Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 349  —  321. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    1. og 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Sjóðfélagar skulu vera allir bændur og makar þeirra sem starfa að búrekstri. Ef maki bónda er ekki aðili að búrekstri og á ekki sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði skal sjóðstjórn veita honum aðild að Lífeyrissjóði bænda óski viðkomandi þess skriflega.

2. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Iðgjöld bónda, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 2. gr., vegna búrekstrar, sbr. 3. gr., skulu skiptast milli hans og maka hans eða sambúðaraðila í þeim hlutföllum sem hann hefur óskað eftir skriflega og skal hlutur makans ganga til myndunar sjálfstæðra lífeyrisréttinda hans.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frá 1984 hefur iðgjöldum bænda verið skipt jafnt á milli bónda og maka hans. Í fyrstu var stjórn sjóðsins heimilt að verða við umsókn um aðra skiptingu iðgjaldsins ef iðgjald þeirra náði ekki hámarksiðgjaldi og annað þeirra hafði atvinnutekjur af öðru en búrekstrinum sem skapaði rétt til lífeyris. Stjórnin gat ekki veitt maka undanþágu frá sjóðsaðild. Iðgjald var reiknað af öllum afurðum búsins og iðgjald sem barst umfram hámarksiðgjald einstaklings var þá bókað á makann.
    Með lögum nr. 122/1997 var sjóðstjórn gefin heimild til þess að veita maka undanþágu frá sjóðsaðild ef hann var ekki aðili að búrekstrinunum og átti sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði. Frá þeim tíma hafa undanþágur frá sjóðsaðild verið veittar. Með lögum nr. 12/1999 sem tóku gildi 1. júlí 1999 varð sjóðstjórn skylt að veita framangreinda undanþágu.     Nú er því skipan mála sem hér segir:
    1. Iðgjöldum hjóna eða sambýlisfólks er skipt til helminga milli þeirra.
    2. Hafi annað hvort hjóna eða sambúðaraðila atvinnutekjur af öðru en búrekstri sem skapa ótvíræðan rétt til lífeyris í öðrum lífeyrissjóði er sjóðstjórn heimilt að fallast á aðra skiptingu iðgjalda samkvæmt skriflegri umsókn þeirra.
    3. Sjóðstjórn skal veita maka bónda undanþágu frá sjóðsaðild sé hann ekki aðili að búreksrinum og eigi sjálfsagða fulla aðild að öðrum lífeyrissjóði og óski þess skriflega. Iðgjaldi er þá ekki skipt.
    4. Sé annað hjóna eða sambýlisaðila öryrki bókast iðgjöld óskipt.
    Á síðustu árum hafa þær raddir orðið háværari meðal bænda sem telja að ekki sé rétt að skipta iðgjöldum milli hjóna/sambýlisfólks heldur bóka þau á hvorn aðila í samræmi við reiknuð laun hvors um sig enda hafa iðgjöld verið miðuð við 4% af reiknuðum launum frá ársbyrjun 1998. Á búnaðarþingi 2002 var samþykkt ályktun þar sem því er beint til stjórnar Bændasamtaka Íslands „að beita sér fyrir að lög um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, verði tekin til endurskoðunar, einkum til að tryggja að iðgjöld í sjóðinn verði ávallt í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald hlutaðeigandi.“ Bændasamtök Íslands hafa óskað eftir því að stjórn Lífeyrissjóðs bænda beiti sér fyrir þeirri endurskoðun laganna sem hér um ræðir.
    Stjórn lífeyrissjóðsins hefur fjallað um þessa málaleitan og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að leggja til breytingu á lögum um Lífeyrissjóð bænda varðandi skiptingu iðgjalda.
    Sjóðurinn gerði úrtakskönnun meðal greiðandi sjóðfélaga á árinu 2001 eftir aldri til þess að kanna hvort hætta væri á að breyting á ákvæðum um skiptingu iðgjalda gæti orðið til þess að einhver hópur maka yrði án lífeyrisréttinda. Í úrtakinu voru 119 greiðendur eða 2,65%, makar þeirra voru 102 og af þeim voru 23 sem hvorki reikna sér endurgjald í landbúnaði né fá greidd laun vegna búrekstrar. Af þessum 23 eru 17 sem njóta skiptra iðgjalda hjá Lífeyrissjóði bænda en ávinna sér jafnframt, í flestum tilvikum, full réttindi í öðrum lífeyrissjóðum vegna vinnu utan búsins. Ef könnunin endurspeglar bændastéttina í heild má ætla að um 16,67% maka bænda þurfi að sækja um undanþágu frá sjóðsaðild. Aðeins tveir þessara 23 maka eru með undanþágu frá sjóðsaðild, þrír eru öryrkjar og einn kominn yfir greiðsluskyldualdur. Enginn þessara 23 maka virðist því vera í áhættuhópi, þ.e. makar bænda sem reikna sér ekki endurgjald í landbúnaði og stunda ekki aðra vinnu. Þó má telja víst að einhverjir makar bænda séu í fyrrgreindum hópi og þyrftu því að sækja um skiptingu iðgjalda til að njóta sjálfstæðra lífeyrisréttinda.
    Í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er í 1. tölul. ákvæði um að aðilar (hjón/sambýlisfólk) geti gert samning um að skipta ellilífeyrisgreiðslum jafnt á milli sín. Í 2. tölul. er ákvæði um skiptingu ellilífeyrisréttinda á sama hátt ef a.m.k. sjö ár eru til töku ellilífeyris. Skipting þessi nær ekki til örorkulífeyrisréttinda. Í 3. tölul. er ákvæði um að aðilar geti samið um skiptingu iðgjalds sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi sjóðfélagans allt að hálfu og renni það til að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Skal líta svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu. Síðasta ákvæðið tekur til þeirrar skiptingar sem hefur farið fram hjá Lífeyrissjóði bænda og er því hægt að grípa til þess ef sjóðfélagi óskar eftir að iðgjöldum verði áfram skipt. Þó er í þessum ákvæðum einungis tekið til ellilífeyrisréttinda og þess vegna er nauðsynlegt að hafa sérákvæði í lögum um Lífeyrissjóð bænda um heimild til að skipta iðgjöldum milli hjóna/sambýlisfólks.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að við 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. verði bætt orðunum „sem starfa að búrekstri“. Með mökum sem starfa að búrekstri er átt við maka sem reikna sér laun í landbúnaði eða fá greidd laun frá einkahlutafélagi eða félagsbúi vegna bústarfa. Er þetta gert í þeim tilgangi að fella niður skylduaðild þeirra maka bænda sem ekki starfa að búrekstri að lífeyrissjóðnum. Eftir sem áður er þá í gildi skylduaðild þeirra maka sem starfa að búrekstrinum.
    Jafnframt er lagt til að 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott þar sem ekki verður lengur þörf á að veita undanþágu frá sjóðsaðild þar sem ekki verður lengur um skylduaðild að ræða. En í stað hans komi nýr málsliður um að sjóðstjórn verði skylt að veita þeim mökum bænda, sem ekki reikna sér endurgjald í landbúnaði og stunda ekki aðra atvinnu sem veitir þeim lífeyrisréttindi, aðild að sjóðnum óski þeir eftir því.

