Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 316. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 341  —  316. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, með síðari breytingum.

Flm.: Guðrún Ögmundsdóttir.



1. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Bætur vegna einstaks verknaðar skulu ekki greiddar nema höfuðstóll kröfu sé 100.000 kr. eða hærri.
    Af dæmdum eða ákvörðuðum bótum, að vöxtum meðtöldum, greiðir ríkissjóður ekki hærri fjárhæð en:
     a.      500.000 kr. fyrir tjón á munum,
     b.      5.000.000 kr. fyrir líkamstjón,
     c.      1.000.000 kr. fyrir miska,
     d.      3.000.000 kr. fyrir missi framfæranda.
    Fjárhæðir samkvæmt þessari grein taka verðlagsbreytingum skv. 15. gr. skaðabótalaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ef umsókn um bætur hefur borist bótanefnd í tíð eldri laga gilda ákvæði laga þessara um ákvörðun bóta eftir gildistöku þeirra.

Greinargerð.


    Á 118. löggjafarþingi voru samþykkt lög á Alþingi um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Í 7. gr. laganna var fjallað um hámarksfjárhæð bóta. Fyrir tjón á munum skyldi ekki greiða hærri bætur en 500.000 kr., fyrir líkamstjón skyldu bætur ekki vera hærri en 5.000.000 kr., fyrir miska skyldi ekki greiða hærri bætur en 1.000.000 kr. og fyrir missi framfæranda skyldu ekki greiddar hærri bætur en 3.000.000 kr. Þá áttu fjárhæðir samkvæmt greininni að taka verðlagsbreytingum skv. 15. gr. skaðabótalaga. Lögin áttu að öðlast gildi 1. janúar 1996 en áður en til þess kom var þeim breytt með 18. gr. laga nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996. Með breytingunni voru hámarksbætur lækkaðar. Af dæmdum eða ákvörðuðum bótum, að vöxtum meðtöldum, skyldi ríkissjóður ekki greiða hærri fjárhæð en 250.000 kr. fyrir tjón á munum, 2.500.000 kr. fyrir líkamstjón, 600.000 kr. fyrir miska og 2.500.000 kr. fyrir missi framfæranda. Þá var gildistöku laganna frestað og ákvæðið um að fjárhæðirnar skyldu taka verðlagsbreytingum samkvæmt skaðabótalögum fellt brott. Í umsögn meiri hluta allsherjarnefndar til efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 kom fram að meiri hlutinn taldi skerðingarnar mjög miklar og mæltist eindregið til þess að við undirbúning fjárlagafrumvarps fyrir árið 1997 yrði miðað við að bætur yrði greiddar til samræmis við það sem upphaflega var ákveðið. Minni hluti allsherjarnefndar mótmælti frumvarpinu harðlega og lagði þunga áherslu á að Alþingi tryggði nægilegt fjármagn svo að staðið yrði að fullu við upphafleg markmið laganna.
    Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til verða hámarksfjárhæðir bóta þær sömu og upphaflega var gerð tillaga um og munu þær jafnframt taka verðlagsbreytingum eins og eðlilegt verður að teljast. Um er að ræða löngu tímabæra leiðréttingu enda hefur þessi lækkun á bótagreiðslum bitnað hvað harðast á börnum sem hafa orðið fyrir alvarlegu kynferðislegu ofbeldi. Ekki bólar enn á endurskoðun eða leiðréttingu af hálfu ríkisstjórnar og því er þetta frumvarp nú flutt.