Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 242. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 246  —  242. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952 (tvöfaldur ríkisborgararéttur).

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    3. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 49/1982, orðast svo:
    Útlendingur sem hefur átt hér lögheimili og haft hér samfellda dvöl frá því að hann náði 11 ára aldri, eða frá 13 ára aldri sé hann ríkisfangslaus, öðlast íslenskan ríkisborgararétt með því að tilkynna dómsmálaráðuneytinu skriflega þá ósk sína eftir að hann hefur náð 18 ára aldri en áður en hann hefur náð 20 ára aldri.

2. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 49/1982 og 9. gr. laga nr. 62/1998:
     a.      Í stað orðsins „forseti“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: dómsmálaráðherra.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
              Dómsmálaráðherra úrskurðar hvort fullnægt er skilyrði 1. mgr. um dvöl hér á landi til að halda ríkisfanginu, leiki á því vafi.

4. gr.

    9. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 49/1982, orðast svo:
    Dómsmálaráðherra getur leyst þann sem búsettur er erlendis og er orðinn eða óskar að verða erlendur ríkisborgari undan íslensku ríkisfangi, enda sanni aðili að hann verði innan ákveðins tíma erlendur ríkisborgari, ef hann er ekki þá þegar orðinn það. Eigi hann lögheimili hér á landi verður hann eigi leystur frá íslensku ríkisfangi nema sérstakar ástæður séu til að mati dómsmálaráðherra.
    Eigi verður þeim neitað um að verða leystur undan ríkisfangi sem er erlendur ríkisborgari og á lögheimili erlendis.

5. gr.

    9. gr. a laganna fellur brott.

6. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1998, orðast svo:
    Yfirlýsingu skv. 3. gr., 4. gr. og B- og C-lið 9. gr. b um að maður óski að verða íslenskur ríkisborgari getur aðeins sá aðili sjálfur gefið en ekki forsjármaður.

7. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Barn sem er fætt eftir 1. júlí 1964 en fyrir 1. júlí 1982 og hefði öðlast íslenskan ríkisborgararétt ef ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga þessara, sbr. lög nr. 49/1982, hefði verið í gildi er það fæddist öðlast íslenskt ríkisfang með því að tilkynna dómsmálaráðuneyti skriflega þá ósk sína, enda hafi móðir þess verið íslenskur ríkisborgari við fæðingu þess og til 1. júlí 1982.
    Sá sem óskar að öðlast íslenskt ríkisfang skv. 1. mgr. skal fullnægja ákvæði 8. gr. um lögheimili eða dvöl hér á landi fyrir 22 ára aldur.

