Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 399  —  359. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)1. gr.

    5. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

    Gjaldskyldir aðilar, álagningarstofn og álagt gjald.     

    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,0108% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,25355% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,0521% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,00658% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,09% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 150.000 kr.
     4.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu greiða 0,0885% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Verðbréfasjóðir skulu greiða 0,01068% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu greiða 0,08593% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 150.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,5% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00648% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 150.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna og 600.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við fjölda virkra sjóðfélaga.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 250.000 kr. Póstgíróstofa Íslandspósts hf. skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
     9.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,0101% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr. Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs skal greiða 0,0004% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 400.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/ 10hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 2/ 3hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr., enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, segir:
    ,,Fyrir 15. september ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. ágúst ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Meðfylgjandi er skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 2. gr. laganna ásamt áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila. Niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds og er því, í samræmi við 3. mgr., lagt fram frumvarp um breytingu á álagningarhlutföllum 5. gr. laganna.
    Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll hækkuð en lágmarksgjöld eru óbreytt. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald hækki úr 211,7 m.kr. árið 2002 í 259,7 m.kr. árið 2003, eða um rúm 22%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemur 263,5 m.kr. en 268,4 m.kr. á því næsta, sem er tæplega 2% hækkun. Ástæðan fyrir því að álagt eftirlitsgjald hækkar meira en nemur hækkun rekstrarkostnaðar er sú að í byrjun þessa árs voru 47,9 m.kr. peningalegar eignir yfirfærðar frá fyrra ári.


Fylgiskjal I.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað
Fjármálaeftirlitsins árið 2003, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2003. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 15. september ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2003. Átti Fjármálaeftirlitið fund með nefndinni þann 15. ágúst sl. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2003. Samráðsnefndin skilaði óformlegum ábendingum til Fjármálaeftirlitsins hinn 27. ágúst sl. og var fjallað um þær á fundi með nefndinni sama dag. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um ábendingar nefndarinnar á stjórnarfundi 10. september og í kjölfarið var samráðsnefndinni gefið tækifæri á að koma endanlegu áliti sínu á framfæri.
    Í skýrslu þessari er að finna umfjöllun um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2001 og álagningu vegna ársins 2002, umfjöllun og skýringar með endurskoðaðri rekstraráætlun vegna ársins 2002, umfjöllun og skýringar vegna rekstraráætlunar fyrir árið 2003 og umfjöllun um álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2003. Enn fremur er fjallað um rekstur stofnunarinnar og mannaflaþörf til næstu þriggja ára, í samræmi við tilmæli í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar við afgreiðslu frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999 á síðasta hausti, sbr. fylgiskjal með skýrslunni.
    Skýrslunni fylgja töflur þar sem gerð er grein fyrir áætluðu rekstrarumfangi næsta árs og rekstri Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 1) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang (tafla 2).

1.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2001, álagning vegna ársins 2002.
Rekstur á árinu 2001.
    Uppsafnaður tekjuafgangur af rekstri Fjármálaeftirlitsins í árslok 2001 nam samtals 47,9 m.kr. Tekjuafgangurinn á árinu 2001 reyndist lítillega meiri en endurskoðuð áætlun á miðju ári 2001 gerði ráð fyrir, en í endurskoðaðri áætlun var gert ráð fyrir að uppsafnaður tekjuafgangur í árslok næmi um 45,2 m.kr. Ástæður þessa voru m.a. að nýráðningar í lok síðasta árs gengu seinna eftir og höfðu minni áhrif en áætlað hafði verið. Á móti kom þó að meiri kostnaður féll til á árinu vegna stækkunar á húsnæði Fjármálaeftirlitsins, en áætlað hafði verið.
    Um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2001 er að öðru leyti vísað til ársreiknings og skýringa með honum.

Álagning vegna ársins 2002.
    Álagning eftirlitsgjalds á árinu 2002 var byggð á álagningarhlutföllum, skv. 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Við ákvörðun þeirra álagningarhlutfalla var gert ráð fyrir að innheimtar yrðu 210,4 m.kr. Nú er gert ráð fyrir að álagningin nemi 211,7 m.kr. eða um 0,6% hærri fjárhæð en áætluð var. Um er að ræða áhrif breytinga á eftirlitsskyldum aðilum.

2.     Endurskoðuð rekstraráætlun vegna ársins 2002.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2003 hefur Fjármálaeftirlitið endurskoðað rekstraráætlun þessa árs. Í töflu 1 er birt endurskoðuð rekstraráætlun miðað við júlí 2002 (dálkur 2), í samanburði við upphaflega áætlun. Við breytingar í meðförum Alþingis á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999 lækkaði áætlað álagt eftirlitsgjald um tæplega 4,6 m.kr. og tekur niðurstöðutala í dálki 1 (gjöld alls) mið af því.
    Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verður rekstrarkostnaður stofnunarinnar innan tekjuáætlunar á árinu. Tekjur mínus gjöld eða uppsafnaður tekjuafgangur mun nema 3,4 m.kr. samkvæmt áætlun. Áætlað er að tekjur stofnunarinnar verði meiri en gert var ráð fyrir í endurskoðaðri upphaflegri áætlun og nemi 267 m.kr. í stað 259,4, eða um 2,8% umfram endurskoðaða upphaflega áætlun (dálkur 1, töflu 1). Tekjur umfram áætlun má rekja til hærri uppsafnaðs tekjuafgangs í árslok 2001 (2,7 m.kr.), áætlaðra tekna vegna vinnu við útboðslýsingar (um 0,8 m.kr.), hærri eftirlitstekna vegna breytinga á eftirlitsskyldum aðilum (1,3 m.kr.) og að síðustu hærri vaxtatekna en upphaflega var gert ráð fyrir (2,7 m.kr.). Vanáætlun vaxtatekna stafar fyrst og fremst af því að Fjármálaeftirlitið hafði ekki fengið staðfestar upplýsingar um vaxtaprósentu, þegar upphafleg áætlun var gerð, en breytingar stóðu yfir á reikningsviðskiptum við Seðlabanka Íslands.
    Á hinn bóginn er fyrirséð að rekstrarkostnaður stofnunarinnar verði hærri en endurskoðuð upphafleg áætlun gerði ráð fyrir og nemi 263,5 m.kr. í stað 259,4 m.kr., eða 1,6% umfram endurskoðaða upphaflega áætlun. Helsta frávik frá upphaflegri áætlun er að launakostnaður er nú áætlaður hærri en upphaflega var gert ráð fyrir, um 3,8 m.kr. eða sem nemur um 2%. Í upphaflegri rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir þetta ár var áætlað að í upphafi ársins yrðu stöðugildi tæplega 30, en voru í reynd 31 vegna tveggja starfsmanna í tímabundinni ráðningu. Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir að stöðugildi í árslok yrðu 33, en áætlað er nú að þau verði 32,8. Þegar hefur verið ráðið í þau störf.
    Ástæður þess að launakostnaður er nokkru hærri en áætlað var er að launakostnaður við nýráðningar er hærri en áætlað hafði verið. Einnig hefur nokkur skörun orðið vegna mannabreytinga auk þess sem tímabundnar ráðningar hafa verið fleiri en í meðalári vegna sérstakra verkefna og til að leysa verkefni vegna fæðingarorlofs starfsmanna. Skörun við mannabreytingar og tímabundnar ráðningar leiða til þess að meðalstöðugildi á árinu verða örlítið fleiri en gert var ráð fyrir og launakostnaður meiri.
    Annað frávik frá upphaflegri áætlun er að kostnaður vegna reksturs tölvubúnaðar og sérfræðiþjónustu vegna tölvumála reynist meiri en áætlað var, 16,6 m.kr. í stað 13,9 m.kr. eða hækkun um 19%. Ástæður þessa eru að leiga á búnaði reyndist hærri en áætlað var og uppfærslur kostnaðarsamari. Þá taldi Fjármálaeftirlitið óhjákvæmilegt að hraða endurbótum á heimasíðu eftirlitsins en hún hefur verið óbreytt frá miðju ári 2000. Á heimasíðunni voru gallar sem stóðu nýtingu hennar fyrir þrifum.
    Á hinn bóginn er kostnaður vegna ferða erlendis á árinu nú áætlaður minni en endurskoðuð upphafleg áætlun (tafla 1, dálkur 1) gerði ráð fyrir. Ástæða þess er að ferðakostnaður er heldur minni á hverja ferð en gert var ráð fyrir vegna hagstæðrar gengisþróunar. Einnig hefur Fjármálaeftirlitið beitt ströngu aðhaldi og í raun ekki tekið þátt í erlendu samstarfi á sínu sviði eins og æskilegt væri.
    Enn fremur reynist húsnæðiskostnaður lægri en áætlað var vegna hagstæðari verðlagsþróunar en gert hafði verið ráð fyrir. Þá var kostnaður vegna eignakaupa, í tengslum við stækkun húsnæðis og fjölgun starfsmanna, minni en áætlað var þar sem hluti þess kostnaðar féll á árið 2001. Á móti kemur að ýmis gjöld og þjónusta voru vanáætluð, einkum vegna stofnkostnaðar við stækkun húsnæðis.
    Þá eru þátttökugjöld vegna erlends samstarfs áætluð 2,5 m.kr. í endurskoðaðri áætlun í stað 4 m.kr. Ástæða þessa er einkum að þátttökugjöld vegna Samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita (CESR, áður FESCO) höfðu ekki verið ákveðin við gerð upphaflegrar áætlunar og reyndust lægri en þar var áætlað.
    Eins og áður segir er gert ráð fyrir að uppsafnaður rekstrarafgangur í árslok 2002, sem kemur til frádráttar álagningu næsta árs, nemi um 3,4 m.kr.

