Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 354. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 391  —  354. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      5. tölul. orðast svo: húsgagna- og innanhússarkitekta (húsgagna- og innanhússhönnuða) eða hluta þessa starfsheitis.
     b.      Orðið „og“ í 7. tölul. fellur brott.
     c.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
             10.     tölvunarfræðinga.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þeir sem lokið hafa BS-prófi eða meistaraprófi í tölvunarfræði frá viðurkenndum íslenskum háskóla (eða meistaranámi úr slíkum skólum) þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta, sem samið er í iðnaðarráðuneytinu, miðar að því að löggilda starfsheiti tölvunarfræðinga með því að bæta þeim við upptalninguna í lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Jafnframt eru gerðar smábreytingar varðandi starfsheiti húsgagna- og innanhússarkitekta.
    Hér á eftir er fyrst lýsing á námi tölvunarfræðinga hér á landi, byggð á gögnum sem Félag tölvunarfræðinga hefur látið í té. Þar er jafnframt vikið að starfsheitinu kerfisfræðingur, sem fæst að loknu tveggja ára námi, en ekki er stefnt að löggildingu á því starfsheiti með þessu frumvarpi. Einnig er vikið að útskrift tölvutækna eftir þriggja ára nám í iðnskólanum í Reykjavík, svo og starfsemi Rafiðnaðarskólans er tengist tölvukerfum.
    Við Háskóla Íslands er tölvunarfræði kennd í tölvunarfræðiskor innan verkfræðideildar. Nám í tölvunarfræði tekur um þrjú ár og útskrifast nemendur með BS-gráðu í tölvunarfræði og kallast þá tölvunarfræðingar. Fyrstu tölvunarfræðingarnir útskrifuðust frá Háskólanum árið 1978 og síðan hafa yfir 500 nemendur lokið námi. Námið er 90 einingar, þar af 60 einingar í skyldunámskeiðum og 30 í valnámskeiðum. Af skyldueiningunum 60 er 21 eining í ýmsum stærðfræðinámskeiðum. Á þeim er m.a. kennd stærðfræðigreining, línuleg algebra, rökfræði, tölfræði og bestunarfræði. Stærðfræði er undirstaða tölvunarfræðinnar því að mörg svið tölvunarfræði eru sprottin af ýmsum sérsviðum stærðfræðinnar. Auk þess er mikilvægt að læra stærðfræðilegan hugsunarhátt og kunna að beita honum á viðfangsefni í tölvunarfræðinni. Hinar 39 skyldueiningarnar felast í tölvunarfræðinámskeiðum. Gífurlega hröð þróun er á tölvusviðinu. Hin fræðilega undirstaða breytist þó ekki eins hratt og þess vegna endist hún betur. Þessi undirstaða gefur dýpri skilning á því sem er að gerast í tölvuheiminum auk þess sem mun auðveldara er að tileinka sér nýja tækni ef grunnskilningur á eðli hennar er til staðar.
    Við Háskólann í Reykjavík (HR) er tölvunarfræði kennd í tölvunarfræðideild. Nám í deildinni til BS-prófs í tölvunarfræði (90 einingar) tekur þrjú ár og er unnt að velja á milli tveggja kjörsviða, notendahugbúnaðar og kerfishugbúnaðar. Að auki er unnt að útskrifast með viðskiptafræðival eða val í tæknigreinum eða raunvísindum. Eftir tveggja ára nám býðst nemendum jafnframt að útskrifast sem kerfisfræðingar HR (60 einingar). Af 90 einingum til BS-prófs í tölvunarfræði eru 66–69 einingar í skyldunámskeiðum (háð kjörsviði nemanda) og 21–24 einingar í valnámskeiðum. Eru 9–12 einingar af skyldunámskeiðum í stærðfræði en önnur skyldunámskeið skiptast á milli forritunar, greiningar, hönnunar og fræðilegrar tölvunarfræði. Hér má einnig nefna að tölvunarfræðideild HR hefur farið þá leið á nokkrum námskeiðum að kenna nauðsynlegan stærðfræðigrunn fyrir umfjöllunarefnið sem hluta af viðkomandi námskeiði í stað sérstaks stærðfræðinámskeiðs í sama tilgangi. Markmið tölvunarfræðideildarinnar er að fylgjast með nýjungum og endurspegla alþjóðlega tækniþróun með stöðugri endurskoðun á námsefni. Þannig útskrifast nemendur sem kunna til verka og hafa jafnframt trausta fræðilega undirstöðu til að geta stöðugt tileinkað sér nýjungar í greininni. Nemendurnir öðlast því þekkingu sem býr þá jöfnum höndum undir störf og framhaldsnám.
