Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 121. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 121  —  121. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 37. gr., svohljóðandi:
    Stimpilgjald óþinglýstra skjala skal lækka um fimmtung árlega frá 1. janúar 2003 fram til 1. janúar 2007. Frá þeim tíma skal stimpilgjald af skjölum sem ekki ber skylda til að þinglýsa fellt endanlega niður.
    Stimpilgjald þinglýstra skjala skal lækkað niður í raunkostnað við þá þjónustu sem veitt er við stimplunina 1. janúar 2003.

2. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Taka skal lög þessi til heildarendurskoðunar með tilliti til þess hvort fella eigi þau úr gildi fyrir 1. júlí 2007.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 126. og 127. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga. Það er endurflutt óbreytt.
    Í núgildandi lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er gert ráð fyrir að greitt sé stimpilgjald af íslenskum viðskiptaskjölum. Nokkuð er misjafnt eftir því hvers konar skjal er um að ræða hversu hátt stimpilgjaldið er.
    Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD- ríkjum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Jafnframt má halda því fram að með tilkomu rafrænnar eignarskráningar verðbréfa sé hlutverki stimpilskyldu í raun lokið. Ekki er hægt að stimpla rafræn verðbréf, auk þess sem ekki er um skjöl í eiginlegri merkingu þess orðs að ræða. Einnig má líta svo á að með innheimtu stimpilgjalds af lánum til einstaklinga til húsnæðiskaupa eða annarra nauðsynja sé í raun verið að innheimta nokkurs konar „fátækraskatt“, en þessi lán eru oftast veitt þeim sem ekki hafa efni á að fjármagna húsnæðiskaup eða aðrar nauðsynjar með eigin fé. Þá bendir flutningsmaður jafnframt á að óeðlilegt sé að við skuldbreytingar á lánum sem fjölskyldur hafa tekið sé stimpilgjald innheimt æ ofan í æ. Þarna er á ferðinni gjaldtaka sem er langt umfram það sem þjónustan kostar í raun.
    Hér er lagt til að stimpilgjald af óþinglýstum skjölum verði afnumið í þrepum, þannig að það lækki um fimmtung árlega og falli endanlega niður 1. janúar 2007. Þá er gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar 2003 verði stimpilgjald þinglýstra skjala lækkað niður í raunkostnað við þá þjónustu sem veitt er. Eftir stendur þá þjónustugjald í stað skatts. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð í heild með tilliti til þess hvort fella eigi þau endanlega úr gildi eigi síðar en 1. júlí 2007.