3.     Rekstraráætlun fyrir árið 2003.
    Í töflu 1 er birt rekstraráætlun fyrir árið 2003 í samanburði við upphaflega rekstraráætlun og endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Helstu forsendur rekstraráætlunarinnar.
    Fjöldi starfsmanna er ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Af fjölda starfsmanna ráðast helstu stærðir að nokkru eða öllu leyti, svo sem laun og launatengd gjöld, stærð húsnæðis og umfang tölvubúnaðar. Á síðasta ári vann Fjármálaeftirlitið mat á starfsmannaþörf í stofnuninni og fylgdi greinargerð þess efnis með rekstraráætlun þeirri sem þá var unnin. Í greinargerðinni var lagt ítarlegt mat á starfsmannaþörf Fjármálaeftirlitsins til skemmri tíma og hugað að þörf til lengri tíma. Nú er ljóst að áætlun um starfsmannaþörf stofnunarinnar til skemmri tíma, þ.e. til ársloka 2002, hefur í meginatriðum gengið eftir. Í umræddri greinargerð var þó tekið fram að Fjármálaeftirlitið teldi brýnt að fjölga starfsmönnum enn meira á tímabilinu en ekki þyki raunhæft að frekari fjölgun sé framkvæmanleg á svo stuttum tíma. Til lengri tíma var það enn fremur niðurstaðan að þörf væri á nokkurri fjölgun starfsmanna á næstu árum eftir 2002.
    Fjármálaeftirlitið leggur ekki til fjölgun starfsfólks á árinu 2003 í forsendum fyrir rekstraráætlun ársins, þrátt fyrir niðurstöður framangreindrar greinargerðar. Ástæðurnar eru einkum tvær.
    Annars vegar leggur Fjármálaeftirlitið áherslu á að nýta til fullnustu reynslu og þekkingu sem nú er fyrir hendi. Ljóst er að nokkurn tíma tekur að ná fram fullri nýtingu á reynslu og þekkingu nýráðins starfsfólks. Rétt þykir að leggja áherslu á árangur í þeim efnum og meta í framhaldinu þörf á frekari fjölgun starfsmanna.
    Hins vegar telur Fjármálaeftirlitið erfiðleikum bundið að meta þörf á fjölgun starfsmanna eins og aðstæður eru nú. Ástæðan er einkum sú að ráðgerðar eru ýmsar breytingar á lögum um fjármálastarfsemi og margar tilskipanir á fjármálasviði eru til endurskoðunar og meðferðar á vettvangi Evrópusambandsins. Enn fremur eru viðamiklar breytingar í undirbúningi á alþjóðlegum eiginfjárreglum lánastofnana sem hafa munu í för með sér breytingar í eftirliti. Ekki er hins vegar ljóst á þessu stigi hvaða breytingar verða endanlega gerðar og þá hvaða áhrif þær munu hafa á Fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið væntir þess að betri forsendur skapist til mats á þessu á næsta ári.
    Nánar verður fjallað um rekstur Fjármálaeftirlitsins á næstu árum í viðauka hér á eftir.

Launakostnaður.
    Eins og áður er fram komið er gert ráð fyrir því í drögum að áætlun fyrir næsta ár að föst stöðugildi haldist óbreytt frá því sem áætlað er að verði í byrjun næsta árs, eða 33 stöðugildi. Til viðbótar verði svigrúm til að ráða sumarstarfsmenn og námsfólk í tímabundin verkefni.
    Launabreytingar fylgja kjarasamningum, en starfsmenn Fjármálaeftirlitsins þiggja laun samkvæmt kjarasamningum bankamanna og kjarasamningum opinberra starfsmanna. Samkvæmt þessum kjarasamningum er gert ráð fyrir 3% launahækkun frá 1. janúar 2003. Einnig er gert ráð fyrir öðrum samningsbundnum og starfsaldurstengdum breytingum á launum og launatengdum gjöldum. Þá er í drögunum gert ráð fyrir launabreytingum sem fylgja nýráðningum starfsfólks.
    Að teknu tilliti til framangreindra forsendna er gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld á árinu 2003 nemi um 187,2 m.kr., eða 1,9% hækkun frá endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2002.
    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á launum stjórnarmanna í Fjármálaeftirlitinu, en þau eru ákveðin af viðskiptaráðherra. Samráðsnefnd hefur á síðustu árum gagnrýnt stjórnarlaunin og það að varamenn skuli boðaðir á alla stjórnarfundi. Fjármálaeftirlitið leggur enn áherslu á að varastjórnarmenn séu virkir þátttakendur í öllum störfum stjórnar og fylgist vel með starfsemi stofnunarinnar. Vegna strangra hæfisreglna sem stjórnin hefur sett sér, er nauðsynlegt að varastjórnarmenn hafi allar nauðsynlegar forsendur til að geta fyrirvaralítið tekið þátt í ákvörðunum hennar. Rétt er að taka fram að varastjórnarmenn fá ekki stjórnarlaun til jafns við aðalmenn. Áður hefur verið farið yfir þetta fyrirkomulag og sjónarmið með samráðsnefnd auk þess sem gerð hefur verið grein fyrir þessu í bréfum og skýrslum Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra vegna fyrri rekstraráætlana stofnunarinnar.

Kostnaður við endurmenntun.
    Samkvæmt símenntunarstefnu Fjármálaeftirlitsins er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3% af heildarlaunum. Ekki er í drögum að áætlun gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir liði 3, 5, 10, 14 og 16. Samkvæmt símenntunarstefnunni er gert ráð fyrir fyrir fram ákveðinni skiptingu kostnaðarins, þ.e. 75% vegna námskeiðaþátttöku, 20% vegna bóka og tímarita og 5% vegna fræðafunda. Sérstök nefnd starfsmanna stofnunarinnar tekur við og vinnur úr umsóknum og hugmyndum um ráðstöfun áætlaðra fjármuna til símenntunar innan framangreindra viðmiðana og gerir tillögur til forstjóra.

Rekstur á húsnæði.
    Húsaleiga byggir á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggð á reynslu.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna tölvubúnaðar haldist óbreyttur á næsta ári, sé miðað við endurskoðaða áætlun fyrir þetta ár. Áætlunin er byggð á reynslu síðustu ára og fjölda starfsfólks. Starfsfólki Fjármálaeftirlitsins hefur fjölgað og núverandi grunnkerfi er ekki fullnægjandi miðað við aukna afkastaþörf. Það kallar á dýrara kerfi við endurnýjun sem fyrirhuguð er á síðustu mánuðum ársins 2002. Sá kostnaður kemur fram í rekstrarleigugjöldum tölvubúnaðar allt árið 2003. Eins og samráðsnefndinni er kunnugt hefur Fjármálaeftirlitið tekið nær allan tölvubúnað á leigu í stað þess að kaupa hann. Reglulegur rekstrarkostnaður er því nokkuð hár, en stofnkostnaður að sama skapi minni.

Ferðakostnaður og kostnaður vegna funda.
    Ferðakostnaður á næsta ári er áætlaður nokkuð hærri en endurskoðuð áætlun fyrir þetta ár gerir ráð fyrir en þó lægri en upphafleg áætlun fyrir þetta ár gerði ráð fyrir. Gert er ráð fyrir 62 ferðum á næsta ári í stað 56 á þessu ári. Rétt er að taka fram að þörf á alþjóðlegu samstarfi í eftirliti á fjármálamarkaði verður sífellt meiri með aukinni samtengingu markaða. Fjármálaeftirlitið sinnir víðtækri upplýsingagjöf um erlent samstarf sem það tekur þátt í. Þannig birtir það á heimasíðu sinni yfirlit yfir þátttöku Fjármálaeftirlitsins í erlendu samstarfi, þar sem fram kemur um hvaða samstarf er að ræða, hverjir eru fulltrúar Fjármálaeftirlitsins í samstarfinu og hvernig fundir eru sóttir. Enn fremur leitast Fjármálaeftirlitið við að miðla upplýsingum úr erlendu samstarfi til fjármálafyrirtækja, m.a. með því að birta fréttir á heimasíðu sinni.
    Vakin er athygli á því að áætlaður kostnaður vegna ferða erlendis árið 2003 er tæplega 7% hærri en var á árinu 2000. Samanburður við árið 2001 er óraunhæfur vegna fjölda funda í erlendu samstarfi sem haldnir voru hér á landi á því ári en á móti var kostnaður vegna funda hér á landi hærri en venjulega á sama ári.
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Hæstu þátttökugjöldin varða rekstur Samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita, Committee of European Securities Regulators (CESR, áður FESCO), en starfsemi nefndarinnar er kostuð af þátttakendum í tilteknum stærðarhlutföllum. Nokkur óvissa er um rekstrarkostnað nefndarinnar á næsta ári, en áætlunin gerir ekki ráð fyrir miklum breytingum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að aðild að alþjóðasamstarfi verðbréfaeftirlita er til athugunar en Ísland er eitt af fáum vestrænum ríkjum sem stendur utan þess samstarfs. Aðild íslenskra stjórnvalda að alþjóðasamtökum á sviði fjármálaeftirlits er mikilvægur þáttur í að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar, enda gerðar kröfur um að hver þjóð fyrir sig uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur í eftirliti og umgjörð fjármálamarkaðar.