8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Sá sem misst hefur íslensks ríkisfangs samkvæmt upphaflegum ákvæðum 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefði haldið því ef greinin hefði verið fallin úr gildi á þeim tíma er hann missti íslenska ríkisfangið öðlast það að nýju með því að tilkynna dómsmálaráðherra skriflega þá ósk sína fyrir 1. júlí 2007 enda fylgi henni fullnægjandi gögn að mati ráðuneytisins.
    Sé viðkomandi háður forsjá annarra annast forsjáraðili tilkynninguna.
    Eigi sá sem öðlast íslenskt ríkisfang samkvæmt þessu ákvæði ógift börn undir 18 ára aldri sem hann hefur forsjá fyrir öðlast þau einnig ríkisfangið. Sé barnið orðið 12 ára og hafi erlent ríkisfang skal barnið veita samþykki sitt til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Samþykkis skal þó ekki krafist sé barnið ófært um að veita það sökum andlegrar fötlunar eða annars sambærilegs ástands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Megintilgangur þess er að heimila íslenskum ríkisborgurum að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Skv. 7. gr. núgildandi laga missir sá íslensks ríkisfangs sem hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt umsókn sinni eða skýlausu samþykki, eða með því að ganga í opinbera þjónustu í öðru ríki. Eigi sá sem þannig hlýtur erlent ríkisfang ógift barn sem er undir 18 ára aldri missir barnið einnig íslenskt ríkisfang hafi foreldrið forsjá þess og hitt foreldrið er erlendur ríkisborgari. Sé hitt foreldrið íslenskur ríkisborgari og haldi sínu ríkisfangi missir barnið ekki ríkisfangsins.
    Ákvæði laganna um missi ríkisborgararéttar eru í samræmi við þau samræmdu ríkisborgararéttarlög sem Norðurlöndin hafa búið við frá því á fyrri hluta síðustu aldar. Undanfarin ár hefur verið til umræðu í sumum Norðurlandanna að endurskoða ríkisborgararéttarlögin án þess að fram færi sameiginleg norræn endurskoðun. Svíar riðu á vaðið og ákváðu 1997 að efna til endurskoðunar á sínum lögum. Árangur þeirrar endurskoðunar var að ný ríkisborgararéttarlög tóku gildi í Svíþjóð 1. júní 2001. Lögin eru að ýmsu frábrugðin því sem er í fyrri lögum þeirra en mesta breytingin er þó sú að Svíar heimila tvöfaldan ríkisborgararétt, fella niður missi sænsks ríkisborgararéttar við töku erlends og falla frá kröfunni um að þeim sem veittur er sænskur ríkisborgararéttur samkvæmt umsókn sé skylt að fá lausn frá fyrri ríkisborgararétti.
    Í Noregi og Finnlandi hefur þegar verið hafin endurskoðun ríkisborgararéttarlaganna og hefur ríkisstjórn Finnlands ákveðið að við samningu frumvarpsins skuli miðað við að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði heimill. Ekki hefur verið tekin afstaða í Noregi til þess hvort slíkt verði heimilað þar. Ekki er vitað til að fyrirhuguð sé allsherjarendurskoðun á lögunum í Danmörku og ekkert bendir til að Danir hyggist heimila tvöfaldan ríkisborgararétt nema að mjög takmörkuðu leyti, eins og þegar hefur verið heimilað á öllum Norðurlöndunum.
    Íslensk stjórnvöld hafa orðið vör við verulega óánægju íslenskra borgara með að missa íslenska borgararéttinn þegar þeir hafa tekið erlendan borgararétt, sérstaklega hafa sendiráðin orðið þessa vör. Hér á landi hefur hins vegar ekki verið gerð krafa til þess að þeir sem veittur er íslenskur borgararéttur samkvæmt umsókn fái lausn frá fyrri ríkisborgararétti. Hér á landi hefur slíkt skipt minna máli en í flestum öðrum ríkjum þar sem hér á landi er ekki herskylda en eitt meginsjónarmið við að heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt er að koma í veg fyrir að maður geti haft herskyldu í tveim ríkjum.
    Má í því sambandi benda á að á vegum Evrópuráðsins var árið 1963 gerður samningur um ríkisborgararéttarmálefni með sérstöku tilliti til þess hvernig haga skyldi herskyldu og er í þeim samningi miðað við að forðast beri tvöfaldan ríkisborgararétt. Ísland gerðist aldrei aðili að þeim samningi. Sá samningur hefur verið leystur af hólmi með nýjum Evrópusamningi um ríkisborgararétt sem er mun víðtækari en hefur þó enn að geyma ákvæði varðandi framkvæmd herskyldu. Ísland hefur undirritað þann samning en hann bíður endanlegrar staðfestingar ríkisstjórnarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagðar eru til talsverðar breytingar á 3. gr. laganna. Samkvæmt núgildandi ákvæði á útlendingur rétt á að öðlast ríkisfang með því að tilkynna dómsmálaráðuneytinu þá ósk sína eftir að hann hefur náð 21 árs aldri en innan fullnaðs 23 ára aldurs, enda hafi hann átt hér lögheimili samfleytt frá því að hann náði 16 ára aldri og að auki búið hér áður eigi skemur en fimm ár samanlagt. Hann getur þó gefið þessa yfirlýsingu er hann hefur náð 18 ára aldri eigi hann hvergi ríkisfang eða sanni að hann muni missa ríkisfangs síns er hann öðlast íslenskt, enda hafi hann þegar yfirlýsingin er gefin átt lögheimili hér á landi síðustu fimm árin og að auki búið hér áður eigi skemur en fimm ár samanlagt. Sá sem óskar eftir að öðlast ríkisfang á grundvelli þessa ákvæðis þarf því að hafa búið hér tíu ár samanlagt.
    Samkvæmt 5. gr. a er lögheimiliskrafan nú sjö ár. Verður því að teljast eðlilegt að stytta lögheimilistímann samkvæmt þessari grein einnig í sjö ár. Jafnframt er lagt til að reglan verði einfölduð og viðmið við 21 árs aldur fellt niður þar sem frumvarp þetta miðast við heimild til tvöfalds ríkisborgararéttar og því ekki ástæða til að halda tvenns konar reglu.
    Því er lagt til að regla þessi verði þannig að útlendingur sem á hér lögheimili og hefur haft hér búsetuleyfi og dvalið hér samfellt frá því að hann náði 11 ára aldri, eða frá 13 ára aldri sé hann ríkisfangslaus, geti öðlast íslenskan ríkisborgararétt með yfirlýsingu eftir að hann hefur náð 18 ára aldri en áður en hann hefur náð 20 ára aldri. Ákvæðið miðast eftir sem áður við að heimild þessi sé einungis opin í tvö ár.
    Núgildandi regla hefur að verulegu leyti vikið fyrir ákvæðum 5. gr. a þar sem þær reglur sem þar er að finna eru í flestum tilfellum hagstæðari en ákvæði 3. gr.
    Þá er lagt til að 2. mgr. 3. gr. verði felld niður en hún lýtur að veitingu ríkisfangs þegar Ísland á í ófriði við þann sem eftir íslensku ríkisfangi leitar samkvæmt greininni. Þess má geta að við endurskoðun sænsku laganna var samsvarandi ákvæði í þeirra lögum fellt niður.

Um 2. gr.

    Samkvæmt þessari grein er lagt til að núgildandi 7. gr. falli alfarið niður. Í þessu fellst meginefni frumvarpsins, þ.e. að fella niður ákvæðið að sá missi íslensks ríkisfangs sem öðlast erlent ríkisfang og að sama gildi einnig um ógift börn viðkomandi undir 18 ára aldri sem hann hefur forsjá fyrir.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að í stað þess að forseti geti veitt þeim sem sækir um að fá að halda ríkisfangi sínu leyfi til þess flytjist þessi heimild til dómsmálaráðherra. Með tilliti til þess að lagt er til að tvöfalt ríkisfang verði í ríkara mæli heimilt er ekki talin ástæða til að slíka leyfisveitingu þurfi að leggja fyrir þjóðhöfðingjann.
    Þá er lagt til að bætt verði við 8. gr. nýrri málsgrein þar sem dómsmálaráðherra er falið að úrskurða um hvort fullnægt sé ákvæði 1. mgr. varðandi dvöl hér á landi fyrir 22 ára aldur. Það er í samræmi við þá venju sem verið hefur um árabil að sá sem óskar eftir að nýta sér heimildina til að halda íslensku ríkisfangi á grundvelli dvalar hér á landi án þess að hafa skráð hér lögheimili sitt hefur leitað eftir staðfestingu dómsmálaráðuneytisins á því að dvöl hans hér sé slík að af megi ráða að viðkomandi vilji vera íslenskur ríkisborgari.

Um 4. gr.

    Samkvæmt þessari grein er lagt til að heimildin til að leysa íslenskan ríkisborgara undan íslensku ríkisfangi flytjist frá forseta til dómsmálaráðherra. Þá er lagt til að í stað orðsins þegnskyldu sem notað er í 1. og 2. mgr. greinarinnar komi orðið ríkisfang.
    Með tilliti til þess að veruleg aukning mun verða á ósk um lausn frá íslensku ríkisfangi eftir þá breytingu sem lögð er til með frumvarpi þessu, að íslenska ríkisfangið falli ekki sjálfkrafa niður við töku erlends ríkisfangs, þykir rétt að leggja til að einfalda lausnarveitingu þannig að hana þurfi ekki að leggja fyrir þjóðhöfðingja.
    Þá er lagt til að lausnarheimildin verði þrengd þannig að hún taki fyrst og fremst til þeirra sem búsettir eru erlendis, en þeim sem lögheimili eiga hér á landi verði því aðeins veitt lausn frá ríkisfangi að ráðherra telji að til þess standi sérstakar ástæður.

