll rök mæla með því að þessi tillaga verði samþykkt og reynt að ná þjóðarsátt um leiðir sem tryggi að ekki séu skattlögð laun sem ekki duga fyrir allra brýnustu nauðþurftum.