Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 248. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 252  —  248. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Í stað „89/48/EBE, 92/51/EBE“ í 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. lög nr. 49/2001, kemur: 89/48/EBE, með áorðnum breytingum, sbr. tilskipun 2001/19/EB, 92/51/EBE, með áorðnum breytingum, sbr. tilskipun 2001/19/EB.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er unnið á vegum menntamálaráðuneytisins og miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2001/19/EB sem lýtur að einföldun á gildandi reglum um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.
    Með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, var ákveðið að menntamálaráðuneytið skyldi sjá um að samræma framkvæmd tilskipunar 89/48/EBE hér á landi. Með samþykkt laga nr. 76/1994, um breytingu á þeim lögum, var menntamálaráðuneytinu einnig falið að sjá um og samræma framkvæmd tilskipunar 92/51/EBE. Tilgangur þessara tilskipana er að auðvelda frjálsan flutning ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins sem óska eftir að stunda starf sitt í öðru landi en því sem þeir hlutu menntun sína og starfsþjálfun í. Framkvæmd framangreindra tilskipana hefur þannig auðveldað íslenskum ríkisborgurum að fá heimild til að starfa í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þær tilskipanir sem þegar hafa verið lögleiddar hér á landi varða í fyrsta lagi almennt kerfi á vegum Evrópusambandsins til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár, sbr. tilskipun 89/48/EBE, svo og tilskipun 92/51/EBE sem er viðauki við hana og tekur til annars náms sem ekki er tilgreint í öðrum tilskipunum. Í öðru lagi er um að ræða tilskipanir fyrir einstakar starfsstéttir, svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, ljósmæður, lyfjafræðinga, dýralækna og arkitekta.
    Hinn 14. maí 2001 gaf Evrópusambandið út nýja tilskipun um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, tilskipun 2001/19/EB, sem hefur þann megintilgang að einfalda framkvæmd tilskipana um þetta efni, samræma ákvæði um sömu efnisþætti og voru settir fram með mismunandi hætti í ólíkum tilskipunum og skýra frekar atriði sem þóttu óljós. Tilskipunin á að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjunum fyrir 1. janúar 2003.
    Aðdragandi hinnar nýju tilskipunar var sá að í skýrslu sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi Evrópuþinginu og ráðinu um framkvæmd tilskipunar 89/48/EBE í febrúar 1996 er vikið að nokkrum atriðum sem æskilegt væri að kveða á um í þeirri tilskipun til þess að einfalda framkvæmd hennar. Í kjölfarið fór fram ítarleg athugun á tilskipun 89/48/ EBE og 92/51/EBE, auk annarra tilskipana um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og starfsréttindum. Leiddi sú athugun til þess að gefin var út tilskipun 2001/19/ EB.
    Þessi nýja tilskipun breytir tilskipunum 89/48/EBE og 92/51/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á menntun og prófskírteinum en þessar tilskipanir falla undir menntamálaráðuneytið. Auk þess breytast tilskipanir 77/452/EBE og 77/453/EBE um hjúkrunarfræðinga, tilskipanir 78/686/EBE og 78/687/EBE um tannlækna, tilskipanir 78/1026/EBE og 78/1027/ EBE um dýralækna, tilskipanir 80/154/EBE, 80/155/ EBE um ljósmæður, tilskipun 85/384/ EBE um arkitekta, tilskipanir 85/432/EBE, 85/433/ EBE um lyfjafræðinga og tilskipun 93/16/EBE um lækna. Þessar tilskipanir falla undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Helstu breytingar sem felast í tilskipun nr. 2001/19/EB og varða tilskipanir 89/48/EBE og 92/51/EBE eru eftirfarandi:
     1.      Hugtakið „lögvernduð menntun og þjálfun“ er tekið upp í tilskipun 89/48/EBE en þetta hugtak er nú þegar skilgreint í tilskipun 92/51/EBE. Hér er um að ræða nám sem fer fram samkvæmt námskrá, t.d. aðalnámskrá framhaldsskóla, en veitir ekki rétt til lögverndaðs starfs. Þar sem námið fer hins vegar fram samkvæmt opinberri námskrá telst það lögvernduð menntun og þjálfun.
     2.      Ef í ljós kemur að umtalsverður munur er á menntun og þjálfun þess sem sækir um viðurkenningu og þeim kröfum sem gerðar eru í gistiríkinu gat gistiríkið krafist þess að umsækjandi tæki aðlögunartíma eða gengist undir próf í þeim þáttum sem ekki fólust í upphaflegu námi og þjálfun umsækjanda. Með tilskipun 2001/19/EB er aðildarríkjunum gert skylt að kanna að hve miklu leyti starfreynsla viðkomandi, eftir að hann lauk námi og tilskildri starfsþjálfun, getur komið í stað þess sem talið er á vanta í upphaflegu námi og þjálfun.
     3.      Stefnt er að því að bæta og einfalda samhæfingu í framkvæmd almennu tilskipananna, þ.e. tilskipana 89/48/EBE og 92/51/EBE, með því að fela samræmingarhópi, sem starfar samkvæmt ákvæðum í tilskipun 89/48/EBE, að samþykkja og birta álit um vandamál sem framkvæmdastjórnin vísar til hans og varða framangreindar tilskipanir.
    Þar sem tilskipunin breytir efnislega tilskipunum 89/48/EBE og 92/51/EBE þarf að breyta lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, á þann veg að númer tilskipunarinnar komi fram í 1. gr. laganna. Tilskipunin felur ekki í sér nýjar kvaðir fyrir Ísland, enda miðar hún fyrst og fremst að því að auka skýrleika í framsetningu og framkvæmd áðurnefndra tveggja tilskipana.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993,
um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

    Tilgangur frumvarpsins er að koma í framkvæmd hér á landi tilskipun Evrópusambandsins nr. 201/19/EB sem lýtur að einföldun á gildandi reglum um gagnkvæma viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.
    Breytingin felur annars vegar í sér að nám sem fer fram samkvæmt opinberri námskrá telst vera lögvernduð menntun og þjálfun. Hins vegar geta íslensk stjórnvöld ekki lengur gert kröfu um að sá sem sækir um viðurkenningu á námi sem hann hefur stundað í skóla í ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gangist undir sérstakt próf til að kanna þætti sem ekki fólust í náminu. Þess í stað ber að kanna starfsreynslu viðkomandi eftir að hann lauk náminu.
    Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkisins verði það að lögum.