Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 158  —  158. mál.




Frumvarp til laga



um skipamælingar.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Skip í lögum þessum tekur til hvers fljótandi fars sem skráð er á íslenska skipaskrá.

2. gr.

    Hvert skip með skráningarlengd 24 metra eða lengri skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í London 23. júní 1969.
    Hvert skip með skráningarlengd allt að 24 metrum skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt reglum sem ráðherra setur að tillögum Siglingastofnunar Íslands.
    Heimilt er að mæla hvert skip og reikna brúttórúmlestatölu þess samkvæmt alþjóðareglum um mælingu skipa, gefnum út af Þjóðabandalaginu 30. júní 1939, eins og mælt er fyrir í samningi, undirrituðum í Ósló 10. júní 1947, með síðari breytingum, eftir nánari reglum sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð.

3. gr.

    Skip sem mælt hefur verið samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal fá alþjóðlegt mælibréf.
    Skip sem mælt er samkvæmt reglum sem ráðherra hefur sett skv. 2. mgr. 2. gr. skal fá íslenskt mælibréf.
    Form mælibréfa skal vera á þann veg sem framangreind alþjóðasamþykkt og reglur mæla fyrir um.

4. gr.

    Skipasmiður eða fyrirsvarsmaður hans skal senda Siglingastofnun Íslands skriflega tilkynningu um smíði skips, sem ætlað er til skráningar hér á landi, ásamt útreikningum á tonnatölum og teikningum og öðrum nauðsynlegum gögnum sem sýna form og fyrirkomulag skipsins. Enn fremur skal hann tilkynna Siglingastofnun Íslands hvenær tímabært er að skoða og mæla skipið.

5. gr.

    Ef skipi er breytt þannig að tonnatala þess breytist er eiganda þess skylt að tilkynna það til Siglingastofnunar Íslands og skal þá senda stofnuninni nýja útreikninga á tonnatölum og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til að ákveða mælingu þess. Að því loknu skal gefa út nýtt mælibréf.

6. gr.

    Þegar skip er skráð á íslenska skipaskrá ber eiganda þess að senda Siglingastofnun Íslands útreikninga á tonnatölum þess og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til þess að ákveða mælingu þess. Heimilt er að taka útreikninga og mælingar sem samþykktar hafa verið af erlendu ríki gildar ef það ríki er aðili að alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

7. gr.

    Siglingastofnun Íslands getur hvenær sem ástæða þykir til endurskoðað mælingu skipa. Einnig geta eigendur skipa fengið skip sín mæld að nýju óski þeir þess.

8. gr.

    Heimilt er að mæla erlent skip við komu hingað til lands hafi það ekki gilt mælibréf samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

9. gr.

    Greiða skal fyrir mælingar skipa, endurmælingu skipa, yfirferð á mælingum, útgáfu og endurútgáfu mælibréfa samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar. Siglingastofnun er einnig heimilt að innheimta ferða- og dagpeningakostnað þeirra sem mælingar skipa annast svo sem hann er ákveðinn hverju sinni.
    Gjöldum skv. 1. mgr. fylgir lögveð í skipi.

10. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um skipamælingar, nr. 50 frá 12. maí 1970, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Siglingastofnun Íslands.
Að undanförnu hafa átt sér stað ýmsar lagabreytingar er varða gjaldtöku opinberra stofnana fyrir veitta þjónustu og hefur ráðuneytið og Siglingastofnun Íslands skoðað með skipulegum hætti hvernig gjaldtökuákvæðum er hagað í lögum sem fjalla um siglingar og gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands. Í því starfi hefur verið miðað við að gjaldtaka Siglingastofnunar Íslands standi undir beinum kostnaði við veitta þjónustu.
    Komið hefur í ljós nokkurt ósamræmi í gjaldskrárákvæðum þeirra laga sem um þetta fjalla. Þannig er t.d. fjallað um gjald fyrir mælingar bæði í lögum um skráningu skipa og í lögum um skipamælingar. Þá er tekið fram að gjald fyrir mælingu skipa í lögum um skipamælingar skuli miðast við brúttórúmlestir. Sú mælieining hefur verið minna notuð og í stað hennar eru skip nú mæld í brúttótonnum í auknum mæli. Markvisst er unnið að því að leggja niður mælingu sem miðast við brúttórúmlestir og miða við brúttótonn þess í stað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Grein þessi er efnislega samhljóða 1. gr. gildandi laga um skipamælingar, nr. 50/1970, með síðari breytingum. Miðað er við að lögin taki til allra skipa sem skráð eru á íslenska skipaskrá samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

Um 2. gr.

