Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 131  —  131. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Einar Már Sigurðarson, Svanfríður Jónasdóttir, Jóhann Ársælsson.


1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 30. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá getur Náttúruvernd ríkisins falið sveitarstjórn eða sveitarstjórnum sem land eiga að þjóðgarði umsjón og rekstur hans.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Náttúruvernd ríkisins verði heimilt að fela sveitarstjórn eða eftir atvikum sveitarstjórnum umsjón og rekstur þjóðgarða. Skv. 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, hefur Náttúruvernd ríkisins umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum í samræmi við lög. Í 3. gr. laganna eru þjóðgarðar skilgreindir sem náttúruverndarsvæði. Þá kemur fram í 30. gr. að Náttúruvernd ríkisins geti falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum.
    Samfylkingin er hlynnt valddreifingu og hefur beitt sér fyrir því að verkefni séu færð frá ríki til sveitarfélaga. Í samræmi við það þykir eðlilegt að sveitarstjórn eða sveitarstjórnir sem land eiga að þjóðgarði geti farið með stjórn hans. Þannig er í senn ýtt undir dreifingu valdsins og um leið nýtist þekking og vinnuafl heimamanna á svæðinu.
    Samkvæmt framangreindu hlutverki Náttúruverndar ríkisins þykir rétt að gerður verði samningur um umsjón og rekstur svæðisins milli viðkomandi sveitarfélags eða sveitarfélaga og Náttúruverndar ríkisins, svo sem nánar er kveðið á um í 30. gr. laganna.