Um 2. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 6. gr. laganna falli brott. Þar eru ákvæði um jafna skiptingu iðgjalds milli hjóna/samýlisfólks, aðra skiptingu iðgjalds og undanþágu frá sjóðsaðild. Þetta er í samræmi við það markmið frumvarpsins að aðalreglan verði sú að iðgjöld í sjóðinn verði í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald hlutaðeigandi.
    Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein, sem yrði 1. mgr., sem kveði á um skiptingu iðgjalds bónda milli hans og maka hans í þeim hlutföllum sem hann hefur óskað eftir skriflega. Með þessari breytingu er aftur opnað fyrir þann möguleika að skipta iðgjöldum sé makinn án launa sem skapa honum lífeyrisrétt og ávinni makinn sér því sjálfstæð lífeyrisréttindi.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 12/1999,
um Lífeyrissjóð bænda.

    Frumvarp þetta er lagt fram að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs bænda og miðar að því í fyrsta lagi að felld verði niður skylduaðild þeirra maka bænda að sjóðnum sem ekki starfa að búrekstri. Í öðru lagi verði felld niður sú regla að iðgjöldum hjóna eða sambýlisfólks verði að skipta til helminga á milli þeirra en í þess stað verði iðgjöld í réttu hlutfalli við reiknað endurgjald eða greidd laun hlutaðeigandi. Verði frumvarpið lögfest hefur það ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.