Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 11  —  11. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til verndar rjúpnastofninum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að grípa tafarlaust til aðgerða til verndar rjúpnastofninum. Haustið 2002 skal leyfilegur veiðitími á rjúpu vara 1.–30. nóvember. Rannsóknir á viðgangi rjúpnastofnsins skulu efldar eins og kostur er og fylgst grannt með því hvort aukin friðun skilar sýnilegum árangri. Áður en veiðitími hefst haustið 2003 skal metið hvort grípa verði til enn frekari aðgerða, svo sem sölubanns eða alfriðunar stofnsins um eitthvert árabil.

Greinargerð.


    Hafið er yfir allan vafa að ástand rjúpnastofnsins er afar bágborið um þessar mundir og að teknu tilliti til vel þekktra sveiflna er ljóst að stofninn hefur verið á hægfara niðurleið um langt árabil. Staðkunnugum mönnum á helstu varp- og uppeldisslóðum rjúpunnar, sem eru ekki hvað síst á Norð-Austurlandi, ber nær undantekningarlaust saman um að ástandið hafi versnað jafnt og þétt. Nú síðast hefur Náttúrufræðistofnun komist að þeirri niðurstöðu að ástæða sé til þess að hafa alvarlegar áhyggjur af stöðu stofnsins og mun setja rjúpuna á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Fjölmargir landeigendur, gamalreyndir veiðimenn, sveitarstjórnir og fleiri aðilar hafa að undanförnu látið í sér heyra um málið og sent frá sér ályktanir og áskoranir til stjórnvalda um að gripið verði til aðgerða. Í hópi þessara baráttumanna fyrir verndun rjúpnastofnsins er Árni G. Pétursson, fyrrverandi ráðunautur á Vatnsenda á Melrakkasléttu, en hann hóf baráttu fyrir því fyrir nokkrum árum að rjúpan yrði sett á válista.
    Að sjálfsögðu kunna að vera skiptar skoðanir um hvaða aðgerðir séu vænlegar til verndar rjúpnastofninum. Hafa menn í því sambandi nefnt kosti allt frá því einu að auka rannsóknir og eftirlit með rjúpunni án þess að grípa til neinnar friðunar fyrst um sinn. Eru færð fram þau rök að fyrst þurfi að rannsaka hversu stór þáttur veiðiálagið sé í afkomu stofnsins eða jafnvel hvort veiðar hafi yfir höfuð nokkur áhrif. Aðrir hafa mælt með því að sala á rjúpum eða jafnvel allri villibráð verði bönnuð til þess að draga úr magnveiði. Einnig er þekkt sums staðar í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi, að veiði sé bundin við tiltekinn fjölda fugla á dag. Enn aðrir, og þeim fjölgar nú ört, ganga svo langt að leggja til tafarlausa alfriðun rjúpunnar um ótilgreindan tíma þar til stofninn hefur náð sér. Sú tillaga sem hvað víðtækastur stuðningur virðist vera við er að stytta veiðitímann. Er þá oftast talað um að færa upphaf veiðitímans aftur, að minnsta kosti til 1. nóvember. Eins ætti að vera útlátalaust að fella niður veiði í desember. Bent er á að til viðbótar því að draga úr veiðiálagi mundi þetta koma að gagni til verndar landi á viðkvæmu tímabili í bleytutíð á haustin. Tillagan gerir því ráð fyrir að umhverfisráðherra verði falið að grípa til slíkra aðgerða þegar á þessu hausti. Með öllu er óviðunandi að því sé borið við haust eftir haust að ekki sé tími til aðgerða fyrr en að ári liðnu. Í því sambandi er rétt að fram komi að flutningsmaður tillögu þessarar lagði fyrirspurn fyrir umhverfisráðherra þegar í upphafi þings síðasta haust um hvort fyrirhugaðar væru aðgerðir til verndar rjúpunni. Því miður sá ráðherra sér ekki fært að svara fyrirspurninni fyrr en eftir að veiðitíminn var hafinn og var því þá eðlilega borið við að of seint væri að aðhafast nokkuð á því hausti. Jafnframt styttingu veiðitímans gerir tillagan ráð fyrir að rannsóknir verði efldar og eftirlit aukið þannig að unnt sé að meta eins vel og kostur er hvaða áhrif þessi friðunaraðgerð hefur á viðkomu stofnsins.



Fylgiskjal I.

    

Bréf forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra
um ástand rjúpnastofnsins og tillögur um aðgerðir.

(21. ágúst 2002.)


