Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 23  —  23. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Drífa Hjartardóttir,
Þuríður Backman, Guðrún Ögmundsdóttir.


1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. og 2. mgr. 6. gr. skal heimilt að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilgangur frumvarps þessa er að gera þeim sem vilja og getu hafa til kleift að framleiða létt vín úr innlendum ávöxtum og jurtum og að þeir megi bera það fram án þess að slíkur heimilisiðnaður teljist lögbrot. Flutningsmenn telja að rétt sé að lagfæra áfengislögin þannig að framleiðsla léttvíns með tilgreindum hráefnum verði leyfð. Með því aukna frelsi sem hér er lagt til gæti innan fárra ára orðið til þekking við gerð matarvína sem kynni síðar að verða séríslensk framleiðslu- og verslunarvara, t.d. vín úr hreinni náttúruafurð eins og íslenskum berjum.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 126. löggjafarþingi en komst ekki á dagskrá og er því lagt fram að nýju.