Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 45. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 45  —  45. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á vatnalögum, nr. 15/1923.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir.



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í réttri stafrófsröð: Vatnasvið: Landsvæði sem vatn safnast af í sameiginlegan farveg.


2. gr.

    Við 1. mgr. 50. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Flutningur vatnsfalls með meira meðaltalsársrennsli en 4 rúmmetra á sekúndu úr fornum farvegi og yfir á annað vatnasvið er þó aldrei heimill nema að fengnu sérstöku samþykki Alþingis; sama gildir um vatnsmiðlun skv. 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 69. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta hefur verið flutt á tveimur síðustu þingum en í hvorugt skiptið orðið útrætt. Efni þess á brýnt erindi inn í landslög eins og nú háttar til, því í bígerð eru a.m.k. á tveimur stöðum á landinu stórfelldari vatnaflutningar og meiri röskun á náttúrulegu vatnafari en landsmenn hafa áður staðið frammi fyrir. Hér er að sjálfsögðu átt við fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun og tilheyrandi flutning jökulsár á Dal austur í Lagarfljót og fyrirhugaða Norðlingaöldumiðlun í Þjórsárverum sem einnig hefði í för með sér stórfellda röskun á náttúrulegu vatnafari og rennslisháttum. Hverjar sem lyktir þessara mála verða er eftir sem áður nauðsynlegt að sett séu í lög skýrari ákvæði en nú eru til staðar til að tryggja að vatnaflutningar sem slíkir komi alltaf til sjálfstæðrar skoðunar og að vald til að heimila meiri háttar breytingar á náttúrulegum rennslisháttum fallvatna liggi hjá Alþingi. Frumvarpið er því endurflutt óbreytt ásamt þeirri greinargerð sem því fylgdi.
    „Vatnalögin frá 1923 eru með merkari lagabálkum. Þrátt fyrir að vera tæplega átta áratuga gömul halda velflest ákvæði þeirra fullu gildi þó að annað hafi minna gildi við þær aðstæður sem nú ríkja, svo sem ákvæði um áveitur.
    Höfundar laganna hafa verið vel meðvitaðir um mikilvægi þess að mannvirkjagerð, hvort sem heldur væri áveitur, stíflugerð eða vatnstaka til neyslu eða virkjana, raskaði ekki meiru í náttúrunni en óhjákvæmilegt væri. Á mörgum stöðum er vikið að því að hvers kyns breytingum og raski skuli haldið í lágmarki og vatnsfarvegum ekki breytt meira en óhjákvæmilegt sé. Almenna reglan er skýrt mótuð í 1. mgr. 7. gr. laganna þar sem segir: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.“ Frávikin frá þeirri meginreglu laganna helgast svo af því sem nauðsynlegt er vegna nýtingar vatnsorku eða vatnsmiðlunar. Athyglisverð er sú áhersla sem á það er lögð í IV. kafla, um áveitur, að eins lítið sé hróflað við náttúrulegum eða fornum rennslisháttum vatnsfalla og mögulegt er, sbr. t.d. 1. mgr. 41. gr.
    Tæplega hafa menn við setningu vatnalaganna 1923 gert sér í hugarlund að áform yrðu uppi um jafnstórfellda vatnaflutninga og nú eru á dagskrá ef ráðist verður í Kárahnjúkavirkjun eystra og til eru á teikniborði í frumhugmyndum um nokkrar fleiri stórvirkjanir.
    Allmiklir vatnaflutningar hafa þegar átt sér stað á Þjórsársvæðinu og með Kvíslaveitum og tilraun var gerð til að snúa kvíslum úr Skjálfandafljóti við í Vonarskarði þannig að það vatn félli suður af heiðum en ekki norður. Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri einföldu breytingu að allir meiri háttar vatnaflutningar verðir háðir sérstöku samþykki Alþingis í hverju einstöku tilviki. Er tilgangurinn sá að jafnalvarleg breyting og það er í náttúrunni að flytja vatnsfall milli vatnasviða fái ávallt sérstaka umfjöllun og skoðun og Alþingi sjálft taki um slíkt endanlega ákvörðun. Slíkt yrði að sjálfsögðu gert að undangengnu mati á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar og að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Rétt þykir að bæta inn í 1. gr. laganna einfaldri skilgreiningu á orðinu „vatnasvið“ þar sem efni frumvarpsins tekur til þess sérstaklega ef flytja á vatnsföll milli vatnasviða. Vatnasvið er það landsvæði sem vatn safnast saman af í sameiginlegan farveg af nokkru svæði þannig að um verður að ræða skýrt afmarkað vatnsfall. Ekki er með öðrum orðum átti við smákvíslar eða drög heldur meginfarveg sem safnar vatni af nokkru svæði. Á hinn bóginn er ekki gert að skilyrði að vatnsfall hafi sérstakan farveg allt til sjávar. Þverár hafa sín sjálfstæðu vatnasvið, sem aftur eru svo hluti af vatnasviði stærri vatnsfalla. Til að fyrirbyggja misskilning eru svo sett viðmiðunarmörk, sbr. 2. gr. frumvarpsins, þar sem miðað er við tiltekið meðaltalsársrennsli.
    Lagt er til að flutningur vatnsfalls með meira meðaltalsársrennsli en 4 m 3/sek. úr fornum farvegi og yfir á annað vatnasvið verði í öllum tilvikum háður sérstöku samþykki Alþingis. Frumvarpið tekur þannig til flutnings á vatnsföllum með svipað rennsli og Elliðaár í Reykjavík eða meira. Enginn slíkur flutningur í tengslum við virkjanir, sbr. V. kafla, eða vatnsmiðlun, sbr. VI. kafla, yrði heimill nema með sérstöku samþykki Alþingis og þá auðvitað að undangengnu mati á umhverfisáhrifum og að öðrum skilyrðum uppfylltum. Vatnaflutningarnir sem slíkir fengju því alltaf sérstaka skoðun og umfjöllun á Alþingi og þingið sjálft hefði síðasta orðið um hvort leyfðir yrðu.“