Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 241. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 245  —  241. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra skipar sjö menn og jafnmarga til vara í erfðanefnd landbúnaðarins að fengnum tilnefningum frá Bændasamtökum Íslands, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Skógrækt ríkisins, Veiðimálastofnun og umhverfisráðuneyti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.
    Helstu verkefni nefndarinnar eru:
     a.      að annast samráð innan lands um varðveislu erfðalinda í landbúnaði,
     b.      að hvetja til rannsókna á sviði erfðalinda í landbúnaði,
     c.      að stuðla að miðlun þekkingar um erfðalindir og gildi þeirra, jafnt með kennslu sem upplýsingagjöf til almennings,
     d.      að veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um varðveislu og nýtingu erfðalinda í landbúnaði,
     e.      að annast samskipti við erlenda aðila á þessu sviði í samstarfi við tengiliði Íslands hjá alþjóðastofnunum.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um verkefni nefndarinnar og nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar á ákvæðum þessarar greinar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 127. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.     
    Á undanförnum áratugum hefur orðið mikil vakning um gildi varðveislu þeirra verðmæta sem felast í fjölbreytileika náttúrunnar, svonefndra erfðalinda.
    Á plöntusviðinu hefur frá árinu 1974 verið starfræktur alþjóðlegur upplýsingabanki, „International Plant Genetic Resources Institute“ (IPGRI), í Róm. Skógrækt fellur einnig undir IPGRI. Á húsdýrasviðinu er starfræktur gagnagrunnurinn DAD–IS (Domestic Animal Diversity Information System) í samvinnu við FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Á sviði skógræktar hefur frá árinu 1967 verið starfandi á vegum FAO ráð um erfðalindir í skógrækt, „FAO Panel of Experts on Forest Gene Resources“. Undir þessari nefnd hefur starfað önnur sem hefur annast heildarúttekt á skógum heimsins, „Forest Resource Assessment 2000“ (FRA–2000).
    Samstarf um varðveislu erfðalinda í ferskvatnsfiskum er einkum á vegum Alþjóðlega hafrannsóknaráðsins (International Committee for the Exploration of the Sea, ICES) og Alþjóðlegu laxaverndunarstofnunarinnar (North Atlantic Salmon Conservation Organization, NASCO). Veiðimálastofnun tekur þátt í starfi þessara stofnana.
    Árið 1992 var haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna ráðstefna í Rio de Janeiro um umhverfismál. Á ráðstefnunni var undirritaður alþjóðlegur sáttmáli um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Íslendingar eru aðilar að þessum sáttmála. Meginmarkmið sáttmálans eru eftirfarandi:
          Verndun líffræðilegs fjölbreytileika og trygging fyrir erfðabreytileika.
          Sjálfbær nýting lifandi auðlinda.
          Sanngjörn skipting hagnaðar af erfðalindum.
    Árið 1996 hratt FAO af stað áætlun er nefnist „Global Strategy for the Management of Farm Animal Genetic Resources“. Sama ár var haldin ráðstefna í Leipzig á vegum FAO, „International Technical Conference on Plant Genetic Resources“. Fyrir Leipzig-ráðstefnuna þurftu þátttökulöndin að skila skýrslu um plöntuerfðalindir sínar. Íslensku skýrslunni ritstýrði Þorsteinn Tómasson, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Í Leipzig var ákveðið að setja af stað „Global Plan of Action for the Conservation and Sustainable Utilization of Plant Genetic Resources“. Ráðstefna var svo haldin í Róm í desember 1996 til þess að fylgja eftir ákvörðunum Leipzig-ráðstefnunnar.
     Árið 1979 stofnaði norræna ráðherranefndin Norræna genbankann (NGB). Tilgangurinn með stofnun hans var að koma á fót svæðismiðstöð vegna varðveislu erfðaefnis plantna á Norðurlöndum í náinni alþjóðlegri samvinnu á þessu sviði. Íslendingar hafa frá upphafi tekið virkan þátt í samstarfinu um Norræna genbankann og núverandi stjórnarformaður bankans er dr. Áslaug Helgadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Norræni genbankinn fyrir húsdýr (NGH) var stofnaður 1984. Hlutverk hans er að stuðla að skráningu og varðveislu fjölbreytileika í erfðaefni húsdýra, en ekki hefur verið starfrækt sams konar „bankastarfsemi“ og á plöntusviðinu. Núverandi stjórnarformaður Norræna genbankans fyrir húsdýr er dr. Emma Eyþórsdóttir, forstöðumaður búfjársviðs Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
    Árið 1998 gáfu forsætisráðherrar Norðurlanda út yfirlýsingu um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum. Á landbúnaðarsviðinu hefur í framhaldi af því verið samþykkt áætlun, „Strategi för hållbart bevarende af genetiska ressurser i Norden“. Til þess að hafa umsjón með nánara samstarfi á þessu sviði hefur verið stofnað „Nordisk genressursråd“. Fulltrúi Íslands í ráðinu er Þorsteinn Tómasson, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Jafnframt hafa Norðurlönd samþykkt að gera hvert fyrir sig áætlanir til þess að skipuleggja varðveislustarfið í sínum löndum.
