Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 183. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 184  —  183. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Skuldbindingar sem stofnað er til áður en leyfi er afturkallað skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.
     b.      3. málsl. 4. mgr. orðast svo: Skuldbindingar sem stofnað er til áður en útibú er útilokað frá aðild að sjóðnum skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram vegna athugasemdar Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu tilskipunar 97/9/EB, um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í 6. gr. tilskipunarinnar segir að skuldbindingar skuli njóta tryggingaverndar þar til starfsleyfi viðkomandi fjármálafyrirtækis er afturkallað. Í 8. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, segir hins vegar að skuldbindingar, sem stofnað er til áður en frestur fjármálafyrirtækis til að uppfylla skyldur sínar rennur út, skuli njóta tryggingaverndar. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til njóta viðskiptavinir aðildarfyrirtækja Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tryggingaverndar þangað til starfsleyfi viðkomandi fjármálafyrirtækis er afturkallað, í samræmi við tilskipun nr. 97/9/EB, um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/1999,
um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

    Markmiðið með frumvarpinu er að treysta innstæðutryggingavernd fjármálafyrirtækja í samræmi við tilskipun nr. 97/9/EB, um tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.