Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 159. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 348  —  159. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um áhrif hækkunar persónuafsláttar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða áhrif mundi hækkun persónuafsláttar hafa annars vegar á ráðstöfunartekjur skattgreiðenda og hins vegar á tekjur ríkissjóðs og tekjur sveitarfélaga? — Í svarinu komi fram áhrif af hækkunum um 1.000, 5.000, 10.000, 20.000, 30.000, 40.000 og 50.000 kr.

    Persónuafsláttur er ákveðinn í lögum sem ein heildarfjárhæð sem hver framteljandi nýtur á ári og kemur til frádráttar frá tekjuskatti og útsvari í staðgreiðslu. Þessi fjárhæð er 312.024 kr. árið 2002 (26.002 kr. á mánuði). Hjón og sambúðarfólk fá tvöfalda þessa upphæð og á næsta ári verður persónuafsláttur maka að fullu millifæranlegur.
    Í svarinu er byggt á þessari grunnfjárhæð og persónuafslátturinn síðan hækkaður í samræmi við þær viðbótarfjárhæðir sem um er spurt, miðað við heilt ár.

Hækkun persónuafsláttar / ráðstöfunartekna
á ári


Persónu- afsláttur
á ári


Persónu- afsláttur
á mánuði
Skattleysismörk á mánuði án tillits til frádráttar lífeyrisiðgjalda Skattleysismörk á mánuði að teknu tilliti til 4% frádráttar lífeyrisiðgjalda Lækkun tekna ríkissjóðs miðað við heilt ár
Lækkun tekna sveitar- félaga
Núgildandi 312.024 kr. 26.002 kr. 67.468 kr. 70.279 kr. - -
1.000 kr. 313.024 kr. 26.085 kr. 67.683 kr. 70.504 kr. 187 m.kr. 0 kr.
5.000 kr. 317.024 kr. 26.418 kr. 68.547 kr. 71.405 kr. 935 m.kr. 0 kr.
10.000 kr. 322.024 kr. 26.835 kr. 69.629 kr. 72.531 kr. 1.865 m.kr. 0 kr.
20.000 kr. 332.024 kr. 27.668 kr. 71.790 kr. 74.783 kr. 3.713 m.kr. 0 kr.
30.000 kr. 342.024 kr. 28.502 kr. 73.954 kr. 77.036 kr. 5.543 m.kr. 0 kr.
40.000 kr. 352.024 kr. 29.335 kr. 76.116 kr. 79.288 kr. 7.356 m.kr. 0 kr.
50.000 kr. 362.024 kr. 30.168 kr. 78.277 kr. 81.539 kr. 9.153 m.kr. 0 kr.

    Ástæða er til að gera grein fyrir þeim hugtökum sem fram koma í svarinu. Svokölluð skattleysismörk eru gjarnan skilgreind sem þær tekjur sem einhleypur framteljandi getur haft án þess að komi til greiðslu tekjuskatts og útsvars. Er þá ekki tekið tillit til bóta sem viðkomandi kann að fá úr skattkerfinu, svo sem barnabóta og vaxtabóta, né sjómannaafsláttar. Skattleysismörkin eru fundin með því að deila skatthlutfallinu upp í persónuafsláttinn og margfalda með 100. Gengið er út frá staðgreiðsluhlutfallinu eins og það er árið 2002, þ.e. 38,54% en þar af nemur tekjuskattshlutfall ríkisins 25,75% og útsvarshlutfall sveitarfélaga er 12,79% að meðaltali. Miðað við þessar forsendur eru skattleysismörkin í ár 67.468 kr. á mánuði sé eingöngu horft á skatthlutfallið og persónuafslátt. Í reynd eru skattleysismörkin hærri þar sem greiðslur skattgreiðenda í lífeyrissjóði eru dregnar frá tekjuskattstofni áður en kemur til útreiknings á staðgreiðslu. Þessi frádráttur nemur að lágmarki 4% af tekjum en getur farið upp í 8% fullnýti einstaklingurinn heimildir skattalaga til viðbótarlífeyrissparnaðar. Í þessum tilvikum fara skattleysismörkin upp í 70.279 kr. miðað við 4% og 73.334 kr. miðað við 8% lífeyrissparnað. Eiga þessi mörk almennt við um launþega.
    Rétt er að vekja athygli á því að þær aðgerðir sem hér er spurt um hafa engin áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga. Ástæðan er sú að sveitarfélögum eru tryggðar tekjur sem svara að fullu til hlutfalls útsvars af tekjum viðkomandi skattgreiðanda frá ríkinu jafnvel þótt tekjurnar séu undir skattleysismörkum. Ríkissjóður greiðir sveitarfélögunum mismuninn. Þetta veldur því að skattleysismörkin gagnvart ríkissjóði, þ.e. áður en viðkomandi skattgreiðandi fer að greiða tekjuskatt, eru mun hærri en áður var nefnt, eða á bilinu 105.000–110.000 kr. á mánuði eftir því hvort miðað er við 4% eða 8% lífeyrisiðgjald.
    Í töflunni er sem fyrr segir gengið út frá þeim fjárhæðum og skatthlutföllum sem gilda á tekjuárinu 2002. Tölur sem sýna áhrif hækkunar persónuafsláttar á tekjur ríkissjóðs miðast við heilt ár. Þar sem hækkun persónuafsláttar kemur beint fram í lækkun skattgreiðslu aukast ráðstöfunartekjur skattgreiðanda einfaldlega um sömu fjárhæð.