    Hér á landi hófst skipulegt starf á þessu sviði með stofnun erfðanefndar búfjár samkvæmt lögum um búfjárrækt, nr. 84/1989. Núverandi erfðanefnd er skipuð samkvæmt ákvæðum 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, og eiga sæti í henni fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veiðimálastofnun. Nefndinni er ætlað að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í helstu búfjárstofnum og ferskvatnsfiskum og gera tillögur til landbúnaðarráðherra um verndun tegunda og stofna í útrýmingarhættu. Reglugerð hefur ekki verið sett um starf nefndarinnar. Fjárveiting til starfsemi erfðanefndar búfjár er ákveðin í þjónustusamningi Bændasamtaka Íslands og ríkisins undir framlögum til búfjárræktar og nemur 2.500 þús. kr. á ári.
     Þessi ákvæði eru ekki í samræmi við skuldbindingar sem Íslendingar hafa tekist á hendur með þátttöku í alþjóðlegu og norrænu samstarfi á þessu sviði. Með frumvarpi þessu er lagt til að hlutverk erfðanefndar aukist og hún fjalli um varðveislu erfðalinda í landbúnaði á breiðum grundvelli, þ.e. fjalli um húsdýr, nytjajurtir og tré. Lagt er til að skipan nefndarinnar breytist í samræmi við það. Sérstaða Íslands er veruleg í þessu efni þar sem stór hluti þess plöntuerfðaefnis sem hér er notað í ræktun er af útlendum uppruna. Búfjárræktin byggist hins vegar að miklu leyti á gömlum búfjárkynjum sem eru sérstæð í hópi framleiðslukynja. Umhverfis- og menningarsjónarmið eru því ríkur þáttur í umræðunni og eðlilegt að þau fái sinn sess í stefnumótunarstarfinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæði greinarinnar gera ráð fyrir að verksvið erfðanefndar verði aukið og nái til verndunar allra erfðalinda í landbúnaði. Samkvæmt 16. gr. búnaðarlaga eins og hún hljóðar nú tekur verkefni erfðanefndar búfjár einungis til skráningar og varðveislu erfðabreytileika í helstu búfjárstofnum og ferskvatnsfiskum. Lagt er til að erfðanefnd fjalli framvegis einnig um nytjajurtir og tré. Er það í samræmi við alþjóðlegar og norrænar skuldbindingar Íslendinga á þessu sviði. Í samræmi við aukið hlutverk nefndarinnar er lagt til að skipan hennar breytist og nefndarmönnum fjölgi úr fimm í sjö. Lagt er til að Skógrækt ríkisins tilnefni mann í nefndina og að landbúnaðarráðherra skipi formann nefndarinnar án tilnefningar. Þá er lagt til að í stað Náttúrufræðistofnunar Íslands skipi umhverfisráðuneyti mann í nefndina.
    Með skilgreiningunni nytjajurtir og tré er átt við jurtir og tré sem notuð eru í ræktun hér á landi en ekki villtar jurtir og tré. Hafa ber í huga í þessu sambandi að breytingar geta orðið á því hvaða jurtir og tré eru skilgreind sem villt. Til dæmis eru tilraunir nú hafnar með ræktun ýmissa villtra jurta, svo sem hvannar og vallhumals, til nota í fæðubótarefni og lyf. Ef slíkar tilraunir skila góðum árangri mundu þessar ræktuðu jurtir flokkast undir nytjajurtir í skilningi laganna.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum,
nr. 70/1998, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að erfðanefnd fjalli framvegis um nytjajurtir og tré. Gert er ráð fyrir að nefndarmönnum fjölgi um tvo vegna þessa og að greiðslur til þeirra rúmist innan fjárheimilda Bændasamtaka Íslands.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.