Annar kostnaður.
    Aðrir kostnaðarliðir eru byggðir á reynslu fyrri ára. Gert er ráð fyrir töluverðri lækkun á kostnaði vegna eignakaupa og ýmissa gjalda og þjónustu, miðað við áætlanir fyrir þetta ár, þar sem stækkun húsnæðis og fjölgun starfsfólks fól m.a. í sér kostnað sem aðeins féll til í ár. Þetta á einnig við um íþrótta- og gististyrki til starfsmanna en 20% hækkun á milli ára stafar af fjölgun fastráðinna starfsmanna.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur.
    Eins og kunnugt er fær Fjármálaeftirlitið vexti af innstæðu á reikningi Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjurnar eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu miðað við álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun.
    Fjármálaeftirlitið gerir enn fremur ráð fyrir yfirlestri útboðslýsinga vegna almennra útboða, en kostnaður af þeirri vinnu er innheimtur samkvæmt gjaldskrá sem miðast við tímagjald.

4.     Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2003.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal FME leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Við undirbúning fyrri áætlana hafa verið lagðar til lítils háttar breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins. Þannig var álagning á verðbréfasjóði lækkuð hlutfallslega við álagningu vegna ársins 2000 og við álagningu vegna ársins 2001 var tekin ákvörðun um hækkun lágmarksgjalda. Við álagningu vegna ársins 2002 voru gerðar breytingar á lágmarksgjöldum, auk þess sem fjármálafyrirtæki sem eru að öllu leyti dótturfélög annarra fjármálafyrirtækja í sömu starfsemi greiða ekki fullt eftirlitsgjald.
    Fjármálaeftirlitið hefur eins og áður gert athugun á því hvort ástæða væri til að gera breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins, með tilliti til þess hvernig ráðstöfunartími í eftirliti hefur á síðustu árum fallið á einstaka flokka fjármálafyrirtækja. Fjármálaeftirlitið hefur í þessu efni tekið upp nýtt tímaskráningarkerfi sem auka á nákvæmni í tímamælingum. Niðurstaða þessarar athugunar leiddi til svipaðrar niðurstöðu og fyrri ár. Eins og áður má merkja lítils háttar breytingar á tímaskiptingu milli ára, en ekki er enn hægt að lesa tiltekna þróun út úr þeim til lengri tíma. Því telur Fjármálaeftirlitið ekki ástæðu til breytinga á hlutfallslegu vægi flokka eftirlitsskyldra aðila við álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2003, frá því sem var á árinu 2002.
    Fjármálaeftirlitið hefur á síðustu árum vakið máls á því að álagt eftirlitsgjald er ekki í samræmi við þann kostnað sem hlýst af eftirliti með smærri eftirlitsskyldum aðilum, enda ekki gert ráð fyrir því í núgildandi lögum að slíkt samræmi náist. Umræða um þetta hefur leitt til hækkunar á lágmarksgjöldum. Við breytingar á lögum 99/1999 á síðasta ári lagði efnahags- og viðskiptanefnd þó til lækkun á lágmarksgjaldi á vátryggingamiðlara frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Af hálfu Fjármálaeftirlitsins eru ekki gerðar tillögur um breytingar á lágmarksgjöldum nú.
    Fjármálaeftirlitið telur rétt að vekja athygli á að mikill stærðarmunur er orðinn á þeim aðilum sem leyfi hafa til vátryggingamiðlunar. Hingað til hafa engin félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun greitt hærra eftirlitsgjald en sem nemur lágmarksgjaldi. Fjármálaeftirlitið leggur nú til að hlutfall af iðgjaldamagni skv. 3. tölul. 2. mgr. verði hækkað þannig að stærri aðilar greiði meira en lágmarksgjald. Gert er ráð fyrir slíkri breytingu í meðfylgjandi töflu nr. 2.
    Í meðfylgjandi töflu nr. 2 eru álagningarhlutföll birt með hliðsjón af drögum að rekstraráætlun. Vekja má athygli á því að þrátt fyrir að álagningarhlutföll hækki lítillega milli ára hafa álagningarhlutföll á eftirlitsskylda aðila í heild farið lækkandi á þeim árum sem eftirlitsgjald hefur verið lagt á, enda hefur rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins ekki vaxið í samræmi við vöxt fjármálamarkaðar. Tafla 1.

Rekstraráætlun FME

Áætlun vegna 2002 Áætlun
Upphafleg Endursk. vegna Breyting
Í þús. kr. áætlun áætlun 2003 %
Rekstrarkostnaður: 1 2 3
1 Laun og launatengd gjöld 180.060 183.930 187.210 1,8%
2 Stjórnarlaun 6.120 6.190 6.400 3,4%
3 Starfsmannaþj., kaffi, fundir 2.400 2.240 2.600 16,1%
4 Íþrótta- og gististyrkur, framlag til SFME 2.000 1.840 2.200 19,6%
5 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 1.500 1.430 1.600 11,9%
6 Húsaleiga 17.350 16.600 16.570 -0,2%
7 Rafmagn, hiti, húsfélag 1.600 1.650 1.700 3,0%
8 Símakostnaður 1.680 1.640 1.740 6,1%
9 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 1.500 1.490 1.500 0,7%
10 Bækur og ritföng 2.460 2.690 2.700 0,4%
11 Póstkostnaður 720 500 570 14,0%
12 Rekstur tölvub. og sérfr.þj. v. tölvumála 13.876 16.640 16.570 -0,4%
13 Sérfræðikostnaður 3.000 2.410 3.000 24,5%
14 Ferðakostnaður erlendis 11.375 9.800 10.800 10,2%
15 Ferðakostnaður innanlands 1.500 1.360 1.500 10,3%
16 Þátttökugj. vegna erl. samstarfs og funda erlendis 4.000 2.540 3.000 18,1%
17 Kostnaður vegna funda innanlands 350 400 350 -12,5%
18 Eignakaup 5.500 2.600 2.000 -23,1%
19 Öryggisgæsla 400 580 700 20,7%
20 Ræsting, ræstingarvörur 2.700 2.640 2.700 2,3%
21 Ýmis gjöld og þjónusta 3.900 4.350 3.000 -31,0%
22 Lækkun á rekstrark. v. br. á álagningu í meðf. Alþingis -4.573
23 Gjöld alls 259.418 263.520 268.410 1,9%
24 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað 45.212 47.900 3.390
25 Álagt eftirlitsgj. miðað við breytingar á lögum nr. 99/1999 210.406 211.710 259.720
26 Vaxtatekjur 3.800 6.500 4.500
27 Aðrar tekjur 0 800 800
28 Tekjur alls 259.418 266.910 268.410
29 Tekjur mínus gjöld 0 3.390 0
30 Launakostnaður vegna úrskurðarnefnda 4.350 4.350 4.350
31 Tekjur úrskurðarnefnda 4.350 4.350 4.350
Sundurliðun útreiknings á launum og launatengdum gjöldum vegna ársins 2003.


Áætlun
2003

Óbreytt launagj. miðað við 33,7 stöðugildi 177,6
3% launahækkun sbr. kjarasamningar 5,3
Launabreytingar v. nýráðninga o.fl. 4,3
187,2
Viðauki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Rekstur Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára.
    Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til breytinga á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem lagt var fram við 2. umræðu frumvarpsins á 127. löggjafarþingi 2001–2002 (þskj. 529, 230. mál) lagði nefndin til að þegar frumvarp sama efnis yrði lagt fyrir Alþingi á næsta haustþingi verði horft lengra en verið hefur hingað til og t.d. lagt mat á starfsmannaþörf Fjármálaeftirlitsins til næstu þriggja ára þaðan í frá. Jafnframt taldi nefndin æskilegt að sameiginlegur skilningur fáist um það milli Fjármálaeftirlitsins og samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila hvernig rekstri stofnunarinnar verði háttað til næstu þriggja ára hverju sinni.
    Í ljósi framangreindra tilmæla efnahags- og viðskiptanefndar setur Fjármálaeftirlitið eftirfarandi umfjöllun fram um rekstur Fjármálaeftirlitsins og starfsmannaþörf næstu ár. Hér á eftir er fjallað um greinargerð um mat á starfsmannaþörf sem birt var á síðasta ári, fjallað um mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálastöðugleika hér á landi, áhrif löggjafarbreytinga á Fjármálaeftirlitið og mat á eftirlitið samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur. Að síðustu er fjallað um rekstur Fjármálaeftirlitsins á mat á starfsmannaþörf til næstu þriggja ára.