    Vísað er í fund sem undirritaður átti ásamt Ólafi K. Nielsen, umsjónarmanni rjúpnarannsókna á Náttúrufræðistofnun Íslands, með fulltrúum umhverfisráðuneytis, þeim Ingimar Sigurðssyni og Sigurði Á. Þráinssyni í ráðuneytinu 10. júlí sl.
    Á fundinum var ákveðið að Náttúrufræðistofnun legði fram álit sitt á ástandi rjúpnastofnsins fyrir lok ágústmánaðar ásamt mati á því hvort ástæða væri að grípa til aðgerða honum til verndar og þá hvaða aðgerða.
    Það er rökstutt mat Náttúrufræðistofnunar að rjúpum hafi fækkað verulega á liðnum áratugum, stofnsveiflur séu að sléttast út og stofninn virðist vera í sögulegu lágmarki (samanber hjálagða greinargerð). Vegna þessarar miklu fækkunar mun Náttúrufræðistofnun setja rjúpu á válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Fækkun rjúpunnar getur haft skaðleg áhrif í fæðuvefnum og nægir þar að benda á áhrif hennar á afkomu fálkans. Ísland ber ábyrgð á einum stærsta fálkastofni Evrópu og lífsafkoma fálkans er algjörlega háð rjúpunni. Í ljósi þessa telur Náttúrufræðistofnun að aðgerðir til að snúa við þessari þróun séu bæði réttlætanlegar og nauðsynlegar.
    Náttúrufræðistofnun bendir á að ofveiði er nærtæk skýring á þessari miklu fækkun rjúpunnar. Einnig að lítill munur er í raun á hlutfallslegum afföllum rjúpna í fækkunarárum og fjölgunarárum, þannig að bætist afföll vegna veiða að einhverju eða öllu leyti við önnur afföll, þá má lítið útaf bera til að veiðar hamli vexti stofnsins. Auk þess er takmörkun á skotveiðum eina tækið sem stjórnvöld hafa til að ná skjótum árangri og snúa við þeirri öfugþróun sem hér hefur verið lýst. Líta ber á rjúpnaveiðar sem tómstundagaman en ekki atvinnu. Því leggur Náttúrufræðistofnun til að öll verslun með rjúpur, hvaða nafni sem hún nefnist, verði óheimil og það bann verði ótímabundið. Með sölubanni mætti mögulega takmarka veiðisóknina um helming. Jafnframt þessu leggur stofnunin til að veiðitíminn verði styttur niður í einn mánuð meðan ástand stofnsins er jafn bágt og raun ber vitni og að veitt verði í nóvember eingöngu næstu fimm ár að minnsta kosti. Til greina kemur, einkum m.t.t. hversu stutt er uns rjúpnaveiði hefst í haust, að fresta þessari styttingu veiðitímans til haustsins 2003.
    Náttúrufræðistofnun leggur einnig til að takmörkunum á veiði verði fylgt eftir með rannsóknum. Þessar rannsóknir fælust í því annars vegar að búa til stofnlíkan fyrir rjúpu og hins vegar að bæta vöktun stofnsins umfram það sem þegar er. Tilgangurinn með slíku stofnlíkani væri að skoða möguleg áhrif skotveiða og rándýra á stofnsveiflu rjúpunnar. Slíkt verkefni byggist ekki aðeins á fræðilegri vinnu og úrvinnslu gagna heldur einnig á útivinnu sem miðar að því að breyturnar í líkaninu gefi raunsanna mynd af ástandinu. Með aukinni vöktun er ekki síst átt við að virkja þurfi betur en áður þann kraft sem felst í áhuga þeirra þúsunda veiðimanna sem ganga til rjúpna.


Virðingarfyllst,
Jón Gunnar Ottósson
forstjóri.



Fylgiskjal II.

Ólafur K. Nielsen:

Um ástand rjúpnastofnsins
(21. ágúst 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Bréf Eyþings, Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum,
til umhverfisráðherra.

(24. september 2001.)


    Á aðalfundi Eyþings 31. ágúst og 1. september sl. var eftirfarandi ályktun samþykkt:

    Aðalfundur Eyþings, haldinn í Hrísey 31. ágúst og 1. september 2001, tekur undir erindi Svalbarðshrepps um að stytta rjúpnaveiðitímabilið um 2 vikur. Lagt er til að veiðitímabilið hefjist 1. nóvember. Búast má við að landið þoli frekar ágang veiðimanna eftir að frysta tekur, og veiðin verði meiri íþrótt vegna þess að möguleiki rjúpunnar til lífs eykst.
    Í erindi frá hreppsnefnd Svalbarðshrepps sem lagt var fyrir aðalfund Eyþings kom eftirfarandi fram:
    „Sókn í rjúpnastofninn hefur farið árvaxandi og samfara því hefur utanvegaakstur og landspjöll og sjónmengun af völdum hans orðið æ meira vandamál, sem illa gengur að hafa hemil á, þrátt fyrir tilburði lögreglu og landeigenda í þá veru. Það er skoðun hreppsnefndar Svalbarðshrepps að það væri til verulegra bóta í þessum efnum að hefja veiðar ekki fyrr en 1. nóvember. Þá er jörð yfirleitt tekin að frjósa og snjór kominn í hærri afréttir, en þó nægur tími fyrir þá sem vilja ganga til rjúpna að ná í jólamatinn. Þá er það samdóma álit kunnugra að nú í sumar sé mun minna af varprjúpu hér í Norður-Þingeyjarsýslu en verið hefur undanfarin ár.“

    Ályktun aðalfundarins er hér með komið á framfæri.

f.h. stjórnar Eyþings,

Pétur Þór Jónasson
framkvæmdastjóri.