Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 270. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 286  —  270. mál.
Tillaga til þingsályktunarum lífeyrisréttindi hjóna.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,


Katrín Fjeldsted, Drífa Hjartardóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd er kanni hvort rétt sé að tryggja með lögum rétt hjóna til hlutdeildar í lífeyrisrétti maka við skilnað.
    Nefndin skili skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. desember 2003.

Greinargerð.


    Samkvæmt 102. gr. hjúskaparlaga getur maki krafist þess við skipti að áunnin lífeyrisréttindi hans komi ekki til skipta við skilnað. Lífeyrisréttindi eru þannig beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Það er álitamál hvort ekki sé eðlilegra að litið sé á öflun lífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Telja má réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun lífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Þessi sjónarmið fá nokkurn hljómgrunn í 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Þar kemur fram að þyki það ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að lífeyrisréttindum sé haldið utan skipta sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum sem eftir atvikum má inna af hendi með nánar greindum afborgunum. Á ákvæði þetta reyndi í dómi Hæstaréttar frá 26. apríl sl. í máli nr. 170/2002. Í málinu krafðist sóknaraðili, sem hafði verið heimavinnandi í þau rúmlega 20 ár sem hjónaband hans stóð yfir, að honum yrði bætt það með fjárgreiðslum að lífeyrisréttindum maka hans væri haldið utan skipta við skilnaðinn að kröfu hans. Í niðurstöðu héraðsdóms sem staðfest var af Hæstarétti með vísan til forsendna sagði m.a.:
    „Er óumdeilt að sóknaraðili hafi borið hitann og þungann af heimilisstörfum og uppeldi barna þeirra á samvistatímanum, þótt deila megi um nauðsyn þess að hún væri heimavinnandi allan tímann, eins og varnaraðili bendir á máli sínu til stuðnings. Á hitt ber þó að líta að svo virðist sem aðilar hafi verið samhuga um þá tilhögun, á meðan allt lék í lyndi, og verður við það miðað við úrlausn málsins.“
    Þegar þetta var metið ásamt því að sóknaraðili hafði nánast engar tekjur haft og þar með ekki aflað sér lífeyrisréttinda en varnaraðili á hinn bóginn haft háar tekjur og aflað sér verulegra lífeyrisréttinda taldi dómurinn ósanngjarnt að lífeyrisréttindum varnaraðila væri haldið utan skipta og dæmdi varnaraðila til að greiða sóknaraðila 2,5 millj. kr.
    Þessi dómur Hæstaréttar mun án efa hafa fordæmisgildi en langur vegur er hins vegar frá því að hann tryggi jöfn skipti þeirra verðmæta sem í lífeyrisréttindum felast við skilnaði í framtíðinni enda málsatvik iðulega ólík og heimild dómstóla matskennd.
    Í Lögmannablaðinu (október, 3/2002) fjallar Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður um framangreindan dóm Hæstaréttar. Í grein sinni vekur hann athygli á þeirri staðreynd að lífeyrisréttindi eru persónubundin réttindi sem koma aðeins til greiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í því ljósi setur hann spurningarmerki við það hvort eðlilegt sé að hinn aðilinn geti fengið eingreiðslu sé slíkum réttindum haldið utan skipta, án tillits til þess hvort nauðsynleg skilyrði fyrir útgreiðslu réttindanna verði uppfyllt. Telur hann ástæðu til að íhuga hvort rétt sé að breyta lögum með þeim hætti að unnt sé að skipta áunnum lífeyrisréttindum með samningi eða dómi. Með þessu væri tekið tillit til þeirrar óvissu hvort skilyrði fyrir útborgun úr lífeyrissjóði verða uppfyllt eða ekki.
    Flutningsmenn þessarar tillögu taka undir að vert væri að skoða slíka breytingu, enda gengur hún í þá átt að tryggja rétt hjóna til hlutdeildar í lífeyrisrétti maka við skilnað. Flutningsmenn telja þó rétt að skoða hvort ekki sé ástæða til að ganga enn lengra með því að skilgreina áunnin lífeyrisréttindi hjóna á hjúskapartímanum sem hjúskapareign þeirra sem kæmi þá til helmingaskipta samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við skilnað. Með því yrði komið í veg fyrir deilur um skiptingu þessara verðmæta auk þess sem ætla má að slík niðurstaða yrði almennt sanngjörn. Þessa kosti þarf að gaumgæfa vel og í þeim tilgangi er þessi tillaga lögð fram.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa á almennum vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér, með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi, að þar myndast oft mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Því er sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á lífeyrisréttindi sem sameiginlega eign eins og aðrar hjúskapareignir.
    Flutningsmenn gera sér grein fyrir að það getur valdið vanda fyrir lífeyrissjóðina þar sem rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar, þ.e. áunninn flýtiréttur til töku lífeyris, tímabundnar örorkubætur eða bætur fyrir langtímaörorku. Í þingsályktunartillögu þessari er hins vegar aðeins gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn lífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðað við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis milli lífeyrissjóða í dag.
    Með lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, var komið nokkuð komið til móts við efni tillögu þessarar, sbr. 14. gr. laganna. Þar kemur fram að sjóðfélagi geti á grundvelli samkomulags við maka tekið ákvörðun um, í fyrsta lagi, að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka, í öðru lagi að í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum skuli verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og í þriðja lagi að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Nær slíkt samkomulag eftir því sem við á til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur.
    Framangreind heimildarákvæði eru til bóta. Þó má gagnrýna ýmislegt, t.d. að hafi sjóðfélagi gert samkomulag um að skipta uppsöfnuðum ellilífeyrisréttindum og mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka sinn eða fyrrverandi maka skerðast réttindi sjóðfélagans sem því nemur, sem hefur í för með sér að verði sjóðfélagi langlífari færast réttindin ekki aftur til hans. Sjóðfélagi tekur því nokkra áhættu með þessu.
    Það er mat flutningsmanna að ekki sé nægjanlegt að sá sem t.d. hefur sinnt heimili og börnum meginhluta starfsævi sinnar verði að eiga það undir góðvild maka síns við skilnað hvort hann fái hlutdeild í þeirri eignamyndun sem orðið hefur til og felst í lífeyrisréttindum makans. Það er jafnframt ófullnægjandi að mati flutningsmanna að maki sem telur á sér brotið þurfi að ráðast í kostnaðarsöm málaferli til að sækja réttindi sem hann hefur átt þátt í að mynda.
    Gert er ráð fyrir að nefndin sem skipuð verður, verði tillagan samþykkt, skili skýrslu um málið til Alþingis fyrir 1. desember 2003.