Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 130  —  130. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir,


Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir.



1. gr.

    Við A-lið 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Félagsgjöld sem launþegi hefur greitt til stéttarfélags samkvæmt kjarasamningi eða samþykkt stéttarfélags.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og koma til framkvæmda við álagningu á árinu 2004.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarfélaga verði frádráttarbær frá skatti.
    Yfirskattanefnd hefur markað þá stefnu að félagsgjöld sem fyrirtæki greiða til samtaka atvinnurekenda megi draga frá tekjuskattsstofni. Félagsgjöld sem launþegar greiða til stéttarfélaga sinna hafa hins vegar ekki verið frádráttarbær frá skatti fram að þessu. Flutningsmenn telja engin rök fyrir því misræmi. Það felur í sér ranglæti, jafnt gegn launamönnum sem verkalýðshreyfingunni, og stenst varla jafnræðisreglu.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sú mismunun sem í þessu felst verði afnumin.