Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 322. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 350  —  322. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Við 5. mgr. 1. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     8.      Forsjármálum.
     9.      Afhendingarmálum, sbr. lög nr. 160/1995.

2. gr.

    Í stað orðanna „og skipulagsfræðinga“ í 22. tölul. 10. gr. koma: skipulagsfræðinga og raffræðinga.

3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
   51. Leyfi til sölu notaðra ökutækja
               a.      til fimm ára          25.000 kr.
               b.      endurnýjun leyfis skv. a-lið           2.500 kr.

4. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
   31. Fyrir friðlýsingu æðarvarpa           5.000 kr.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er kveðið á um ýmiss konar gjaldtöku sem rennur í ríkissjóð.
    Frumvarpið samanstendur af smávægilegum breytingum, þar sem m.a. er verið að bæta inn gjaldtökuheimild fyrir löggildingu á starfsheiti raffræðinga og fyrir leyfi til sölu notaðra ökutækja. Einnig er verið að bæta inn heimild til töku gjalds vegna friðlýsingar æðarvarpa. Jafnframt eru lagðar til breytingar í tengslum við frumvarp að nýjum barnalögum.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Forsjármálum má að nokkru marki jafna til mála skv. 2. tölul. 5. mgr. greinarinnar, barnsfaðernismála, og 3. tölul., mála til vefengingar á faðerni barns, sem einnig fjalla um hagsmuni barns. Það sjónarmið sem liggur m.a. hér til grundvallar er að bágur fjárhagur foreldris eigi ekki að girða fyrir að dómstóll geti leyst úr ágreiningi um forsjá barns, enda gæti slík niðurstaða verið í brýnni andstöðu við hagsmuni og réttindi barns. Auk framangreindra röksemda um mikilvæga hagsmuni barns verður, þegar um er að ræða afhendingarmál á grundvelli laga nr. 160/1995, einnig að líta til þess þegar krafist er afhendingar barns á grundvelli þeirra tveggja samninga sem lögin taka til, Haagsamningsins og Evrópusamningsins, að meginreglan er sú að það ríki sem fær til meðferðar beiðni um fullnustu ákvörðunar eða afhendingu barns stendur straum af kostnaði vegna meðferðar málsins í því ríki, sbr. 19. gr. laga nr. 160/1995. Þótt fyrirvari hafi verið gerður af Íslands hálfu við greiðslu kostnaðar vegna mála sem rekin eru á grundvelli Haagsamningsins þykir engu að síður rétt að leggja til að gjöld vegna meðferðar mála fyrir dómi sem rekin eru á grundvelli beggja samninganna falli niður.


Um 2. gr.

    Vegna breytinga á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með lögum nr. 69/2002, þar sem raffræðingum var bætt við í upptalningu 1. gr., þarf að breyta 22. tölul. 10. gr. laganna þannig að unnt sé að taka gjald fyrir löggildingu á starfsheiti raffræðinga.

Um 3. gr.


    Í þessum nýja tölulið er að finna gjaldtökuheimild fyrir útgáfu leyfa til sölu notaðra ökutækja. Verður gjaldið 25.000 kr. Bætt er við gjaldi fyrir endurnýjun slíkra leyfa og verður það gjald 2.500 kr.

Um 4. gr.


    Sýslumenn annast friðlýsingu æðarvarpa á grundvelli laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Friðlýsingin er birt í Lögbirtingablaðinu og halda sýslumenn skrá um friðlýst æðarvörp. Lagt er til að innheimt verði gjald af þeim sem óska eftir friðlýsingu til að mæta kostnaði við hana.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á gjaldtökuheimildum í lögum um aukatekjur ríkisins. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að áhrif þess á tekjur og gjöld ríkisins verði óveruleg.