Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 352  —  324. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo: Tekjur skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi dómsmálaráðuneytisins, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Sama gildir um happdrætti sem starfa samkvæmt leyfi útgefnu af stjórnvöldum á hinu Evrópska efnahagssvæði, að sömu skilyrðum fullnægðum. Óheimilt er að auglýsa skattfrelsi vinninga nema fyrir liggi staðfesting ríkisskattstjóra á því að skilyrðum skattfrelsis samkvæmt þessum tölulið sé fullnægt.


2. gr.

    Í stað orðsins „átta“ í 8. tölul. 31. gr. laganna kemur: tíu.

3. gr.

    Orðin „framkvæmdastjórum eða öðrum sambærilegum“ í 5. tölul. 52. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Fjármálaráðherra setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra.
     b.      Í stað orðsins „ríkisskattstjóra“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. kemur: fjármálaráðherra.

5. gr.

    Í stað orðanna „undir 12 rúmlestum brúttó“ í 5. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laganna kemur: undir 20 brúttótonnum.

6. gr.

    Á eftir 3. mgr. 90. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Framtals- og skattlagningarstaður félaga sem eru samsköttuð skv. 57. gr. B skal vera í því umdæmi þar sem móðurfélag er. Skattstjóra í því umdæmi skal heimilt að breyta framtölum hinna samsköttuðu félaga skv. 95. og 96. gr., sbr. 97. gr.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum 1.–4. mgr. um framtals- og skattlagningarstað og ákveða annan framtals- eða skattlagningarstað þegar skattaðilar flytjast á milli skattumdæma.


7. gr.

    Á eftir orðinu „afurðum“ í 5. mgr. 92. gr. laganna kemur: kaup og sölu á skráningarskyldum ökutækjum.

8. gr.

    Við 1. mgr. 102. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaráðherra getur ákveðið að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi. Skattstjóri sem fer með skatteftirlit í öðru skattumdæmi en sínu eigin skal annast skattbreytingar sem leiða af eftirlitsstörfum hans í umboði viðkomandi skattstjóra.

9. gr.

    Á eftir orðunum „við upphaf rannsóknar“ í 6. mgr. 108. gr. laganna kemur: á vegum skattrannsóknarstjóra ríkisins.

10. gr.

    1. mgr. 110. gr. laganna orðast svo:
    Tekjuskattur af öðrum tekjum en launatekjum, sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar, og eignarskattur hvers gjaldanda skal greiddur á tíu gjalddögum á ári hverju. Eru gjalddagar fyrsti dagur hvers mánaðar nema í janúar og í þeim mánuði sem álagningu lýkur samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr. 93. gr. Við skiptingu fyrirframgreiðslu og eftirstöðva álagningar á gjalddaga skv. 2. og 4. mgr. skal þó við það miðað að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 2.000 kr. á hverjum gjalddaga.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Dráttarvextir skulu vera þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

12. gr.

    116. gr. laganna orðast svo:
    Í upphafi hvers árs skal fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.

13. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2003 skal árið 2004 leggja sérstakan tekjuskatt eins og nánar greinir í ákvæði þessu.
    Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 4.089.450 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 8.178.900 kr. skal reikna sérstakan 5% tekjuskatt.
    Ef hjón hafa bæði tekjuskattsstofn umfram 4.089.450 kr. reiknast þeim sinn hlutinn hvoru hins sérstaka tekjuskatts. Sé tekjuskattsstofn annars hjóna lægri en 4.089.450 kr. reiknast hinu hjóna allur sérstaki tekjuskatturinn.
    Sérstakur tekjuskattur samkvæmt ákvæði þessu skal ekki innheimtur með staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Fyrirframgreiðsla upp í væntanlega álagningu sérstaks tekjuskatts ársins 2004 skal fara fram með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember 2003. Fyrirframgreiðslan skal vera 5% af tekjuskattsstofni samkvæmt skattframtali ársins 2003 vegna tekna á árinu 2002 umfram 4.089.450 kr. hjá einstaklingi og umfram 8.178.900 kr. hjá hjónum.
    Gjalddagar fyrirframgreiðslu skv. 5. mgr. skulu vera fyrstu dagar mánaðanna ágúst til og með desember 2003. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd fyrirframgreiðslunnar.
    Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun fyrirframgreiðslu sem honum hefur verið gert að greiða skv. 5. mgr. Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra sem úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Ákvörðun skattstjóra er kæranleg til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar skattstjóra. Ríkisskattstjóri skal kveða upp úrskurð sinn innan 15 daga frá því að kæra barst honum og skal úrskurður hans vera endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.
    Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda nema hann geti sýnt fram á að veruleg tekjulækkun hafi orðið hjá honum milli ára. Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
    Nú kemur í ljós við álagningu á sérstökum tekjuskatti að fyrirframgreiðsla samkvæmt þessu ákvæði hefur verið of há og skal bæta 2,5% álagi við mismuninn.
    Um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skulu ákvæði VIII.–XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á.


