Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 393  —  356. mál.
Frumvarp til lagaum auknar ábyrgðir vegna lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003)


1. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast hluta Íslands vegna hækkunar útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna þannig að heildarábyrgð ríkissjóðs vegna lánaflokksins nemi allt að 3,3 milljónum evra.

2. gr.

    Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ganga frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um ábyrgð skv. 1. gr. og staðfesta nauðsynlegar breytingar á samþykktum bankans vegna hækkunarinnar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Fjármálaráðherrar Norðurlanda samþykktu á fundi sínum 12. júní 2002 að hækka útlánaramma Norræna fjárfestingarbankans vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna úr 100 í 300 milljónir evra. Þar sem Norðurlöndin ábyrgjast þessi lán að fullu, þ.e. 100%, felst jafnframt í þessari ákvörðun að ábyrgðir landanna aukist sem þessu nemur. Samkvæmt þessu mun heildarábyrgð Íslands hækka úr 1,1 í 3,3 milljónir evra, eða í um 280 m.kr.
    Þessi lánafyrirgreiðsla kom til framkvæmda í ársbyrjun 1997 samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna og var fjármálaráðherrum og umhverfisráðherrum landanna falið að tryggja þessu máli framgang. Fyrri heimildir bankans eru senn fullnýttar og bankinn telur sig ekki geta staðið við þær skuldbindingar sem honum hafa verið lagðar á herðar af hálfu ráðherranefndarinnar á þessu sviði nema með hækkun útlánarammans.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Óskað er eftir heimild frá Alþingi fyrir ríkisábyrgð, að fjárhæð allt að 3,3 milljónir evra, gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

Um 2. gr.

    Óskað er eftir heimild til þess að fjármálaráðherra geti gengið frá samningi við Norræna fjárfestingarbankann um ábyrgð skv. 1. gr. og staðfest breytingar á samþykktum bankans í samræmi við hækkun útlánarammans og auknar ábyrgðir aðildarþjóðanna.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um auknar ábyrgðir vegna lánaflokks í Norræna fjárfestingarbankanum til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna.

    Með frumvarpi þessu er óskað eftir heimild frá Alþingi um ríkisábyrgð, að fjárhæð allt að 3.300.000 evrum, eða sem svarar til um 280 m.kr., gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum vegna lána til umhverfismála í grannhéruðum Norðurlandanna. Ekki er ástæða til að ætla að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum nema til þess kæmi að reyndi á ábyrgðina en hverfandi líkur eru taldar vera á því.