1.     Greinargerð um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu, frá árinu 2001.
    Eins og áður er vikið að er fjöldi starfsmanna ráðandi þáttur í rekstri og rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Í því skyni að styrkja stefnumótun Fjármálaeftirlitsins og auka nákvæmni í áætlanagerð þess vann Fjármálaeftirlitið sérstakt mat á starfsmannaþörf á síðasta ári, sem birt var sem fylgiskjal við rekstraráætlun og kynnt á heimasíðu eftirlitsins. Við gerð matsins var byggt á viðurkenndum aðferðum við mat á starfsmannaþörf og naut Fjármálaeftirlitið þar aðstoðar ráðgjafafyrirtækisins IMG. Matið var miðað við 1. júlí 2001, en var bæði til skemmri og lengri tíma. Rétt þykir að vekja hér athygli á niðurstöðum þess mats.
    Í greinargerðinni var litið bæði til ytri og innri þátta við mat á starfsmannafjölda. Hvað ytri þætti varðar var fjallað sérstaklega um þróun fjármálamarkaðar og sérstakra sviða hans og leitast við að leggja mat á þá þróun. Jafnframt var litið til lagabreytinga sem gerðar höfðu verið og einnig reifuð líkleg þróun löggjafar. Fjallað var enn fremur um alþjóðlegt samstarf á þessu sviði, greint frá athugun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálastöðugleika hér á landi, hugað að breyttum vinnubrögðum í starfsemi á fjármálamarkaði með auknu gegnsæi og lagt mat á þróun samskipta Fjármálaeftirlitsins við fjármálafyrirtæki og viðskiptamenn þeirra.
    Að því er varðar innri þætti sem áhrif hafa á mat á starfsmannafjölda var fjallað um þróun starfsmannafjölda hingað til, leitast við að leggja mat á starfsmannaveltu og fjallað um skipulag og úrlausn verkefna hjá Fjármálaeftirlitinu. Einnig var greint frá samsetningu þekkingar og reynslu á meðal starfsfólks stofnunarinnar, með hliðsjón af menntun, starfsaldri og verksviði. Þá var fjallað um nýtingu starfsfólks, skiptingu vinnu á eftirlitsskylda aðila og skiptingu kostnaðar. Að síðustu var lagt mat á samkeppnishæfni Fjármálaeftirlitsins við að laða til sín nýtt starfsfólk.
    Á grundvelli þessara upplýsinga var leitast við að leggja mat á starfsmannaþörf. Varpað var fram spurningunni hvort þörf væri á fjölgun starfsmanna. Um það sagði eftirfarandi:
    „Það er erfiðleikum bundið að meta hvaða áhrif þróun á fjármálamarkaði, þróun löggjafar og þróun eftirlitsins sjálfs hefur á starfsmannaþörf FME. Þau atriði sem rakin eru í kafla 1 hér að framan benda flest til þess að verkefni FME muni halda áfram að aukast á næstu missirum, hvort sem litið er til lengri tíma eða skemmri tíma.
         Þegar horft er til skemmri tíma virðist þörf á fjölgun starfsmanna augljós. Nefna má nokkur atriði í því sambandi:
          Fyrir liggur að starfsmönnum hefur ekki fjölgað í takt við vöxt fjármálafyrirtækja, breytingar á fjármálastarfsemi og fjölgun verkefna sem því fylgja.
          Löggjafinn hefur fengið FME aukin verkefni með nýlegum lagabreytingum.
          Eftirspurn fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra eftir liðsinni FME hefur aukist í takt við aukna kynningu á FME og aukin verkefni.
          Úrbætur á ýmsum þáttum í lögum og reglum og starfsemi eftirlitsins sjálfs eru brýnar, eins og tilvitnuð skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sýnir vel.
    Þegar horft er til lengri tíma má nefna fleiri atriði:
          Fyrirsjáanleg þróun fjármálamarkaðar bendir eindregið til þess að til lengri tíma muni verkefni FME og kröfur til þess aukast. Nægir að nefna útrás fjármálafyrirtækja og sífellda þróun í átt til flóknari og margþættari starfsemi þar sem reynir á mörk laga og reglna.
          Fyrirhugaðar og þegar ákveðnar breytingar á lögum og reglum, sem reifaðar eru hér að framan benda einnig í þessa átt. Nefna má sem dæmi að breytingar á eiginfjárreglum lánastofnana munu á næstu árum hafa í för með sér veigamiklar breytingar á eftirliti og auknar kröfur til fjármálaeftirlita.
          Aukinn sýnileiki Fjármálaeftirlitsins eykur eftirspurn fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra. Einnig bendir allt til að styrking eftirlitsins leiði af sér aukna eftirspurn fjármálafyrirtækja eftir liðsinni á undirbúningsstigi, t.d. þegar ný þjónusta er boðin.
    Eins og fram hefur komið er brýnt að nota allar leiðir til að nýta þekkingu og reynslu starfsfólks sem best. Telja verður að tæpast verði með góðu móti gengið lengra í þeim efnum með óbreyttum fjölda starfsfólks. Bætt gagnaskil fjármálafyrirtækja gætu þó skapað svigrúm fyrir aukna nýtingu, en slök gagnaskil eru kostnaðarsöm fyrir eftirlitið. FME telur enn fremur að aukið gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja geti dregið úr þörf á fjölgun starfsmanna til lengri tíma ef vel er á málum haldið. Hefur FME skilgreint aukið gegnsæi sem áhersluatriði næstu missira, sbr. ársskýrslu sem gefin var út á síðasta ári.“
    Að síðustu var í greinargerðinni lagt mat á starfsmannaþörf til skamms tíma. Hliðsjón var höfð af mati til skemmri tíma við gerð rekstraráætlunar fyrir yfirstandandi ár og hefur sú áætlun í meginatriðum gengið eftir, eins og fram kemur í greinargerð um rekstraráætlun fyrir árið 2003. Enn fremur var í greinargerðinni reynt að leggja mat á starfsmannaþörf til lengri tíma. Um það sagði eftirfarandi:
    „Framangreind áætlun til loka ársins 2002 er að mati FME ófullnægjandi til lengri tíma. Ljóst er að hinar nýju eiginfjárreglur Basel-nefndar um bankaeftirlit munu einar og sér þýða nokkra fjölgun fyrir árið 2005, með áherslu á greiningu og áhættustýringu. Þetta ræðst þó af því hvort og í hve miklum mæli íslenskar lánastofnanir velja sér flóknari matskerfi.
    Þá gefur fyrirsjáanleg þróun, eins og henni er lýst hér að framan, til kynna að styrkja þurfi enn frekar markaðsvakt, auk þess sem fyrirhuguð fjölgun í eftirliti á grundvelli reglubundinna gagnaskila (off-site) er ekki fullnægjandi til lengri tíma litið.
    Með hliðsjón af framangreindum forsendum má áætla að þörf sé á nokkurri fjölgun starfsmanna á næstu árum eftir 2002.
    Rétt er að ítreka að langtímamat á starfsmannaþörf er mikilli óvissu háð. Þannig kynnu ytri aðstæður, svo sem breytt skipulag eftirlits innan Evrópska efnahagssvæðisins, að hafa veruleg áhrif á áætlanir af þessu tagi.“

2.     Mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Mikilvægt er við mat á rekstrarumfangi Fjármálaeftirlitsins að taka mið af þeim alþjóðlegu kröfum sem gerðar er til eftirlits á fjármálamarkaði.
    Í skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út í júní á síðasta ári er að finna mat sjóðsins á íslensku fjármálakerfi í tengslum við sérstaka athugun hans á fjármálastöðugleika (Financial Sector Stability Assessment), þar sem Fjármálaeftirlitið og starfsemi þess var m.a. til skoðunar. Athugunin var hluti úttektar á fjármálastöðugleika allra aðildarríkja. Helstu niðurstöður er varða stærð FME voru eftirfarandi:
          Fjölga þurfi verulega starfsfólki í Fjármálaeftirlitinu.
          Styrkja þurfi eftirlit á staðnum, einkum með lánastofnunum og vátryggingafélögum.
          Efla þurfi verulega upplýsingaöflun FME, greiningu upplýsinga og eftirlit á grundvelli þeirra.
          Styrkja þurfi heimildir FME til að kveða á um hærri eiginfjárhlutföll einstakra lánastofnana.
          Huga verði að sjálfstæði FME. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur brýnt að FME fái það hlutverk að veita og afturkalla starfsleyfi á fjármálamarkaði í stað ráðuneytisins.
          Styrkja þurfi reglusetningarhlutverk FME á fjármálamarkaði.
          Gerðar eru athugasemdir við gildandi lög og reglur. Nefna má sem dæmi reglur um afskriftir og áhættuflokkun útlána.
          Lagt er til að FME auki hlutverk sitt í eftirliti með greiðslumiðlun og að verkaskipting milli Seðlabanka og FME verði skýrð.
    Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kynnti sér íslensk efnahagsmál (Article IV Assessment) á fundum með fulltrúum stjórnvalda dagana 18.–27. mars sl. Í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir þá heimsókn kom m.a. eftirfarandi fram:
    „Stjórnvöld hafa náð verulegum árangri við að taka á veikleikum í reglum sem varða starfsemi og eftirlit á fjármálamarkaði sem bent var á í svonefndri FSSA skýrslu (e. Financial Stability Assessment Report) árið 2001. Fjármálaeftirlitið lagði sérstaka áherslu á að bankar ykju eigið fé sitt. Viðleitni stjórnvalda hefur þegar skilað betri rekstrar- og þjóðhagsvísbendingum sem notaðar eru til að meta fjármálastöðugleika og einnig bættri stjórn fjármálastofnana. Sendinefnd sjóðsins fagnar því að regluverk og eftirlit með fjármálastofnunum hefur verið eflt. Einnig fagnar sendinefndin frumkvæði sem gætt hefur í starfi Fjármálaeftirlitsins. Í framhaldi af þessu leggur nefndin til að hert verði ákvæði um lágmarksstaðla fyrir áhættuflokkun útlána, framlög í afskriftareikning og veðmat. Einnig er mælst til að oftar verði framkvæmd athugun á staðnum hjá fjármálastofnunum og fylgst verði náið með ört vaxandi lánum á skuldabréfum og á fjárfestingarbankastarfsemi. Leggja ber áherslu á samþykkt og framkvæmd laga sem eru í undirbúningi. Gera má ráð fyrir að þau geri kleift að hafa betra eftirlit með innbyrðis tengdri fjármálastarfsemi, opni fyrir eftirlit á samstæðugrundvelli með vensluðum fyrirtækjum og leggi til reglur sem miða að því að eiginfjárreglur banka taki mið af áhættu í starfsemi þeirra.“ (Þýðing á heimasíðu Seðlabanka Íslands.)
    Íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til að taka þátt í endurmati á fjármálastöðugleika, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lýst áhuga á að endurtaka fyrrgreint mat á stöðugleika íslensks fjármálakerfis.

