Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 250  —  246. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 33 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Í stað „16.500 kr.“ í 1. gr. laganna kemur: 17.500 kr.

2. gr.

    Í stað „593 kr.“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: 664 kr.

3. gr.

    Í stað orðsins „fullvinnsluskipa“ í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: skipa sem leyfi Fiskistofu hafa til að vinna afla um borð og skipa sem stærðarflokka rækju um borð.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 34/2000, um breytingu á gjaldtökuákvæðum nokkurra laga á sviði sjávarútvegs, voru m.a. lögfestar fjárhæðir sem renna til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu. Fram að lagabreytingunni var fjárhæðum breytt árlega með reglugerð. Við útreikning á gjaldinu var miðað við áætlaðan kostnað Fiskistofu af rekstri veiðieftirlitsins enda eftirlitsgjaldinu ætlað að standa undir þeim kostnaði. Gjaldinu var skipt þannig niður að leyfishafar greiða annars vegar gjald fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni og hins vegar gjald sem ákvarðast af úthlutuðu aflamagni eða lönduðum afla hvers skips í þorskígildum talið.
    Til að halda sömu reglu er hér lagt til:
     1.      Að gjald fyrir leyfi til veiða í atvinnuskyni hækki úr 16.500 kr. í 17.500 kr. Með þessu móti hækka tekjur af gjaldinu á árinu 2003 um 2,5 millj. kr. og gætu þær orðið um 40 millj. kr. á árinu 2003.
     2.      Að gjald á úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla metið til þorskígilda í tonnum skuli hækka úr 593 kr. í 664 kr. Gjald vegna fiskveiðiársins sem hófst 1. september sl. og lýkur 31. ágúst 2003 verður lagt á 1. desember nk. Gera má ráð fyrir að samtals verði úthlutað um 470 þús. þorskígildum á yfirstandandi fiskveiðiári. Miðað við þá úthlutun veiðiheimilda gætu tekjur af gjaldi þessu orðið um 312 millj. kr. á yfirstandandi fiskveiðiári. Hækkun gjaldsins er nokkuð umfram almennar verðlagsbreytingar og stafar m.a. af hækkun dagpeninga umfram verðlagsbreytingar, auknum stjórnunarkostnaði í kjölfar mikillar fjölgunar veiðieftirlitsmanna auk almennra verðhækkana.
    Þá er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að sú breyting verði gerð á lögunum að ekki aðeins útgerðir skipa sem fullvinna botnfiskafla um borð greiði fyrir eftirlit um borð í skipum sínum, heldur taki greiðsluskyldan einnig til útgerða skipa sem vinna uppsjávarfisk og skipa sem vinna fisk um borð á einhvern hátt þó ekki sé um fullvinnslu að ræða. Fullvinnsla hefur verið skilgreind þannig að hún sé vinnsla þegar flökun eða flatning er þáttur í vinnslunni. Í þessu sambandi skal þess getið að lagt hefur verið fram frumvarp um breytingu á lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, sem gerir ráð fyrir að gildissvið laganna verði rýmkað á sambærilegan hátt. Þá þykir eðlilegt að útgerðir rækjuskipa kosti einnig eftirlit þegar rækja er stærðarflokkuð um borð á hafi úti því slíku fylgir aukin hætta á brottkasti rækju og kallar það á sérstakt eftirlit með þessum skipum. Erfitt er að meta hvort þessi rýmkaða greiðsluskylda útgerða vinnsluskipa auki tekjur Fiskistofu, fer það m.a. eftir hvernig þeim mannafla sem Fiskistofa hefur yfir að ráða er ráðstafað um borð í veiðiskip.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000,
um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að hækka gjaldstofna sem standa undir veiðieftirliti Fiskistofu. Í fyrsta lagi hækkar gjald sem lagt er á veiðileyfi við útgáfu þeirra til veiðileyfishafa um 6% eða sem nemur 2,5 m.kr. og verður alls 40 m.kr. Í öðru lagi er talin þörf á að gjald fyrir úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla hækki um 37 m.kr. Gert er ráð fyrir að eftir breytingu skili gjaldið 312 m.kr. til Fiskistofu. Ástæða hækkunarinnar umfram almennar verðlagsbreytingar er skýrð með hækkun dagpeninga og auknum stjórnunarkostnaði í kjölfar fjölgunar veiðieftirlitsmanna. Í þriðja lagi er gjaldtökuheimild fyrir veiðieftirliti um borð í fiskiskipum rýmkuð og leggst á fleiri skip þar sem rétt þykir að eftirlitið nái til allra skipa sem vinna afla um borð og skipa sem stærðarflokka rækju um borð. Ekki er gert ráð fyrir að það ákvæði feli í sér aukinn kostnað þar sem notast verði við núverandi mannafla Fiskistofu til að sinna eftirlitinu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi í för með sér útgjöld úr ríkissjóði umfram tekjur af gjaldtöku.