    Í greininni segir að skip skuli mæla samkvæmt þeim alþjóðasamþykktum sem á hverjum tíma gilda um mælingu skipa og Ísland er aðili að.
    Um mælingu skipa sem eru 24 metrar að lengd eða lengri er gert ráð fyrir að brúttótonnatala þeirra verði reiknuð samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í Lundúnum 23. júní 1969.
    Um mælingu skipa sem eru styttri en 24 metrar er gert ráð fyrir að samgönguráðherra setji reglur að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands.
    Í 3. mgr. kemur fram að heimilt sé að mæla skip eftir brúttórúmlestatölu samkvæmt alþjóðasamþykkt um skipamælingar frá 1947 og er lagt til að samgönguráðherra setji um það ákvæði í reglugerð ef ákveðið verður að nýta þessa heimild laganna. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að breyta ákvæðum í lögum sem miða við stærð skipa, t.d. vegna gjaldtöku, lögskráningar, atvinnuréttinda áhafna eða veiðiréttindi, þannig að tekið sé mið af brúttótonnum í stað brúttórúmlesta. Í nokkrum lögum er þó enn miðað við brúttórúmlestir, t.d. er viðmiðun atvinnuréttinda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna enn í brúttórúmlestum, sbr. ákvæði laga um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og nr. 113/1984, með síðari breytingum. Í ljósi þess að enn eru ákvæði í lögum sem miða við brúttórúmlestir skipa, t.d. um atvinnuréttindi áhafna skipa og veiðiheimildir er lagt til að heimild verði í lögum enn um sinn að til mæla skip í brúttórúmlestum. Samgönguráðherra getur ákveðið að þessi heimild laganna verði ekki nýtt.

Um 3. gr.

    Hér er kveðið á um að skip sem mæld eru samkvæmt Lundúnasamþykktinni skuli fá útgefið alþjóðlegt mælibréf, sem Siglingastofnun Íslands gefur út á sérstöku formi sem mælt er fyrir um í samþykktinni.
    Skip mæld samkvæmt reglum sem ráðherra setur fá íslenskt mælibréf sem Siglingastofnun Íslands gefur út.
    Ákvæði þessarar greinar eru sambærileg við ákvæði 13. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.

    Grein þessi er sambærileg við 4. gr. gildandi laga.

Um 5. gr.

    Grein þessi er sambærileg við 5. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Hér er fjallað skráningu skips á íslenska skipaskrá, en þá skal eigandi þess senda Siglingastofnun Íslands útreikninga á tonnatölum skipsins og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til þess að ákveða mælingu þess. Siglingastofnun Íslands er heimilt er að taka útreikninga og mælingu gilda sem samþykktar hafa verið af erlendu ríki sem aðili er að Lundúnasamþykktinni, sbr. 2. gr.

Um 7. gr.

    Hér er gert ráð fyrir Siglingastofnun Íslands geti hvenær sem ástæða þykir til endurskoðað mælingu skipa. Einnig er við það miðað að eigendur skipa geti fengið skip sín mæld að nýju óski þeir þess. Þetta getur átt við ef uppgötvast að mistök eða villa hafi orðið við mælingu skipsins eða að skipinu hafi á einhvern hátt verið breytt.

Um 8. gr.

    Með grein þessari er Siglingastofnun Íslands heimilt að mæla skip við komu hingað til lands sem skráð er á erlendri skipaskrá og ekki hefur gilt mælibréf samkvæmt Lundúnasamþykktinni, sbr. 2. gr. Á þetta getur reynt við töku ýmissa gjalda sem miðast við stærð skipa, t.d. vitagjöld og hafnagjöld.

Um 9. gr.

    Hér er lagt til að Siglingastofnun Íslands setji gjaldskrá fyrir veitta þjónustu samkvæmt lögunum og er miðað við að gjaldtaka nemi beinum kostnaði stofnunarinnar við yfirferð mælinga, útgáfu og endurritun mælibréfs. Gert er ráð fyrir að gjaldskráin nemi aldrei hærri upphæð en svarar sannanlegum kostnaði Siglingastofnunar af því að veita þjónustuna, svo sem tímagjald sérfræðinga, prentun skírteina o.s.frv. Siglingastofnun hefur lagt mat á hve langan tíma sé verið að mæla skip í hverjum stærðarflokki fyrir sig byggt á tímaskráningu og reynslu skoðunarmanna. Miðað er við stærð skipa, tillit tekið til búnaðar skipategunda o.s.frv.

Um 10. gr.

    Hér er kveðið á um refsingar við brot á ákvæðum laganna.

Um 11. gr.

    Miðað er við að lögin, verði frumvarpið að lögum, öðlist þegar gildi og leysa þau af hólmi gildandi lög um skipamælingar, nr. 50 frá 12. maí 1970, með síðari breytingum.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skipamælingar.

    Tilgangur frumvarpsins er að samræma gjaldskrárákvæði í lögum sem kveða á um siglingar og gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands. Miðað er að því að gjaldtakan standi undir beinum kostnaði við veitta þjónustu. Einnig er í frumvarpinu lagt til að gjald fyrir mælingu skipa skuli miðast við brúttótonn en ekki brúttórúmlestir. Verði frumvarpið að lögum falla jafnframt úr gildi lög um skipamælingar, nr. 50 frá 12. maí 1970, með síðari breytingum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.