3.     Áhrif löggjafarbreytinga á Fjármálaeftirlitið.
Frumvarpsdrög í smíðum.
    Í undirbúningi eru talsverðar breytingar á löggjöf á fjármálamarkaði. Viðskiptaráðuneytið hefur kynnt á heimasíðu sinni drög að fjórum frumvörpum sem nú er unnið að og stefnir ráðuneytið að því að leggja þau fyrir Alþingi á haustþingi. Frumvörpin eru þessi:
          Frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ein lög verði sett um stofnun og rekstur viðskiptabanka, sparisjóða, annarra lánastofnana, verðbréfafyrirtækja, greiðslukorta- og rafeyrisfyrirtækja og eignarleigufyrirtækja. Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir ýmsum breytingum á starfsheimildum Fjármálaeftirlitsins.
          Frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti. Gert er ráð fyrir að sett verði lög um starfshætti á verðbréfamarkaði sem fjármálafyrirtæki og aðrir sem koma að verðbréfamarkaði starfi eftir.
          Frumvarp til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Viðamiklar breytingar lagðar til í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Tekur einnig yfir hlutabréfasjóði.
          Frumvarp til laga um vátryggingasamninga. Viðamiklar breytingar á löggjöf í átt til aukinnar neytendaverndar.
    Þá er einnig starfandi nefnd sem endurskoðar lög um kauphallir og skipulega tilboðsmarkaði. Gera má ráð fyrir breytingum á þeirri löggjöf í tengslum við breyttar tilskipanir Evrópusambandsins.
    Ekki hefur verið lagt heildstætt mat á hvort framangreind frumvörp, verði þau að lögum, muni hafa í för með sér miklar breytingar á umfangi í starfi Fjármálaeftirlitsins, enda eru frumvörpin enn í vinnslu. Sem dæmi um breytingar sem aukið gætu umfang eftirlits má nefna að samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um verðbréfasjóði og fjárfestingar sjóði er gert ráð fyrir að hlutabréfasjóðir falli undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Þá eru lagðar ríkar skyldur á Fjármálaeftirlitið samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um vátryggingasamninga. Ýmsar breytingar sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum sem styrkja stöðu Fjármálaeftirlitsins kunna á hinn bóginn að stuðla að meiri skilvirkni í starfi stofnunarinnar.
    Rétt er að taka fram að reynsla Fjármálaeftirlitsins er að tímafrekt og vandasamt getur verið að sjá til þess að breytingum sem fylgja nýjum lögum sé hrundið í framkvæmd. Umfangsmiklar lagabreytingar eru því líklegar til að auka umfang eftirlits til skamms tíma. Áhrif til lengri tíma ráðast hins vegar af viðbrögðum fjármálamarkaðarins við nýrri löggjöf og þróun markaðarins að öðru leyti.

Tilskipanir Evrópusambandsins.
    Stór þáttur í mótun laga og reglna tengist aðlögun að EES-gerðum og er mikil vinna í gangi á vegum Evrópusambandsins að því er þetta varðar. Nefna má drög að tveimur veigamiklum tilskipunum, annars vegar drög að tilskipun um misnotkun markaðar (market abuse) og hins vegar drög að tilskipun um útboðslýsingar (prospectuses).

Nýjar eiginfjárreglur.
    Þá eru í undirbúningi nýjar alþjóðlegar eiginfjárreglur fyrir lánastofnanir, sem nú er unnið að af hálfu Basel-nefndar um bankaeftirlit. Stefnt er að því að nýjar reglur verði samþykktar árið 2003 og taki gildi 2006. Tillögurnar fela í sér róttækar breytingar. Nefna verður tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi munu reglurnar fela í sér hvata fyrir banka að nýta svokallað innra matskerfi (Internal Ratings Based Approach) til að mæla eiginfjárstöðuna. Ætli innlendar lánastofnanir að nýta sér þetta þarf að byggja upp ítarlegan gagnagrunn og sterka áhættustýringu, sem metin verður og vottuð af hinum opinbera eftirlitsaðila. Íslenskir bankar hafa lýst yfir áhuga á því að nýta sér þessa aðferð. Óljóst er þó að hvaða marki íslenskar lánastofnanirnar muni geta nýtt sér þetta.
    Í öðru lagi er í tillögunum gert ráð fyrir að fjármálaeftirlitum í öllum ríkjum verði heimilt að ákveða hærri eiginfjárhlutföll sem einstökum lánastofnunum beri að hlíta. Raunar er að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins brýnt að FME fái slíka heimild nú þegar og eru lagðar til breytingar í þá átt í drögum að frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki sem áður er getið.
    Fjármálaeftirlitið hefur fylgst náið með undirbúningi erlendra systurstofnana undir breyttar eiginfjárreglur samkvæmt framangreindu. Mörg eftirlit, m.a. á Norðurlöndunum, gera ráð fyrir verulegri fjölgun starfsmanna vegna þessa. Hins vegar er erfitt að meta langtímaáhrif þessa fyrir Fjármálaeftirlitið, þar sem ekki liggur ljóst fyrir hvort innlendar lánastofnanir muni geta nýtt sér fyrrgreinda innri matsaðferð (IRB). Engu að síður er ljóst að Fjármálaeftirlitið þarf hið fyrsta að styrkja utanumhald gagna, gagnagreiningu og eftirlit með áhættustýringu, ef það á að geta sinnt hlutverki sínu á þessu sviði á næstu árum. Lánastofnanir þurfa einnig að huga að þessu.

