Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 168. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 168  —  168. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Um útlendinga sem falla undir EES-samninginn eða stofnsamning EFTA gilda sérreglur, sbr. ákvæði VI. kafla.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Útlendingur, sem fellur undir reglur EES-samningsins (EES-útlendingur) eða stofnsamnings EFTA (EFTA-útlendingur), má koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast eða starfa hér á landi í allt að þrjá mánuði frá komu hans til landsins, eða allt að sex mánuðum ef hann er í atvinnuleit. Dvöl í öðru norrænu landi skal ekki draga frá dvalartímanum.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Útlendingur, sem greinir í viðauka K við stofnsamning EFTA, sbr. b-lið ii í 16. gr. 1. viðbætis, má koma til landsins án sérstaks leyfis og veita þjónustu í allt að 90 starfsdaga á almanaksári.
     c.      Í stað orðsins „EES-útlendingur“ í 2. mgr. (sem verður 3. mgr.) kemur: EES- eða EFTA-útlendingur.

3. gr.

    Í stað orðsins „EES-útlendingur“ í upphafi 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: EES- eða EFTA-útlendingur, þó ekki útlendingur sem greinir í 2. mgr. 35. gr.

4. gr.

    Í stað orðsins „EES-útlendingi“ í 1. og 3. mgr. 42. gr. og 1. og 3. mgr. 43. gr. laganna kemur: EES- eða EFTA-útlendingi.

5. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA).

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér beytingar á lögum um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, til samræmis við ákvæði nýs stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), svonefnds Vaduz-samnings, en lögin öðlast gildi 1. janúar 2003. Á síðasta þingi var einnig samþykkt heimild til að fullgilda þennan nýja stofnsamning EFTA og hefur hann þegar öðlast gildi. Þá voru einnig samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum vegna hins nýja stofnsamnings, lög nr. 76/2002, þar sem m.a. var breyting á lögum um eftirlit með útlendingum frá 1965. Ákvæðum frumvarps til laga um útlendinga var hins vegar ekki breytt af þessu tilefni og lögin samþykkt án slíkra breytinga.
    Með hinum nýja stofnsamningi EFTA var ákveðið að reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga skuli einnig gilda gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að EES. Skulu reglur þessar þannig einnig gilda gagnvart Sviss, en önnur EFTA-ríki, Ísland, Liechtenstein og Noregur, eru þegar aðilar að EES. Í EFTA-samningnum er eitt ákvæði sem er víðtækara en EES-reglur. Er það ákvæði í 20. gr. samningsins, sbr. og viðauka K, sbr. b-lið ii í 16. gr. 1. viðbætis. Varðar það einstaklinga, óháð þjóðerni, sem starfa hjá aðila sem veitir þjónustu og er hluti af almennum vinnumarkaði EFTA-ríkis. Þessum einstaklingum skal vera heimilt að koma til annars aðildarríkis og veita þjónustu á yfirráðasvæði þess í allt að 90 raunverulega starfsdaga á almanaksári.
    Með frumvarpinu er lagt til að hvarvetna í lögunum þar sem vísað er til EES-samningsins eða EES-útlendings verði einnig vísað til EFTA-samningsins, stofnsamningsins eða útlendings. Ekki er um að ræða aðrar efnisbreytingar á lögunum ef undan er skilið hið nýja ákvæði b-liðar 2. gr. frumvarpsins (ný 2. mgr. 35. gr.) sem vikið er að í b-lið í 16. gr. 1. viðbætis og ákvæði 3. gr. frumvarpsins (breyting á 1. mgr. 36. gr.) þar sem vísað er til 2. mgr. 35. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að í 2. mgr. 1. gr. laganna verði vísað til EES-samningsins og stofnsamnings EFTA og svo til VI. kafla laganna án fulls heitis samninganna, en heitin komi hins vegar fram í fyrirsögn VI. kafla laganna, sbr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lagt til að tilvísun til frjálsra fólksflutninga í 1. mgr. 35. gr. laganna falli niður en með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að í fyrirsögn komi fram að um sérreglur sé að ræða. Þá er lagt til að á eftir orðinu „dveljast“ komi orðin „eða starfa“. Heimild til að koma til landsins byggist einnig á öðrum reglum, svo sem varðandi ferðamenn, og ákvæði eru í kaflanum um komu í öðru skyni, sbr. m.a. c- og d-lið 1. mgr. 36. gr. laganna, sbr. og 37. og 38. gr.
    Í b-lið er nýtt sérákvæði um þá útlendinga, án tillits til þjóðernis, sem falla undir viðauka K við EFTA-samninginn, sbr. b-lið ii í 16. gr. 1. viðbætis, og starfa hjá aðila sem veitir þjónustu og er hluti af almennum vinnumarkaði EFTA-ríkis, sendur til að veita þjónustu hér á landi. Mega þessir útlendingar koma til landsins og veita þjónustu í allt að 90 raunverulega starfsdaga á almanaksári. Lagt er til að í sjálfum lagatextanum verði vísað til ákvæða í stofnsamningnum sjálfum en að öðru leyti verði kveðið á um stöðu þessara útlendinga í reglugerð, sbr. nú reglugerð um dvöl útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverlsunarsamtaka Evrópu, nr. 674 20. desember 1995.
    C-liður þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Hér er gert ráð fyrir að lagaákvæðið nái ekki til þeirra útlendinga sem getið er í b-lið 2. gr. frumvarpsins (nýrri 2. mgr. 35. gr.).

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Lagt er til að orðinu „sérreglur“ verði bætt við fyrirsögn VI. kafla. Má þá fella niður orðin „um frjálsa fólksflutninga“ í 1. mgr. 35. gr., sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2002, um útlendinga.

    Frumvarp þetta miðar að því að lögum um útlendinga verði breytt á þann veg að reglur EES-samningsins um frjálsa fólksflutninga gildi einnig gagnvart EFTA-ríkjum sem ekki eru aðilar að samningnum. Ekki er talið að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.