Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 369  —  339. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um textun íslensks sjónvarpsefnis.

Flm.: Pétur Bjarnason, Sverrir Hermannsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hraða framkvæmd þingsályktunartillögu um textun íslensks sjónvarpsefnis sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi árið 2001, svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að íslenskt sjónvarpsefni verði textað eftir því sem við verður komið til hagsbóta fyrir heyrnardauft fólk sem við núverandi aðstæður á erfitt með að fylgjast með íslensku efni í sjónvarpi.“

Greinargerð.


    Þingsályktunartillögunni sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Ljóst er að þeir sem eru heyrnarlausir eða heyrnardaufir eiga mun erfiðara með að fylgjast með innlendu sjónvarpsefni en erlendu þar sem aðaltengiliður þeirra við efnið er skrifaði textinn sem fylgir með. Hann hefur fram að þessu aðeins fylgt erlendu efni sem hefur verið íslenskað. Hópur þeirra sem eru heyrnarlausir eða svo heyrnardaufir að þeir eiga í erfiðleikum með að fylgjast með töluðu orði í ljósvakamiðlum er mjög stór. Þeir sem nota heyrnartæki að staðaldri eru 15–18 þúsund og auk þess geta margir heyrnardaufir ekki nýtt sér heyrnartæki. Alls er talið að 25–30 þúsund Íslendingar séu heyrnarskertir en þeir vilja lifa í íslensku málsamfélagi og geta það. Þetta er sennilega stærsti hópur fatlaðra í samfélaginu.
    Því miður hefur í mörgum tilfellum gengið erfiðlega að dempa aukahljóð í heyrnartækjum þannig að sumir heyrnardaufir varast að nota þau þegar þeir horfa á sjónvarp. Mörgum finnst orðið brýnt jafnréttismál að texta íslenskt sjónvarpsefni eftir því sem við verður komið. Slíkt hefur tíðkast í nágrannalöndum okkar, sumum nokkuð lengi. Auðvitað hlýtur alltaf eitthvert efni að vera undanskilið, svo sem fréttir sem berast á síðustu stundu og beinar útsendingar frá umræðum, en það yrði strax til mikilla bóta ef hafist yrði handa við að texta efni sem hægt væri að vinna þannig með góðu móti.
    Þess má geta að annars staðar á Norðurlöndum er textun innlends efnis orðin sjálfsögð í rekstri sjónvarpsstöðva. Einnig má benda á að textun íslensks efnis ýtir mjög undir bætta lestrargetu heyrnarskertra barna og unglinga, auk þess sem slík textun er mikilvægur stuðningur við nýbúa sem eru að læra málið. Það auðveldar þeim að skilja efnið geti þeir fylgst með skjátextanum jafnframt því sem þeir hlusta.“
    Fyrir skömmu var haldin ráðstefna um textun á íslensku sjónvarpsefni og íslenskum kvikmyndum undir nafninu Textaþing. Þar komu fram upplýsingar um hversu skammt við erum komin á veg í þessum efnum og einnig um hlutfall textunar hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar.
    Talið er að um 30 þúsund manns hér á landi geti ekki fylgst á fullnægjandi hátt með fréttum og öðru innlendu dagskrárefni í sjónvarpi. Það er svipað hlutfall og hjá nágrannaþjóðunum. Enn er mörgum í fersku minni hvílík bylting það varð þegar textun hófst á erlendu efni í sjónvarpi og kvikmyndum fyrir allmörgum árum. Nú þykir textinn sjálfsagður og óhjákvæmilegur, en opnaði á þeim tíma nýjan heim fyrir þá sem ekki bjuggu yfir mikilli tungumálakunnáttu. Svipuð bylting yrði það fyrir stóran hluta landsmanna ef textun yrði almenn á íslensku sjónvarpsefni og kvikmyndum.
    Á árinu 2001 var settur texti við alls 625 mínútur af íslensku sjónvarpsefni sem nálgast mátti með textavarpi. Ekki er ljóst hversu hátt hlutfall það er af öllu efni en að líkum mjög lágt. Sama ár var 2,8 millj. kr. varið til textunar og táknmálsfrétta en ekki liggur fyrir sundurliðun á þeim kostnaði. Áætlað er að 3,3 millj. kr. fari í þessa liði árið 2002. Það er naumast meira en eitt prómill af útgjöldum RÚV.
    Þessar tölur sýna svo að ekki verður um villst að hægt miðar og þingsályktunin frá 126. löggjafarþingi hefur enn ekki haft nein áhrif. Þessi tillaga er því flutt nú til að vekja enn á ný athygli á þessu brýna máli.
    Á fyrrgreindu Textaþingi kom fram að um 78% af öllu efni breska ríkissjónvarpsins, BBC, eru textuð. Þar á meðal eru íþróttafréttir, fréttir, þingmál og bíómyndir. Árið 1983 voru einungis fáeinar klukkustundir á viku textaðar en á níunda áratugnum voru samþykkt lög sem kröfðust þess að 50% efnis yrðu textuð og gefin átta ár til að framkvæma verkið. Það gekk svo vel að árið 1996 var markið sett á 80% efnis. BBC hefur sjálft sett sér það markmið að allt efni þess verði textað árið 2008. Talið er að sjöundi hver íbúi Bretlands sé heyrnarskertur, en einnig er vitað að stór hópur fólks notar textann til þess að bæta enskukunnáttu sína. Nú er verið að vinna með nýja tækni sem breytir tali samstundis í texta.
    Í Bandaríkjunum er ástand orðið gott varðandi textun sjónvarpsefnis, t.d. er allt efni í íþróttum textað, flestallar auglýsingar og þar hvílir sú lagaskylda á sjónvarpsstöðvum að texta allt efni sitt ekki síðar en í janúar 2006.
    Í Noregi eru um 600.000 manns heyrnarskertir, þar af um 200.000 með heyrnartæki. Í opinberum tölum frá norska ríkissjónvarpinu, NRK, segir að um 60% efnis þar séu textuð, en þar er talið með erlent efni sem er textað eins og hér. Því er talið nær lagi að um 25% af norsku efni séu textuð, sem er þó umtalsvert meira en hér. Þar er eins og í Bretlandi verið að þróa beina túlkun á tali yfir í ritmál.
    Í Bretlandi er það löggjöfin sem stýrir textun efnis hjá BBC, annars staðar hefur ekki verið sett löggjöf en þrýstingur frá almenningi og stjórnvöldum hefur stýrt þróuninni. Talið er að Hollendingar hafi náð einna lengst án lagasetningar, en um 70% efnis þar eru textuð.
    Það fer ekki á milli mála að Ísland hefur mjög dregist aftur úr í þessum efnum og því brýnt að hefjast handa við þetta mál sem er réttlætismál fyrir stóran hluta þjóðarinnar.