4.     Mat á eftirliti samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur.
    Samkvæmt lögum nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, og reglugerð nr. 812/1999, um eftirlitsreglur hins opinbera, skal fara fram mat á æskilegu fyrirkomulagi eftirlits, greining á þörf fyrir eftirlit og kostnaði sem hlýst af því og mat á þjóðhagslegu gildi eftirlits í tilteknum tilvikum. Mat þetta skal eiga sér stað þegar ráðgert er að stofna til eftirlits eða endurskoða eftirlitsreglur.
    Sérstakt þjóðhagslegt mat á eftirliti hefur ekki verið unnið í tengslum við gerð rekstraráætlunar Fjármálaeftirlitsins. Hafa ber þó í huga að árlegu frumvarpi um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar sem lagðar eru til breytingar á álagningarhlutföllum, fylgja ítarlegar upplýsingar um starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Þar má nefna upplýsingar um rekstur Fjármálaeftirlitsins, skýrsla um starfsemi stofnunarinnar síðasta ár og eftir atvikum frekari upplýsingar, svo sem greinargerð um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu sem fylgdi frumvarpinu á síðasta löggjafarþingi. Að öðru leyti hefur verið litið svo á að fremur beri að vinna slíkt mat í tengslum við breytingar á eftirlitsreglum á fjármálamarkaði, þ.e. þegar breytingar eru gerðar á lögum og reglum um starfsemi á fjármálamarkaði.
    Að mati Fjármálaeftirlitsins er mikilvægt að huga betur að því hvernig vinna beri þjóðhagslegt mat við breytingar á opinberum eftirlitsreglum á fjármálamarkaði. Meðal annars þarf að huga að því hver séu tengsl þess mats við árlegt frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    
5.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins og mat á starfsmannaþörf til næstu þriggja ára.
    Í umfjöllun hér að framan er vísað til greinargerðar um mat á starfsmannaþörf í Fjármálaeftirlitinu frá í fyrra og niðurstöður hennar raktar. Rifjað er upp mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálastöðugleika frá síðasta ári og vitnað í nýlegt mat sjóðsins á stöðunni nú, að því er Fjármálaeftirlitið varðar. Þá eru raktar fyrirhugaðar og fyrirsjáanlegar löggjafarbreytingar og vísað til mats á opinberum eftirlitsreglum, sbr. lög nr. 27/1999 og reglugerð nr. 812/1999 um það efni.
    Í forsendum rekstraráætlunar fyrir næsta ár er ekki lögð til fjölgun starfsfólks á árinu, heldur mörkuð sú stefna að reyna beri á þann starfskraft sem nú er til staðar áður en ákvarðanir verði teknar um frekari stækkun. Bent er á að erfiðleikum sé bundið að meta þörf á fjölgun starfsmanna nú, þar sem ekki sé ljóst hvaða breytingar verða á löggjöf á næstu missirum, né hvaða áhrif þær hafi á Fjármálaeftirlitið.
    Nauðsynlegt er að Fjármálaeftirlitið hafi yfir þeim fjölda fastráðinna starfsmanna að ráða að það tryggi aðgang að starfsreynslu og þekkingu á öllum sviðum fjármálamarkaðar og öllum nauðsynlegum sérfræðisviðum. Það skapar stofnuninni aðgang að yfirsýn og þá kjölfestu sem nauðsynleg er. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi í skýrslu sinni í fyrra að Fjármálaeftirlitið væri of fáliðað. Telja verður að eftir fjölgun starfsmanna á þessu ári verði að láta reyna á hvort Fjármálaeftirlitið geti með viðunandi hætti sinnt lögbundnum hlutverki sínu, en mat á því hversu marga starfsmenn þurfi til þessa ræðst af aðstæðum hverju sinni.
    Það er álit Fjármálaeftirlitsins að æskilegt sé að halda stærð stofnunarinnar innan ákveðinna marka. Smærri einingar gefa færi á sveigjanlegra skipulagi, einfaldari rekstri og meiri skilvirkni. Því er Fjármálaeftirlitið reiðubúið til leita leiða til að mæta hugsanlegri aukningu í umfangi eftirlits með öðrum ráðum en fjölgun fastráðinna starfsmanna. Rýmri heimildir til að fela utanaðkomandi óháðum aðilum tiltekin verk sem tengjast eftirliti koma vel til greina. Huga má t.d. að því hvort rýmka megi heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að óska eftir úttektum óháðra aðila á tilteknum þáttum í starfsemi fjármálafyrirtækis á kostnað þess. Fjármálaeftirlitið hefur einnig lýst sig reiðubúið til að kanna möguleika á að mæta hugsanlegum auknum kröfum um eftirlit með útboðum verðbréfa með svipuðum hætti.
    Fjármálaeftirlitið vill taka fram að ýmis óvissa í starfsumhverfi stofnunar, sem m.a. er rakin hér að framan, gerir mat á rekstri og starfsmannaþörf til þriggja ára mjög erfitt. Hér er því ekki gerð tilraun til nákvæms mats á starfsmannafjölda til þriggja ára. Ekki er ólíklegt að mæta þurfi breyttum aðstæðum með fjölgun starfsfólks, eins og bent var á í greinargerð um mat á starfsmannaþörf frá síðasta ári, sem vísað er til í kafla 1 hér að framan. Eins og áður segir er Fjármálaeftirlitið hins vegar reiðubúið að leita annarra leiða sé þess kostur.
    Í viðræðum Fjármálaeftirlitsins og samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila hefur komið fram að æskilegt væri að umræða um starfsemi og rekstur Fjármálaeftirlitsins, sem fram fer árlega í tengslum við gerð rekstraráætlunar, snúist ekki eingöngu um mismunandi kostnaðarliði, heldur ekki síður verkefni Fjármálaeftirlitsins. Þannig væri æskilegt að tengja umræðu um rekstur Fjármálaeftirlitsins betur við þau verkefni og það hlutverk sem Fjármálaeftirlitinu hefur verið falið af löggjafanum. Fjármálaeftirlitið leitast við að gefa upplýsingar sem miðað gætu að þessu. Nefna má í því sambandi upplýsingagjöf á heimasíðu, útgáfu ársskýrslu og greinargerð um mat á starfsmannaþörf. Fjármálaeftirlitið er reiðubúið að huga að frekari upplýsingagjöf í þessu efni, svo sem um skiptingu starfs eftir verkefnaflokkum. Leggja ber þó áherslu á að slík upplýsingagjöf má aldrei stuðla að því að veikja það aðhald sem í eftirlitinu felst eða skapa hættu á að veittur sé aðgangur að viðkvæmum upplýsingum.Fylgiskjal II.


Álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á rekstraráætlun
Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2003.

    Meðfylgjandi er álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. mgr. 2. gr. l. nr. 99/1999 og 4. gr. rgl. nr. 562/2001, við rekstraráætlun FME fyrir árið 2003 og skýrslu FME til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað, en endanleg rekstraráætlun og skýrsla um hana voru send nefndinni þann 11. september 2002.
    Hlutverk samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila er að veita eðlilegt kostnaraðhald vegna eftirlits með fjármálastarfi. Nefndin hefur í þeim efnum leitast við að setja fram málefnalega gagnrýni á framlagðar rekstraráætlanir og lagt áherslu á gott samstarf við FME um þessi mál. Í ljósi þess telur samráðsnefnd miður að FME hafi ekki talið ástæðu til að taka tillit til ábendinga nefndarinnar við áætlunardrög, sem kynnt voru henni 15. ágúst sl., nema að því leyti að áætlaður kostnaður vegna póstþjónustu er lækkaður um 150.000 kr. Hinar veigameiri athugasemdir virðast hins vegar ekki hafa hlotið hljómgrunn hjá FME eða stjórn þess. Í ljósi þess telur samráðsnefnd rétt að birta flestar sínar fyrri ábendingar í þessu formlega áliti. Rétt er þó að taka fram að samráðsnefnd fagnar því að FME geri ekki ráð fyrir frekari fjölgun starfsfólks í fyrirliggjandi rekstraráætlun og ummælum um að leitast verði við að halda stærð stofnunarinnar innan núverandi marka til næstu ára, eins og fram kemur í þriggja ára áætlun.

Rekstur ársins 2002.
     1.      Samráðsnefndin gerði verulegar athugasemdir við áætlun FME um stóraukið rekstrarumfang á árinu 2002, eins og fram kom í bréfi hennar til stjórnar FME sem birt var sem fylgiskjal við frumvarp til breytinga á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi á síðasta löggjafarþingi. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis tók málið föstum tökum og lagði áherslu á mikilvægi þess að sýna sambærilegt aðhald í starfsemi Fjármálaeftirlitsins, sem kostað er af markaðsaðilum, og ætlast er til af öðrum eftirlitsstofnunum sem hið opinbera heldur úti. Jafnframt taldi þingnefndin brýnt að sem nánast samstarf yrði milli FME og samráðsnefndar um þróun kostnaðar af starfseminni, m.a. í því formi að FME legði árlega fram þriggja ára áætlun um kostnað af starfseminni.
     2.      Í endurskoðaðri rekstraráætlun fyrir árið 2002 kemur fram að rekstrarkostnaður verði 1,6% yfir samþykktri áætlun. Helstu ástæður eru taldar hærri launakostnaður og stóraukinn kostnaður vegna tölvubúnaðar og endurbóta á heimasíðu FME. Tekjur hækka hins vegar meira en kostnaður, vegna hækkunar eftirlitsgjalds og vanáætlaðra vaxtatekna. Samráðsnefndin hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að njóta vaxtatekna af innlögðu eftirlitsgjaldi og því ber að fagna að betur sé hugað að þeim málum en áður.
    
