Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 340  —  315. mál.




Beiðni um skýrslu



frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um ástæður þess að hlutfall öryrkja á Íslandi er hæst á Norðurlandi eystra.

Frá Soffíu Gísladóttur, Steingrími J. Sigfússyni, Árna Steinari Jóhannssyni,


Örlygi Hnefli Jónssyni, Drífu Hjartardóttur, Arnbjörgu Sveinsdóttur,
Adolf H. Berndsen, Pétri H. Blöndal og Einari Má Sigurðarsyni.

    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um ástæður þess að hlutfall öryrkja á Íslandi er hæst á Norðurlandi eystra.

Greinargerð.


    Samkvæmt staðtölum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) fyrir árið 2001 er hlutfallslegur fjöldi öryrkja á Íslandi 5,2%, þ.e. 9.780 manns á aldrinum 16–66 ára. Sé dreifingin skoðuð með tilliti til landshluta er hlutfall öryrkja á Norðurlandi eystra hæst miðað við íbúafjölda, eða 6,1%. Samkvæmt því eru þar 1.032 manns á aldrinum 16–66 ára öryrkjar, 628 konur og 404 karlar. Í Reykjavík er hlutfallið 5,7%, eða 4.693 manns (staðtölur TR 2001).
    Árið 1998 voru öryrkjar á Norðurlandi eystra 5,2% af íbúafjölda, eða 882 manns, og hefur hlutfallið því hækkað um 0,9 prósentustig á þremur árum, um 150 manns. Á sama tíma hefur landsmeðaltalið hækkað um 0,6 prósentustig, úr 4,6% (8.239 manns) 1998 í 5,2% (9.780 manns) árið 2001. Árið 1998 voru öryrkjar 5,3% (4.096 manns) af íbúafjölda Reykjavíkur (með Reykjavík teljast Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Kjósarhreppur samkvæmt staðtölum TR 1998).
    Merkja má mikla fjölgun öryrkja um allt land á árunum 1998–2000 og má t.d. vekja athygli á því að á Suðurlandi hefur öryrkjum fjölgað úr 4,3% (556 íbúum) í 5,4% (742 íbúa) á tímabilinu, eða um 1,1 prósentustig (186 íbúa), á Vestfjörðum úr 2,9% (163 íbúum) í 4,2% (217 íbúa), eða um 1,3 prósentustig (54 íbúa), og á Norðurlandi vestra hefur þeim fjölgað úr 3,8% (227 íbúum) í 5,2% (307 íbúa), eða um 1,4 prósentustig (80 íbúa), og er það mesta hlutfallslega aukningin á landsvísu.
    Í undirbúningi er að stofna heildstæða endurhæfingarmiðstöð fyrir öryrkja á Húsavík í samvinnu Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og Framhaldsskólans á Húsavík. Þar munu öryrkjar fá víðtæka endurhæfingu svo að þeir geti tekið þátt í atvinnulífi eða stundað nám. Þetta er brýnt verkefni í ljósi mikillar fjölgunar öryrkja hér á landi og mun verkefni sem þetta í senn skila þjóðfélagslegum arði, heilbrigðari fjölskyldum og heilbrigðara samfélagi. En til þess að hægt sé að hrinda af stað verkefni sem þessu er mikilvægt að greina ástæður þess að öryrkjar eru hlutfallslega flestir í þessum landshluta. Þegar niðurstöður slíkrar greiningar liggja fyrir mun endurhæfingarstarfið án alls vafa skila betri og skjótari árangri en ella.