Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 181. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 182  —  181. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
             Almennt tryggingagjald skal vera 4,84% af gjaldstofni skv. III. kafla.
     b.      4., 5., 6. og 7. mgr. falla brott og breytist töluröð annarra málsgreina í samræmi við það.
     c.      Í stað tilvísunarinnar „8. mgr.“ í 9. og 10. mgr. kemur: 4. mgr.

2. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Hafi Tryggingastofnun ríkisins fallist á umsókn um almannatryggingar hér á landi skv. 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, skal heimilt að taka við greiðslu tryggingagjalds og fullnægja þannig skilyrðum almannatryggingalaga um greiðslu þess. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja reglur um upplýsinga- og skýrslugjöf og eftir atvikum reglur um rafræn skil samkvæmt þessari málsgrein.

3. gr.

    Við 13. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Hafi innheimtumaður hafið aðför vegna vangoldinnar staðgreiðslu tryggingagjalds skulu þau aðfararúrræði sem innheimtumaður hefur gripið til halda lögformlegu gildi sínu eftir álagningu tryggingagjalds vegna þess hluta kröfunnar sem rekja má til vangoldinnar staðgreiðslu.
    Séu ekki gerð fullnægjandi skil á álögðu eða endurákvörðuðu tryggingagjaldi innan 15 daga frá eindaga er innheimtumanni heimilt með aðstoð lögreglu að stöðva atvinnurekstur launagreiðanda með innsigli á starfsstöðvar, skrifstofur, útibú, tæki og vörur þar til full skil hafa farið fram.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lagafrumvarpi þessu eru lagðar til fjórar breytingar á lögum um tryggingagjald. Sú fyrsta varðar lækkun á almenna hluta tryggingagjaldsins um 0,27%. Í öðru lagi er um að ræða niðurfellingu nokkurra ákvæða um gjaldflokka tryggingagjalds sem lokið hafa hlutverki sínu. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða samræmingu á lögum þessum við ákvæði almannatryggingalaga, þar sem greiðsla á tryggingagjaldi er í ákveðnum tilvikum gerð að skilyrði fyrir rétti til bótagreiðslna úr almannatryggingakerfinu. Að lokum eru lagðar til breytingar sem lúta að samræmingu innheimtuúrræða vegna vangoldins tryggingagjalds við þær reglur sem gilda um innheimtu vangoldins tryggingagjalds í staðgreiðslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að sú hækkun á tryggingagjaldi sem samþykkt var með lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt o.fl. og taka á gildi 1. janúar 2003, gangi til baka að hluta. Er sú lækkun sem hér er lögð til í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags við aðila vinnumarkaðarins frá 13. desember 2001. Þar kemur m.a. fram að gangi verðlagsmarkmið kjarasamninga eftir muni ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingjalds um 0,27% á árinu 2003.
    Í b-lið er lagt til að ákvæði um gjaldflokka tryggingagjalds sem ekki eru lengur í gildi verði felld brott.
    Í c-lið er lögð til breyting sem leiðir af breytingum á b-lið frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er gert ráð fyrir því að menn geti haldið rétti sínum til almannatrygginga hér á landi þó að þeir flytjist til starfa á erlendum vettvangi. Þetta er annars vegar háð því að gerður sé samningur á milli íslenskra tryggingayfirvalda og sambærilegra erlendra yfirvalda um þetta efni og hins vegar að tryggingagjald sé greitt hér á landi. Samkvæmt íslenskum rétti er tryggingagjaldið skattur, en í því felst að gjaldið lýtur þeim ströngu kröfum sem um skattlagningarheimildir gilda samkvæmt stjórnarskrá. Laun sem greidd eru af starfsstöðvum íslenskra félaga í útlöndum mynda ekki stofn til tryggingagjalds hér á landi, né heldur teljast slíkar starfsstöðvar til gjaldskyldra aðila samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald. Á sama hátt er skattyfirvöldum ekki heimilt að leggja á aðra skatta en þá er lög beinlínis kveða á um og skilgreindir eru sem slíkir í lögum. Því er í reynd ekki unnt að stofna þann rétt sem kveðið er á um í 9. gr. b laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, nema með þeirri lagabreytingu sem hér er kynnt. Til þess að tryggja þá réttarvernd sem kveðið er á um í 9. gr. b almannatryggingalaga hefur fjármálaráðuneytið til skamms tíma séð til þess að erlendir launagreiðendur, sem vilja fullnægja ákvæðum 9. gr. b, geti greitt inn á sérstakan viðskiptareikning hjá Fjársýslu ríkisins fjárhæð sem er jöfn því tryggingagjaldi sem ella hefði verið greitt af þeim launum sem um ræðir. Þessi farvegur var þó einungis bráðabirgðaúrræði þar til unnt yrði að gera nauðsynlegar lagfæringar á lögum um tryggingagjald. Í 2. gr. frumvarpsins eru slíkar lagfæringar lagðar til. Þar er gert ráð fyrir að hafi Tryggingastofnun ríkisins fallist á að skilyrðum tryggingaverndar sé fullnægt verði heimilt að greiða tryggingagjald af launum starfsmanna, sem almennt eru ekki tryggingagjaldsskyld. Gert er ráð fyrir að gjaldstigið sé það sama og fram kemur 2. gr. laganna, eða 5,64% frá næstu áramótum verði frumvarp þetta að lögum.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að þau úrræði sem innheimtumaður hefur eftir að álagning tryggingagjalds hefur farið fram verði samræmd við þau sem hann hefur vegna vangoldinnar staðgreiðslu.Samkvæmt gildandi reglum hefur krafa um vangoldið tryggingagjald í staðgreiðslu í reynd fallið niður við álagningu og við það stofnast ný krafa. Það hefur haft það í för með sér að aðfarargerðir sem gerðar hafa verið vegna vangoldinnar staðgreiðslu tryggingagjalds verða að engu við álagningu, þannig að hefjast verður handa að nýju með aðför vegna álagðs tryggingagjalds. Ákvæðið sem hér er lagt til á sér fyrirmynd í 10. mgr. 110. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að því er varðar tekjuskatt af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu og eftir álagningu. Þá er og gert ráð fyrir því að innheimtumaður hafi sömu heimildir til að loka atvinnurekstri vegna vangoldins tryggingagjalds eftir álagningu og hann hafði vegna sama vangoldna tryggingagjalds í staðgreiðslu.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1990,
um tryggingagjald, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tryggingagjald. Aðeins ein þeirra, þ.e. lækkun á almennum hluta tryggingagjaldsins um 0,27%, hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs á næsta ári. Sú breyting er í samræmi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags aðila vinnumarkaðarins frá 13. desember árið 2001. Þar kemur m.a. fram að gangi verðlagsmarkmið kjarasamninga eftir muni ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,27% á árinu 2003. Sú lækkun er talin skerða tekjur ríkissjóðs um 900 m.kr. og er þegar gert ráð fyrir henni í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003.