Áætlaður rekstur 2003.
     3.      Í drögum að rekstraráætlun fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður hækki um 3,5% frá samþykktri rekstraráætlun ársins 2002 (tekið skal fram að samráðsnefnd telur óeðlilegt að miða hlutfallstölur við endurskoðaða áætlun, eins og FME gerir í skýrslu sinni um rekstraráætlun).
     4.      Ljóst er að launakostnaður hlýtur ávallt að vera einn stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri eftirlitsstofnana. Hins vegar er afar mikilvægt að sýna aðhald í þeim efnum og sporna við stöðugri þenslu, sem horfa hefur mátt upp á hjá FME allt fram til þessa árs. Samráðsnefndin átaldi útþenslustefnu stofnunarinnar harðlega í áliti sínu á síðasta ári og tók nefnd forsætisráðherra til ráðgjafar um eftirlit á vegum hins opinbera undir þau sjónarmið. Því telur samráðsnefnd fagnaðarefni að samkvæmt fyrirliggjandi drögum stendur ekki til að fjölga frekar störfum hjá stofnuninni á komandi árum, heldur sé stefnt að því að nýta betur þann mannskap sem fyrir er. Um starfsmannamál vísast annars í nánari umfjöllun hér aftar.
     5.      Í framlögðum gögnum kemur fram að ferðakostnaður erlendis verður nokkuð undir áætlun á þessu ári (10%) og sama gildir um þátttökugjald vegna erlends samstarfs og funda erlendis (18%). Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum þar sem fyrri liðurinn var hækkaður um 35% milli áranna 2001 og 2002 og sá síðari um 120%. Þannig stefnir í verulega raunhækkun þessara kostnaðarliða frá fyrra ári. Samráðsnefndin gagnrýndi á síðasta ári harðlega fyrirhugaða útgjaldaaukningu þessa kostnaðar í ár og benti á að eðlilegra væri að lækka hann fremur en hækka. Þau rök eiga áfram við nú þegar uppi eru áform um að hækka báða framangreinda kostnaðarliði vegna ársins 2003, þann fyrri um 10% og þann síðari um 18%. Ekki verður tekið undir það sem fram kemur í skýrslu FME til ráðherra að samanburður á milli ára í þessum efnum sé óraunhæfur.
     6.      Rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála nemur um 6,3% af heildarrekstrarkostnaði FME. Veruleg hækkun þessa kostnaðar frá samþykktri áætlun fyrir 2002 er m.a. sögð liggja í háum útgjöldum til endurbóta á heimasíðu. Þar er um eingreiðslukostnað að ræða og í ljósi þess telur samráðsnefnd eðlilegt að lækka þann kostnaðarlið sem því nemur vegna ársins 2003.
     7.      Samráðsnefnd gagnrýndi á síðasta ári há stjórnarlaun sem greidd eru til stjórnar FME, en þau hækkuðu um 20% frá samþykktri áætlun fyrir 2001 (4,8 millj. kr.) til ársins 2002 (6,1 millj. kr.). Taldi samráðsnefndin brýnt að lækka þennan kostnað verulega. Þvert á ábendingar samráðsnefndar stefnir í að heildargreiðslur til stjórnar fyrir árið 2002 hækki frá samþykktri áætlun og verði 6,2 millj. kr. Í drögum að rekstraráætlun fyrir 2003 er síðan gert ráð fyrir að hækka þessar greiðslur í 6,4 millj. kr. Samráðsnefnd fær ekki séð að rök séu til þess að greiða stjórn þessarar opinberu stofnunar hærri laun en almennt tíðkast. Jafnframt ítrekar samráðsnefnd gagnrýni sína á að varamenn séu boðaðir til allra stjórnarfunda, með tilheyrandi þóknun, eins og framkvæmdin hefur verið hjá FME. Ef stofnunin telur að núverandi stjórn sé of fáliðuð væri eðlilegra að óska þess að ráðherra tæki það mál upp við löggjafann. Að mati samráðsnefndar hlýtur að vera nægjanlegt að varamenn sitji t.d. þriðja eða fjórða hvern fund, til að tryggja meðvitund þeirra um stjórnarstörfin. Slíkt fyrirkomulag þekkist í stjórnum opinberra stofnana/fyrirtækja.
     8.      Samráðsnefndin ítrekar gagnrýni sína á að kostnaður af endur- og símenntun starfsfólks er illa skilgreindur, en honum er deilt niður á marga kostnaðarliði í rekstraráætlun sem og fyrri ársreikningum. Slíkt vinnulag gerir jafnt FME sem samráðsnefnd erfitt að átta sig á raunverulegum kostnaði af þessum sökum. Jafnframt er bent á að samráðsnefnd gagnrýndi fyrirhugaða hækkun gisti- og íþróttastyrkja til starfsfólks um 20% frá árinu 2001 til 2002. Endanlegar tölur virðast ætla að vera eitthvað lægri eða nær rúmri 10% hækkun. Þrátt fyrir það gera drög að áætlun fyrir 2003 ráð fyrir 20% hækkun þeirrar tölu, þótt þegar sé vel í lagt.

Rekstraráætlun til þriggja ára.
     9.      Í fylgiskjali með greinargerð um áætlað rekstrarumfang FME 2003 er áætlun um rekstrarumfang til næstu þriggja ára, þá sérstaklega hvað mat á starfsmannaþörf varðar. Er FME þannig að koma til móts við ábendingu efnahags- og viðskiptanefndar sem fram kom í nefndaráliti á þingskjali nr. 529 á síðasta löggjafarþingi. Í áætluninni kemur fram að æskilegt sé að halda stærð FME innan ákveðinna marka, enda gefi smærri einingar færi á sveigjanlegra skipulagi, einfaldari rekstri og meiri skilvirkni. Í ljósi þess telur FME að til framtíðar sé réttara að mæta hugsanlegri aukningu í umfangi eftirlits í framtíðinni með öðrum ráðum en fjölgun fastráðinna starfsmanna, m.a. með því að fela utanaðkomandi aðilum tiltekin verk sem tengjast eftirliti.
     10.      Þessi yfirlýsing FME er í takt við þær kröfur sem samráðsnefnd hefur sett fram í álitum sínum undanfarin ár, þ.e. að stemma beri stigu við sífelldri útþenslu stofnunarinnar. Hefur samráðsnefndin í þeim efnum bent á að rétt geti verið að leita fremur eftir að ráða tímabundið starfsfólk eða fá aðkeypta þjónustu sérfræðinga til að sinna afmörkuðum verkefnum, heldur en að bæta stöðugt við fastráðnu starfsfólki. Rétt er að hafa í huga að mikil fjölgun hefur orðið á starfsfólki stofnunarinnar á síðustu tveimur árum. FME er ung stofnun, þótt byggt sé á eldri stoðum. Búast má við að nú þegar starfsemi hinnar nýju stofnunar hefur slitið barnsskónum leiði aukin reynsla starfsfólks til meiri skilvirkni, sem ætti að óbreyttu að gefa kost á fækkun, fremur en fjölgun. Í ljósi þess telur samráðsnefnd ekki ástæðu til að ætla að eitthvað breytt umfang, með breytingum á lögum og alþjóðasáttmálum, eigi að þrýsta á um fjölgun starfsmanna.
     11.      Það skýtur aðeins skökku við að þrátt fyrir framangreind ummæli í skýrslu FME um fjölda starfsfólks segir í næstu málsgrein þar á eftir að ekki sé ólíklegt að mæta þurfi breyttum aðstæðum með fjölgun starfsfólks. Í fyrri drögum, sem samráðsnefnd hafði undir höndum, var notast við orðalagið „vera kann að mæta þurfi…“ sem er mýkra að þessu leyti. Þannig virðist FME mæla úr og í þessum efnum nánast á sömu blaðsíðunni. Samráðsnefnd treystir þó á að þau ummæli sem vísað er til í lið 9 hér að framan vegi þyngra og unnið verði á þeim forsendum til næstu ára.

Þátttaka ríkisins í kostnaði af starfsemi FME.
     12.      Eftirlitsskyldir aðilar greiða í dag allan kostnað af rekstri FME. Það fyrirkomulag á fyrirmynd í öðrum norrænum ríkjum. Hins vegar þekkist víða að hið opinbera taki þátt í kostnaði af störfum fjármálaeftirlits, ekki síst af þeim þáttum sem sérstaklega eru unnir í þágu þess ráðuneytis sem fer með forsvar þeirrar stofnunar sem hefur eftirlitið á hendi. Samráðsnefndin hefur áður bent á mikilvægi þess að hið opinbera komi á slíkum forsendum að greiðslu kostnaðar við störf FME. Bæði hefur þar verið bent á vinnu starfsmanna FME við mótun laga og reglna og þátttöku í erlendu samstarfi. Verið getur að nauðsyn knýi að starfsmenn FME séu nýttir að einhverju leyti í vinnu við frumvarpsgerð eða mótun reglugerða, en slíkt vinnuframlag á þá að gerast á kostnað verkbeiðanda, þ.e. hins opinbera. Sama gildir um erlent samstarf, en borið hefur við að viðkomandi ráðuneyti hafi falið starfsmönnum FME að sækja fundi erlendis í sína þágu. Samráðsnefndin fagnar því að á fundi hennar með FME 15. ágúst kom fram skilningur hjá fulltrúum þess síðarnefnda á að rétt gæti verið að ríkið tæki á sig þann kostnað af störfum stofnunarinnar, sem unnir væru að beiðni þess.

Skipting eftirlitsgjaldsins.
     13.      Í greinargerðinni til samráðsnefndar kemur fram það sjónarmið FME að minni aðilar greiði minna til eftirlitsins en nemur raunkostnaði FME vegna þeirra. Ekki er þó gerð tillaga um breytingu á lágmarksgjöldum. Samráðsnefndin vill ítreka fyrri ábendingar um að það hljóti að standa FME næst að meta hvort eftirlitsgjaldi sé réttilega skipt milli aðila, með hliðsjón af þeim tíma sem fer í að sinna hverjum og einum. Hvorki samráðsnefnd, né aðrir, hafa forsendur til slíks mats. Afar mikilvægt er þó að reyna að stýra hlutfallslegum kostnaði einstakra geira á fjármálasviði sem mest í samræmi við þann raunkostnað sem af þeim hlýst. Hins vegar ber að gæta þess að lágmarksgjald vegna eftirlits verði aldrei svo hátt að það komi í veg fyrir rekstur smæstu fyrirtækjanna.
    

Reykjavík 15. september 2002,

Guðjón Rúnarsson,
formaður samráðsnefndar.


Fylgiskjal III.


Skýrsla til viðskiptaráðherra um starfsemi Fjármálaeftirlitsins frá 1. júlí 2001 til 30. júní 2002, sbr. 16. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
(Október 2002.)