    Starfsheitið kerfisfræðingur varð til á fyrstu árum tölvuvæðingar hér á landi innan Skýrr (Skýrsluvéla ríkisins) og RB (Reiknistofu bankanna). Þeir sem unnu við hugbúnaðargerð á þessum árum komu úr öllum áttum, stærðfræðingar, loftskeytamenn og verkfræðingar. Innan Skýrr og RB varð síðan til starfsheitið kerfisfræðingur yfir þennan hóp. Allir hafa geta kallað sig kerfisfræðing og það starfsheiti hefur mest verið notað af þeim sem hafa eftir menntaskóla lokið einhvers konar tölvunámi sem hefur ekki jafnast á við tölvunarfræði (e. computer science). Einnig eru dæmi um að menn með litla þekkingu og menntun hafi nefnt sig kerfisfræðinga. Almennt má segja að nú sé starfsheitið kerfisfræðingur marklaust nema með fylgi upplýsingar um hvar viðkomandi útskrifaðist. Þessi misnotkun á orðinu kerfisfræðingur varð til þess að útskriftarnemar úr tveggja ára námi við Háskólann í Reykjavík (HR) nefna sig „kerfisfræðing HR“. Að sjálfsögðu er þriggja ára námið við HR fólgið í því að útskrifa tölvunarfræðinga og HR gerir ráð fyrir að útskriftarnemum úr tveggja ára náminu fækki verulega á næstu árum.
    Nokkuð hefur borið á að menn með litla eða enga menntun hafi notað starfsheitið tölvunarfræðingur. Stærstur hluti þeirra sem útskrifast sem tölvunarfræðingar vinna við hugbúnargerð og það á einnig við um mjög stóran hluta kerfisfræðinga HR. Hugbúnaðargerð krefst þekkingar og aga og því er góð menntun nauðsynleg undirstaða. Rekstur tölvukerfa er á hinn bóginn mjög fjölbreytt starf sem náð getur frá einföldum viðgerðum upp í flóknar uppsetningar á netkerfum. Nokkrir skólar hafa útskrifað nemendur til að sinna rekstri tölvukerfa.
    Iðnskólinn í Reykjavík útskrifar tölvutækna eftir þriggja ára nám. Ekki munu margir slíkir hafa útskrifast.
    Rafiðnaðarskólinn hefur verið mjög virkur og margir rafvirkjar og rafeindavirkjar vinna við rekstur tölvukerfa en þeir titla sig að sjálfsögðu rafvirkja eða rafeindavirkja.
    Rafiðnaðarskólinn, ásamt öðrum skólum, hefur líka staðið fyrir námskeiðum í sértækum hugbúnaði. Þau námskeið geta allir farið á og fá þeir sem útskrifast skírteini um að þeir séu t.d. „Microsoft Professional Engineer“.
    Er sótt verður um löggildingu á starfsheitinu tölvunarfræðingur er gert ráð fyrir að Félag tölvunarfræðinga verði umsagnaraðili um lágmarksmenntun.
    Ekki er gert ráð fyrir því að þeir sem lokið hafi BS-prófi úr viðurkenndum íslenskum háskóla eða meistaraprófi úr slíkum skólum þurfi leyfi ráðherra.
    Að því er varðar húsgagna- og innanhússarkitekta þykir rétt að leggja húsgagna- og innanhússhönnuði að jöfnu eins og gert er varðandi landslagsarkitekta (landslagshönnuði). Hugsanlegt er að einhverjir sem báru starfsheitið húsgagna- og innanhússhönnuðir vilji halda því og yrði þá réttur þeirra til slíks varðveittur. Jafnframt þykir rétt að taka af tvímæli um það að þeir sem vilji nota starfsheitið húsgagnaarkitekt (húsgagnahönnuður) eða innanhússarkitekt (innanhússhönnuður) hafi fullnægjandi lágmarksmenntun.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum,
með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að löggilda starfsheiti tölvunarfræðinga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.