Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 245. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 249  —  245. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um alla frekari vinnslu afla um borð í skipum en blóðgun og slægingu.
    Vinnsla samkvæmt ákvæðum laga þessara er háð sérstöku leyfi Fiskistofu.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal setja reglugerð um nýtingarstuðla sem gildir um útreikning á nýtingu aflaheimilda einstakra skipa eða skipaflokka sem vinna afla um borð. Um nýtingu afla þeirra skipa gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.


3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „fullvinnsluskipi“ í 1. mgr. kemur: skipi sem leyfi hefur til vinnslu afla.
     b.      Í stað orðsins „fullvinnsluskipum“ í 2. mgr. kemur: skipum sem leyfi hafa til vinnslu afla.

4. gr.

    Í stað orðsins „fullvinnsluleyfi“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: leyfi til vinnslu afla.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fullvinnslu botnfiskafla“ í 1. málsl. kemur: vinnslu afla.
     b.      Í stað orðsins „fullvinnsluskips“ í 2. málsl. kemur: skips.
     c.      Í stað orðsins „fullvinnsluskip“ í lokamálslið kemur: skip sem vinnur afla um borð.

6. gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofu er enn fremur heimilt vegna brota gegn ákvæðum laga þessara, reglna settra samkvæmt þeim og leyfisbréfa að svipta skip leyfi til vinnslu afla um borð.

7. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um vinnslu afla um borð í skipum.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 54 16. maí 1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, var kveðið á um það að öll fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum skyldi óheimil nema að fengnu sérstöku leyfi ráðuneytisins. Í lögunum var fullvinnsla skilgreind þannig að það teldist fullvinnsla ef flökun eða flatning væri þáttur í vinnslu aflans. Í framhaldi af þessu var síðan komið á kerfi varðandi mælingu á nýtingu aflans, sem notað hefur verið að mestu óbreytt síðan. Byggist það á því að nýtingarmælingar fari fram um borð í hverju veiðiskipi sem fullvinni botnfiskafla og að þær mælingar séu grundvöllur fyrir nýtingu aflaheimilda viðkomandi skips. Fiskistofa hefur eftirlit með því að nýtingarmælingar fari fram og að samræmi sé milli útreiknaðrar nýtingar áhafnar og raunnýtingar.
    Lög nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, taka aðeins til vinnslu á botnfiskafla og aðeins þegar flökun eða flatning aflans er þáttur í vinnslunni. Þau taka því ekki til flökunar á uppsjávarfiski eins og t.d. síld eða til vinnslu afla sem felur ekki í sér flökun eða flatningu, t.d. þeirra tilvika þegar afli er hausskorinn eða skorinn með öðrum hætti. Þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma var flökun á uppsjávarfiski um borð í veiðiskipum óþekkt hér á landi og ýmis vinnsla sem ekki felur í sér flökun eða flatningu hefur aukist verulega á undanförnum árum.
    Í frumvarpinu er lagt til að sú breyting verði gerð á lögunum að öll vinnsla á öllum sjávarafla um borð í veiðiskipum sem sé umfram slægingu og ísingu verði háð sérstöku leyfi Fiskistofu og þar með komi önnur ákvæði laganna til með að gilda um alla frekari vinnslu. Þykir nauðsyn bera til að samræma þannig reglurnar um mælingu á nýtingu og eftirlit þannig að þær taki til allra skipa sem vinna afla um borð samkvæmt þessari nýju skilgreiningu. Þó er rétt að geta þess hér að við vinnslu á ákveðinni tegund eða afurð getur þótt rétt að hafa fastan nýtingarstuðul.
    Breytingar á einstökum greinum lúta að þeirri breytingu sem hér hefur gerð grein fyrir auk þeirrar breytingar að Fiskistofu er falið að gefa út leyfi til vinnslu en það er í raun í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur undanfarin ár. Er því ekki ástæða til að skýra einstakar greinar nánar en hér er gert.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1992,
um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að kveða á um fyrirkomulag botnfiskafla um borði í veiðiskipum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.