1. Yfirlit yfir starfsemina 1. júlí 2001 til 30. júní 2002.
    Fjármálaeftirlitið stundar margháttað eftirlit með fjármálafyrirtækjum og fjármálastarfsemi sem lög kveða á um að lúti eftirliti. Eftirlitið fer fram með ýmiss konar sértækum athugunum, m.a. á starfsstöðvum fjármálafyrirtækja, og reglulegri upplýsingasöfnun um fjárhagsleg atriði. Einnig er úrvinnsla skriflegra fyrirspurna og erinda fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna þeirra stór þáttur í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið gefur út almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi á fjármálamarkaði, stendur fyrir ýmiss konar kynningum og fundum með stjórnendum og starfsmönnum á fjármálamarkaði og leitast við að vekja umræðu um málefni er varða öryggi og samkeppnishæfni fjármálamarkaðar, t.d. með birtingu umræðuskjala á heimasíðu sinni.
    Í þessum kafla er leitast við að gefa almennar upplýsingar um starfsemi Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu, án þess að fjalla sérstaklega um einstök mál. Fjallað er um verkefni á einstökum sviðum fjármálamarkaðar, auk þess sem vikið er sérstaklega að eftirliti með virkum eignarhlutum, fyrirhuguðum lagabreytingum, erlendu samstarfi, rekstri Fjármálaeftirlitsins og fleiru. 1.1 Eftirlit á einstökum sviðum fjármálamarkaðar.
1.1.1 Lánamarkaður.

Áherslur á tímabilinu: Eftirlit með eiginfjárstöðu. Innra eftirlit og áhættustýring. Gegnsæi og markaðsaðhald. Þróun áhættumatskerfis.

    Sem fyrr hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á að fylgjast með þróun eiginfjárhlutfalla lánastofnana og kallað eftir skýrum markmiðum í rekstri þeirra um eiginfjárstöðu. Veruleg útlánaaukning síðustu ára gaf tilefni til að hafa sérstakar áhyggjur af eiginfjárstöðu lánastofnana, sem kynni í einstökum tilfellum að vera ófullnægjandi til að mæta óhjákvæmilegum áföllum í formi útlánatapa.
    Verulega dró úr útlánaaukningunni á seinni hluta ársins 2001 og fyrri hluta ársins 2002 og hefur hún nú nánast stöðvast. Lánastofnunum hefur í heild tekist að mæta auknum útlánaafskriftum án verulegrar veikingar á eiginfjárstöðunni. Reikna má með frekari vexti í afskriftaframlögum vegna útlánatapa þar sem ekki hefur að fullu reynt á skil lánveitinga síðustu ára. Upplýsingar um þróun vanskila, sem Fjármálaeftirlitið safnar og birtir ársfjórðungslega á heimasíðu sinni, gefa vísbendingu um þetta. Af þessum ástæðum hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á að kanna útlánaframkvæmd hjá lánastofnunum, innra eftirlit með útlánum, áhættustýringu og mat á afskriftaþörf vegna útlána.
    Í ýmsum tilvikum hafa útlánaathuganir leitt til aukinna framlaga í afskriftareikning lánastofnana og hefur eiginfjárhlutfall reynst undir lögbundnum mörkum hjá nokkrum smærri lánastofnunum. Hefur þá verið gripið til aðgerða til að koma eiginfjárstöðunni að nýju í lögmætt horf.
    Með útgáfu reglna og tilmæla hefur Fjármálaeftirlitið leitast við að styrkja þá umgjörð sem þarf að vera utan um heilbrigðan rekstur fjármálafyrirtækja og stuðla að gegnsæi og markaðsaðhaldi. Í ársbyrjun 2002 gaf Fjármálaeftirlitið út breytingar á viðauka með reglum um gerð ársreiknings lánastofnana sem fjallar um mat á afskriftaþörf útlána. Með breytingunni eru ákvæði reglnanna hert frá því sem áður var. Frekari endurskoðun á reglum um mat á útlánum er fyrirhuguð, með hliðsjón af breytingum á alþjóðlegum stöðlum og fyrirmyndum sem nú eru í undirbúningi. Fjármálaeftirlitið gaf einnig út leiðbeinandi tilmæli um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum en þar er sérstök áhersla lögð á ábyrgð og skyldur stjórnenda. Þá voru í ársbyrjun 2002 gefin út leiðbeinandi tilmæli um viðbótarupplýsingar varðandi fjármálaskjöl í ársreikningum lánastofnana.
    Fjármálaeftirlitið hefur tekið þátt í víðtækri endurskoðun á alþjóðlegum eiginfjárreglum fyrir lánastofnanir (Basel II), en áætlanir nú gera ráð fyrir að þessar breytingar taki gildi í árslok 2006. Af því tilefni hefur Fjármálaeftirlitið unnið að því að styrkja upplýsingakerfi við mat á áhættum lánastofnana. Með þessum nýju eiginfjárreglum verður tekið mið af áhættum í rekstri lánastofnana við mat á fullnægjandi eiginfjárstöðu auk þess sem sérstök áhersla verður lögð á að lánastofnanirnar sjálfar leggi eigið mat á nauðsynlega eiginfjárstöðu með hliðsjón af áhættum í starfseminni. Reglurnar gera einnig ráð fyrir auknum heimildum eftirlitsstofnana til að ákvarða hærri eiginfjárhlutföll fyrir einstakar lánastofnanir.
    Fjármálaeftirlitið hefur mótað fyrstu útgáfu af eigin áhættumatskerfi sem ætlað er að auðvelda mat á nauðsynlegri eiginfjárstöðu einstakra lánastofnana, út frá upplýsingum um eigið fé, gæði eigna, arðsemi, lausafjárstöðu, næmni fyrir markaðsáhættu og stjórnun. Áhættumatskerfið verður notað við forgangsröðun í eftirliti með lánastofnunum frá og með næsta ári.
    Fjármálaeftirlitið hóf á tímabilinu reglulega upplýsingasöfnun um fyrirgreiðslu til svokallaðra venslaðra aðila, þ.e. aðila sem hafa veruleg áhrif á ákvarðanatöku stjórnenda lánastofnana, vegna hættu á hagsmunaárekstrum. Þeir aðilar sem hér um ræðir eru til að mynda bankaráðsmenn, stjórnendur, lykilstarfsmenn, stærstu hluthafar og fyrirtæki í eigna- eða stjórnunartengslum við lánastofnun.

1.1.2 Verðbréfamarkaður.

Áherslur á tímabilinu: Markaðsvakt. Eftirlit með starfsháttum. Jafnræði fjárfesta. Aðgerðir vegna rekstrarerfiðleika.

    Breyttar aðstæður á verðbréfamarkaði á tímabilinu hafa komið fram með ýmsum hætti í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Eftir mikla þenslu dró verulega úr viðskiptum sem hafði áhrif á rekstrargrundvöll fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Starfsleyfi eins verðbréfafyrirtækis var afturkallað í nóvember 2001 og í kjölfar þess var fyrirtækið tekið til gjaldþrotaskipta. Fjármálaeftirlitið hefur í einu öðru tilviki þurft að grípa til aðgerða vegna slakrar eiginfjárstöðu verðbréfafyrirtækis.
    Á tímabilinu komu aðeins tvær útboðslýsingar í almennu útboði til yfirlestrar og afgreiðslu í Fjármálaeftirlitinu, en eftirlitinu var á síðasta ári fengið með lögum það verkefni að fara yfir útboðslýsingar vegna almennra útboða, sem ekki fela í sér skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði. Í öðru þessara tilvika var hætt við útboðið vegna ákvörðunar um skráningu í kauphöll.
    Eftirlit með starfsháttum á verðbréfamarkaði hefur verið styrkt verulega og hefur mótun sérstakrar markaðsvaktar bætt yfirsýn Fjármálaeftirlitsins yfir verðbréfamarkaðinn og gefið því færi á að grípa fyrr inn í mál sem upp koma.
    Margvísleg mál hafa komið upp á tímabilinu vegna starfshátta fjármálafyrirtækja á verðbréfamarkaði. Nefna má að Fjármálaeftirlitið sá í árslok 2001 ástæðu til að gera athugasemdir við fjárfestingarráðgjöf tiltekinna fjármálafyrirtækja, vegna hagsmunatengsla viðkomandi fyrirtækja við verðbréf sem fjallað var um. Fjármálaeftirlitið vakti athygli á þessum málum opinberlega. Í undirbúningi eru leiðbeinandi tilmæli um greiningardeildir/greinendur. Sambærilegar athugasemdir voru gerðar vegna ónógrar umfjöllunar í skráningarlýsingum um hagsmunatengsl umsjónaraðila við viðfangsefnið.
    Fjármálaeftirlitið tók til formlegrar athugunar átta mál þar sem vísbendingar voru um brot á ákvæðum laga um innherjaviðskipti. Athugun er lokið í helmingi málanna. Var einu þeirra vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjórans, en tveimur málum var lokið með athugasemdum sem beindust að tilteknum aðilum. Í einu máli þótti ekki ástæða til aðgerða. Vísbendingar um markaðsmisnotkun komu til skoðunar og voru fimm mál tekin til formlegrar meðferðar vegna þessa. Engu málanna er lokið. Markaðsvakt Fjármálaeftirlitsins hefur einnig skoðað fleiri mál á þessu sviði án þess að formleg athugun hafi verið tekin upp.
    Dómur féll í fyrsta málinu hérlendis þar sem ákært var vegna innherjasvika. Í málinu lá fyrir að fruminnherji hafði átt viðskipti með hlutabréf þess félags sem hann var innherji í, á meðan hann bjó yfir trúnaðarupplýsingum. Niðurstaða dómsins var sú að sýknað var í héraði þar sem ekki hafði verið sýnt fram á að innherjinn hefði nýtt sér trúnaðarupplýsingar er hann átti viðskiptin. