Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 28  —  28. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um frekari uppbyggingu endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hrinda í framkvæmd frekari uppbyggingu endurhæfingar við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Greinargerð.


    Á Kristnesi í Eyjafirði er starfrækt eina endurhæfingardeildin utan suðvesturhorns landsins. Nítján virk endurhæfingarrými eru á deildinni sem er of lítið miðað við þarfir upptökusvæðis Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Á endurhæfingarstofnunum á Suðurlandi eru 35–40 rúm að meðaltali nýtt af sjúklingum af Norður- og Austurlandi. Langir biðlistar eru á þeim stofnunum og því einsýnt að aukin afkastageta endurhæfingardeildar á Kristnesi væri hagkvæm lausn. Húsnæðið er til en þarfnast lagfæringa og fjölga þyrfti stöðuheimildum. Raunhæft virðist að stefna að 25 rúma legudeild auk 11 dagvistarrýma sem fyrst og fremst yrðu notuð af sjúklingum frá Akureyri og næsta nágrenni. Sjúklingar sem búsettir eru fjær þyrftu að eiga kost á sjúkrahóteli. Aukin starfsemi endurhæfingardeildar mundi þannig bæta endurhæfingarþjónustu á Norður- og Austurlandi, stytta legutíma endurhæfingarsjúklinga á bráðadeildum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og stytta biðlista vegna endurhæfingar. Þessi aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla hagsbóta í heilbrigðiskerfinu. Að mati Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri næmi rekstrarkostnaður við aukna endurhæfingu u.þ.b. 54 millj. kr. á ári.
    Þessi tillaga er í fullu samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Hún mun auka þjónustuna á Norður- og Austurlandi, verða til hagsbóta fyrir allt það fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda á svæðinu. Þá mundi framkvæmd hennar létta á þessari starfsemi á suðvesturhorninu og hafa jákvæð áhrif fyrir landið allt. Einnig mundu skapast auknir möguleikar fyrir framhaldsendurhæfingu á sjúkrahúsunum á Norður- og Austurlandi, t.d. á Húsavík og Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Aðgerð af þessu tagi mun einnig auka atvinnu á þessu sviði á Eyjafjarðarsvæði og er það í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í byggðamálum eins og þau eru sett fram í nýrri byggðaáætlun.
Fylgiskjal.


Kostnaðaráætlun fyrir stöður vegna aukinnar endurhæfingar.

(Að mati Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.)


Fjöldi Starfsmannafélag Launaflokkur – þrep, janúar 2002
1,50 sérfræðingur LA 302-4 6.650.064 kr.
3,40 hjúkrunarfræðingur FÍH B-3:3 7.317.847 kr.
2,00 yfiriðjuþjálfi 3 BHM 5:3 4.234.200 kr.
1,00 aðstoðarmaður iðjuþjálfa stak A-6:6 1.345.884 kr.
0,50 íþróttafræðingur BHM 201-3 939.684 kr.
1,00 aðstoðarmaður sjúkraþjálfa STAK A-4:5 1.345.884 kr.
0,50 yfirfélagsráðgjafi BHMR 1.101.474 kr.
2,50 yfirsjúkraþjálfi 4 BHMR B-8:2 5.701.800 kr.
0,50 starfsstúlkur Eining 1-3 572.850 kr.
0,50 læknaritarar STAK B-1:5 724.950 kr.
13,40 föst laun dagvinna 29.934.937 kr.
2% aukagreiðsla (persónu-/orlofsuppbót) 598.693 kr.
25% afleysing, yfirvinna, álag 7.483.659 kr.
17% lífeyrissjóðsframlag 6.462.888 kr.
5,23% tryggingagjald 1.988.289 kr.
Samtals áætluð árslaun 46.468.166 kr.
Alm. rekstrargj. áætluð 15% af launak. 6.970.225 kr.
Heildarkostnaður á ársgrundvelli 53.438.391 kr.