14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Helstu breytingarnar eru þær að lagt er til að heimilt verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum. Lagt er til að sérstakur tekjuskattur manna verði framlengdur um eitt ár, skatthlutfallið lækkað um 2% og tekjumörkin hækkuð um 2,75%. Lagðar eru til breytingar á vaxtaákvæði laganna til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og að lokum er að finna í frumvarpinu nokkrar breytingar sem lúta beint að skattframkvæmdinni.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna er kveðið á um að draga megi frá tekjum happdrættisvinninga að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Meðal annars með hliðsjón af athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA er gert ráð fyrir að kveðið sé skýrt á um að skattfrelsi vinninga gildi um öll happdrætti á hinu Evrópska efnahagssvæði að fullnægðum skilyrðum ákvæðisins. Samkvæmt gildandi lögum er staðfesting ríkisskattstjóra forsenda skattfrelsis. Slíkt fyrirkomulag er eðli máls samkvæmt óhentugt þegar allt Evrópska efnahagssvæðið liggur undir. Eðlilegra þykir að um skattfrelsið gildi hlutlægar reglur og skattfrelsið sé þannig óháð staðfestingu ríkisskattstjóra, enda væri þar í reynd verið að fela stjórnvaldi ákvörðunarvald um skattskyldu, sem er vafasamt að samrýmist skattlagningarákvæðum stjórnarskrárinnar. Engu að síður þykir ekki óeðlilegt að ríkisskattstjóri gegni áfram ákveðnu hlutverki í þessu samhengi. Þannig er lagt til að óheimilt sé að auglýsa skattfrelsi nema að fyrir liggi staðfesting ríkisskattstjóra. Þessi regla felur í sér ákveðna neytendavernd, og er ætlað að tryggja að almenningur taki ekki þátt í happdrættum sem kynnt eru sem skattfrjáls, án þess að vera það.


Um 2. gr.

    Hér er lagt til að heimilt verði að draga frá tekjum af atvinnurekstri eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum í stað átta ára eins og verið hefur. Þessi breyting tengist óbeint afnámi verðbólgureikningsskila í upphafi árs, en tíu ára reglan er nær þeim reglum sem gilda í nágrannaríkjunum.

Um 3. gr.

    Í 5. tölul. 52. gr. laganna er kveðið á um það að óheimilt sé að telja til rekstrarkostnaðar kostnað við rekstur fólksbifreiða sem látnar eru framkvæmdastjórum eða öðrum sambærilegum starfsmönnum í té til eigin afnota, nema að því marki sem hlunnindin af notkun viðkomandi fólksbifreiðar hafa verið talin til tekna samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra. Hér er lagt til að regla þessi verði látin gilda um alla starfsmenn, án tillits til stöðu þeirra innan fyrirtækis. Eðli máls samkvæmt getur fyrirtæki ekki tekið ábyrgð á skattskilum starfsmanna sinna, en skilyrðum þessa ákvæðis er fullnægt ef hlunnindin eru gefin upp á launamiða.

Um 4. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum setur ríkisskattstjóri árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald. Hér er lögð til sú breyting á 59. gr. laganna að formleg ákvörðun um lágmark reiknaðs endurgjalds verði hjá fjármálaráðherra, en að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, þannig að fleiri en eitt stjórnvald komi að ákvörðuninni.

Um 5. gr.

    Breyting sú sem hér er lögð til leiðir af breytingum á 2. gr. laga um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987. Í þeim lögum er skylt að lögskrá alla skipverja, sem ráðnir eru til starfa á íslenskum skipum sem eru 20 brúttótonn eða stærri. Áður en 2. gr. laga um lögskráningu sjómanna var breytt með 1. gr. laga nr. 55/2001 var miðað við skipverja sem ráðnir voru til starfa á íslenskum skipum sem voru 12 rúmlestir brúttó eða stærri. Orsök þeirra breytinga er gerðar hafa verið á 2. gr. laga um lögskráningu sjómanna er að teknar hafa verið upp nýjar mælingareglur til samræmis við alþjóðasamþykktir og samkvæmt þeim skal styðjast við tonn í stað rúmlesta. Ef breytingin verður ekki gerð þá munu einhverjir skipverjar sem eru ráðnir til starfa á íslenskum skipum sem eru undir 20 brúttótonnum en yfir 12 brúttórúmlestum ekki lengur eiga rétt á sjómannaafslætti.

Um 6. gr.

    Lagt er til að þegar um samsköttuð félög er að ræða skuli skattlagningarstaður þeirra vera í því umdæmi sem móðurfélag hefur aðsetur. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að þegar skattaðili flyst á milli skattumdæma geti ríkisskattstjóri ákveðið annan framtals- eða skattlagningarstað en leiðir af ákvæðum 1.–3. mgr. Dæmi um slíkt tilvik er þegar skattstjóri byrjar mál einstaklings sem síðan flytur í annað umdæmi. Þá þarf samkvæmt gildandi lögum annar skattstjóri að byrja málið upp á nýtt. Þetta er eðli máls samkvæmt óhagkvæmt og hefur oftar en ekki í för með sér óþarfa bréfaskipti og umstang fyrir gjaldandann.

Um 7. gr.

         Á framtali skal gera grein fyrir m.a. kaupum og sölum á ökutækjum. Upplýsingar um kaupverð liggja ekki fyrir í opinberum skrám. Hér er lagt til að slíkar upplýsingar verði skráðar á eigendaskiptatilkynningar og þar með skapaður grundvöllur fyrir rafræna forskráningu þessara upplýsinga á skattframtöl.

Um 8. gr.

    Sú breyting sem hér er lögð til lýtur að skipulagi skattkerfisins. Samkvæmt gildandi lögum annst skattstjórar skatteftirlit hver í sínu umdæmi. Þá hefur ríkisskattstjóri á hendi yfirstjórn skatteftirlits og skatteftirlit á landinu öllu. Sú breyting sem hér er lögð til felur í sér að fjármálaráðherra getur ákveðið að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu umdæmi og eftir atvikum skattbreytingu ef skatteftirlit leiðir til endurákvörðunar opinberra gjalda. Skatteftirlit var flutt frá landsbyggðarskattstofum til embættis ríkisskattstjóra árið 1996. Ástæðan var sú að illa gekk að manna þessar stöður úti á landi og einingarnar voru of litlar á hverjum stað til að þær gætu verið faglega og fjárhagslega hagkvæmar. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að heimilt verði að færa landsbyggðarskatteftirlitið frá ríkisskattstjóra til ákveðinna skattumdæma. Er talið að nú sé grundvöllur til að færa það aftur út á landsbyggðina, þó þannig að sami skattstjóri fari með skatteftirlit í fleiri en einu skattumdæmi svo að eftirlitseiningar sem settar yrðu upp ráði yfir lágmarks mannafla.

Um 9. gr.

    Hér er lögð til lítils háttar orðalagsbreyting á 6. mgr. 108. gr. laganna. Núgildandi ákvæði hljóðar svo: „Sök samkvæmt 107. gr. fyrnist á sex árum miðað við upphaf rannsóknar, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar.“ Til að taka af allan vafa er í þessari grein tekið skýrt fram að miðað er við að sök fyrnist miðað við upphaf rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Er þessi breyting lögð til í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 3047/2000. Taldi umboðsmaður réttaróvissu fylgja því að ekki væri kveðið með skýrum hætti á um það í 6. mgr. 108. gr. laganna, að rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins rjúfi fyrningarfrest þann sem ákvæðið mælir fyrir um.

Um 10. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 110. gr. laganna að því er varðar innheimtu opinberra gjalda. Breytingarnar felast í því að fyrirframgreiðslu þinggjalda og eftirstöðvum þeirra verði skipt þannig niður á gjalddaga að aldrei verði lægri fjárhæð til innheimtu á hverjum gjalddaga en 2.000 krónur. Gjalddagar geti mest orðið tíu. Ef ákvörðuð fyrirframgreiðsluskylda væri til dæmis 6.000 krónur kæmi hún til innheimtu þannig að 2.000 krónur væru til innheimtu 1. febrúar, 1. mars og 1. apríl og þar með væri fyrirframgreiðslan fullgreidd. Sama fyrirkomulag væri síðan haft á, þegar eftirstöðvum álagningar þinggjalda verður dreift á gjalddaga. Þá er gert ráð fyrir því að þeir mánuðir sem fyrirframgreiðslan er ákveðin, þ.e. janúar og sá mánuður sem álagningu lýkur, verði ekki gjalddagamánuðir samkvæmt ákvæðinu.


Um 11. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 1. og 2. mgr. 112. gr. gildandi laga sem fjallar um vexti og dráttarvexti, til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Í núgildandi 1. mgr. 112. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt kemur fram að dráttarvextir séu þeir sömu og hjá innlánsstofnunum, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Þessi viðmiðun féll niður með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og ákveður Seðlabanki Íslands ekki lengur dráttarvexti hjá innlánsstofnunum. Í ljósi þess er í a-lið greinarinnar lagt til að dráttarvextir verði þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Í 2. mgr. 112. gr. gildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt er miðað við að vextir vegna ofgreiddra skatta skuli vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma. Viðmiðunin „óbundnir sparireikningar“ er ekki lengur notuð. Er í b-lið greinarinnar lagt til að vextir verði jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Er breytingin sem hér er lögð til samhljóða þeirri breytingu sem gerð var með 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, og fjallar um vexti af skaðabótakröfum.

Um 12. gr.

    Hér er lagt til að ákvörðun um mat á hlunnindum verði hjá fjármálaráðherra, en að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, þannig að fleiri en eitt stjórnvald komi að endanlegri ákvörðun.

Um 13. gr.

    Í þessari grein er lagt til að sérstakur tekjuskattur einstaklinga verði framlengdur um eitt ár. Jafnframt er lagt til að skatthlutfallið verði lækkað úr 7% í 5% og tekjumörkin hækkuð um 2,75%.

Um 14. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur um ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þar má nefna að lagt er til að sérstakur tekjuskattur falli ekki niður eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum heldur verði hann framlengdur um eitt ár og að skatthlutfallið lækki um 2% og tekjumörk skattsins hækki um 2,75%. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að heimilað verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa í tíu ár í stað átta ára. Einnig eru lagðar til breytingar á vaxtaákvæðum laganna til samræmis við breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingar. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir ýmsum breytingum á skattframkvæmdinni. Verði ákvæði frumvarpsins lögfest er talið að áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði óveruleg og áformar fjármálaráðuneytið að þeim verði komið í framkvæmd innan útgjaldaramma gildandi fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 hefur verið gert ráð fyrir að sérstakur tekjuskattur verði framlengdur á sama hátt og í þessu frumvarpi og að tekjur af honum nemi tæplega 1,6 milljörðum króna. Reiknað er með að aðrar tekjubreytingar sem leitt gæti af frumvarpinu verði óverulegar.