Um 5. gr.

    Lagt er til að 9. gr. a falli niður þar sem ekki hefur verið gerður samningur samkvæmt henni við önnur ríki og ekki er fyrirsjáanlegt að svo verði enda önnur ákvæði laganna sem taka til þess sem greinin fjallar um, það er missi íslensks ríkisborgararéttar og endurveitingu hans.

Um 6. gr.

    Samkvæmt þessari grein er lagt til að í upptalningu greina í 3. mgr. 10. gr. falli niður vísun til 4. mgr. 9. gr. a þar sem lagt er til að 9. gr. a falli niður.

Um 7. gr.

    11. gr. laganna hefur verið óbreytt frá því að þau tóku gildi 1. janúar 1953. Efni greinarinnar er í eðli sínu bráðabirgðaákvæði og miðast fyrst og fremst við lagaskil. Því er lagt til að efni greinarinnar verði fellt niður en í stað þess komi í 11. gr. ákvæði sem nú er að finna í 11. gr. laga nr. 62 12. júní 1998 um breytingu á lögum þessum og varðar þá sem fæddir eru eftir 1. júlí 1964 en fyrir gildistöku breytingalaganna nr. 49/1982. Í þeirri 11. gr. er kveðið á um heimild barns sem fætt er á þeim tíma og á íslenska móður til að fá íslenskan ríkisborgararétt með yfirlýsingu.
    Greinin er endurskrifuð með tilliti til þess að ekki á lengur við að móðir gefi yfirlýsingu varðandi barnið þar sem allir þeir sem ákvæðið getur tekið til hafa nú náð 18 ára aldri.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðið fjallar um heimild þess sem misst hefur íslensks ríkisfangs skv. 7. gr. laganna til að endurheimta það. Rétt þykir að veita þennan möguleika þeim sem hafa tekið upp erlendan ríkisborgararétt ýmissa ástæðna vegna. Þennan möguleika hafa þó aðeins þeir sem fengið hafa ríkisborgararétt í ríki sem heimilar tvöfaldan ríkisborgararétt. Þannig gætu Íslendingar sem tekið hafa sænskan ríkisborgararétt notfært sér heimildina til að endurheimta íslenskan ríkisborgararétt þar sem sænsk lög heimila nú tvöfaldan ríkisborgararétt. Hins vegar gætu Íslendingar sem tekið hafa danskan ríkisborgararétt ekki notfært sér heimildina þar sem Danir viðurkenna ekki tvöfaldan ríkisborgararétt fyrir þá sem veittur er danskur ríkisborgararéttur. Miðað við ákvæði þessa frumvarps mun Íslendingur sem vill öðlast danskt ríkisfang þurfa að fá lausn frá íslensku ríkisfangi. Sá sem óskar eftir að nýta heimild þessa þarf að leggja fram ýmis gögn með tilkynningu sinni, svo sem fæðingarvottorð, staðfestingu um fyrri íslenskan ríkisborgararétt og einnig upplýsingar um hvort ríki það sem hann nú er ríkisborgari í heimilar tvöfalt ríkisfang, þar sem ætla má að hann kynni að missa sitt erlenda ríkisfang við að fá íslenskt að nýju.
    Lagt er til að heimildin til endurheimtu ríkisfangsins verði tímabundin og lagt til að heimildin gildi í þrjú ár miðað við að lögin taki gildi 1. júlí 2003.



Fylgiskjal I.

Tvöfaldur ríkisborgararéttur.
Afstaða einstakra ríkja.

    Við undirbúning frumvarps að nýjum ríkisborgararéttarlögum í Svíþjóð fór fram könnun á afstöðu nokkurra ríkja til tvöfalds ríkisborgararéttar. Hér á eftir eru teknar saman niðurstöður þeirrar athugunar svo og upplýsingar úr European Bulletin on Nationality.

A. Norðurlönd.
Danmörk.
    Árið 1898 gengu í gildi í Danmörku lög um ríkisborgararétt. Eru það fyrstu lögin þar í landi sem byggjast á þeim meginsjónarmiðum um ríkisborgararétt sem enn eru ríkjandi. Með þeim voru settar m.a. reglur um missi dansks ríkisborgararéttar við töku annars. Var það í fyrsta sinn sem slíkt ákvæði var lögtekið þar. Ný ríkisborgararéttarlög tóku síðan gildi 1925.
    Norðurlöndin endurskoðuðu reglur um ríkisborgararétt á árunum 1946–1949. Urðu þau sammála um fyrirmynd að lögum og voru síðan sett lög í öllum ríkjunum samkvæmt þeirri fyrirmynd á árunum kringum 1950. Íslensku lögin frá 1952 eru samin eftir dönsku lögunum frá 1950. Samkvæmt dönsku og íslensku lögunum veitir þjóðþingið útlendingum ríkisborgararétt og er það samkvæmt sérstöku stjórnarskrárákvæði. Því er ekki ákvæði í lögunum um skilyrði fyrir veitingu réttarins þar sem þjóðþingið verður ekki bundið með lagaákvæði. Samkvæmt reglum danska þingsins er sett það skilyrði við veitingu ríkisborgararéttar að sá sem ríkisborgararéttinn fær afsali fyrri ríkisborgararétti sínum. Hér á landi var það til 1998 einungis Alþingi sem veitti ríkisborgararétt og það var ekki sett sem skilyrði fyrir veitingunni að fyrri ríkisborgararétti væri afsalað.
    Hins vegar er ákvæði í 7. gr. íslensku og dönsku laganna sem segir að sá missi íslensks/ dansks ríkisfangs sem hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt umsókn sinni eða skýlausu samþykki.
    Það er því meginregla í Danmörku að sá sem fær danskt ríkisfang með lögum frá þjóðþinginu skuli missa sitt fyrra ríkisfang. Frá þessu eru þó ýmsar undanþágur í framkvæmd sökum þess að ekki er unnt að segja sig frá ríkisfangi í ýmsum ríkjum. Dönsk lagaframkvæmd miðar þannig að því að koma í veg fyrir tvöfalt ríkisfang.

Noregur.
    Sömu meginreglur gilda í Noregi og í Danmörku varðandi tvöfalt ríkisfang. Þar er það hins vegar framkvæmdarvaldið sem veitir ríkisborgararétt skv. 6. gr. norsku laganna um ríkisborgararétt og þar er krafa um að afla þurfi lausnar frá fyrri ríkisborgararétti áður en norskur tekur gildi.
    Nú er unnið að endurskoðun ríkisborgararéttarlaganna í Noregi og er þar m.a. sérstaklega til skoðunar hvort tvöfaldur ríkisborgararéttur verði almennt heimilaður. Ekki er að vænta ákvörðunar um það fyrr en í fyrsta lagi árið 2003.

Finnland.
    Sama meginregla gildir í Finnlandi varðandi tvöfaldan ríkisborgararétt og í Danmörku og Noregi, tvöfaldan ríkisborgararétt ber að forðast.
    Nú er unnið að samningu nýrra laga í Finnlandi um ríkisborgararétt og í vinnuumboði þeirra sem eru undirbúa lögin er tekið fram að miða skuli við að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði heimill.

Svíþjóð.
    Í Svíþjóð tóku gildi hinn 1. júlí 2001 ný lög um ríkisborgararétt. Þau víkja í ýmsum atriðum frá þeirri fyrirmynd sem gerð var 1950 en byggjast þó að flestu leyti á sömu meginreglum og lög annarra Norðurlanda að því þó undanskildu að afnumin voru ákvæðin um missi sænsks ríkisborgararéttar við töku erlends og sömuleiðis var fellt niður skilyrðið um afsal fyrri ríkisborgararéttar við veitingu sænsks ríkisfangs. Svíþjóð er þannig fyrst Norðurlanda til að heimila tvöfaldan ríkisborgararétt sem almenna reglu.

B. Önnur Evrópuríki.
Austurríki.
    Leyfir ekki tvöfalt ríkisfang við töku erlends ríkisfangs.

Belgía.
    Belgískur borgari glatar belgísku ríkisfangi sínu við að öðlast erlent ríkisfang. Þar er einungis tvöfaldur ríkisborgararéttur viðurkenndur fyrir einstaklinga sem eiga foreldra sem hafa hvort sinn ríkisborgararéttinn.

Bretland.
    Stóra-Bretland heimilar borgurum sínum að halda bresku ríkisfangi eftir að þeir hafa öðlast erlent og ekki er heldur gerð krafa um afsal erlends ríkisfangs við veitingu bresks.

Búlgaría.
    Búlgari þarf að fá lausn frá sínu ríkisfangi til að geta fengið annað.

Frakkland.
    Frakkland viðurkennir regluna um margfaldan ríkisborgararétt.

Grikkland.
    Leyfir tvöfalt ríkisfang.

Holland.
    Þar mun hafa verið heimilað tvöfalt ríkisfang með nýlegri lagabreytingu.

Írland.
    Írar leyfa þeim sem eru af írskum uppruna að halda írskum borgararétti jafnvel þó þeir hafi ekki búið í Írlandi í nokkrar kynslóðir.

Ítalía.
    Ný lög um ríkisborgararétt tóku gildi á Ítalíu árið 1992. Með þeim var gerð sú meginbreyting að ítalskir ríkisborgarar missa ekki ítalskt ríkisfang við að öðlast erlent eins og var samkvæmt fyrri lögum. Ekki er heldur gerð krafa um lausn frá fyrra ríkisfangi við veitingu ítalsks ríkisfangs.

Króatía.
    Ekki er krafist lausnar frá króatísku ríkisfangi við töku erlends.

Kýpur.
    Leyfir tvöfalt ríkisfang.

Lúxemborg.
    Ríkisborgari þar missir ríkisfangið ef hann tekur erlent eftir 18 ára aldur. Afsala þarf fyrra ríkisfangi við töku ríkisfangs þar.

Malta.
    Tvöfalt ríkisfang leyft.

Pólland.
    Í Póllandi er ekki ákvæði um missi pólsks ríkisfangs við töku erlends ríkisborgararéttar en pólskur borgari getur þó fengið lausn frá pólsku ríkisfangi samkvæmt umsókn.

Portúgal.
    Þar mun tvöfalt ríkisfang almennt leyft.

Slóvakía.
    Heimilt að halda fyrra ríkisfangi við töku slóvakísks ríkisfangs ef ekki er hægt að fá lausn frá því. Tvöfalt ríkisfang virðist ekki vera bannað í lögunum.

Spánn.
    Á Spáni er tvöfalt ríkisfang heimilt samkvæmt samningum sem gerðir hafa verið við mörg ríki, einkum ríki Mið- og Suður-Ameríku en einnig Portúgal og Andorra í Evrópu. En að öðru leyti virðist tvöfaldur ríkisborgararéttur ekki vera leyfður. Spánskt ríkisfang þess sem fengið hefur erlent ríkisfang fellur niður eftir þriggja ára búsetu erlendis.

Sviss.
    Gerð var breyting á svissnesku ríkisborgararéttarlögunum árið 1992 og frá þeim tíma er þar viðurkennt að fullu tvöfalt ríkisfang.

Tékkland.
    Meginregla tékkneskra laga er að tékkneskir borgarar hafi ekki annan ríkisborgararétt. Frá því eru þó ýmis frávik, svo sem þegar annað foreldri er erlent. Barn tékknesks foreldris fær þó alltaf tékkneskt ríkisfang.

Tyrkland.
    Tvöfalt ríkisfang almennt leyft.

Ungverjaland.
    Ungverskur ríkisborgari missir ekki ríkisfangið við töku erlends en getur fengið lausn frá því með skilyrðum eftir að hafa fengið annað.

Þýskaland.
    Í Þýskalandi gildir sú meginregla að forðast beri tvöfaldan ríkisborgararétt og sá sem vill öðlast þýskan ríkisborgararétt þarf að fá lausn frá fyrri ríkisborgararétti. Frá þessu eru þó ýmsar undantekningar. Þjóðverji sem tekur erlendan ríkisborgararétt getur eftir síðustu lagabreytingu haldið þýskum í ýmsum tilvikum, einkum ef hann heldur tengslum við landið.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952 (tvöfaldur ríkisborgararéttur).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að íslenskum ríkisborgurum verði heimilt að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.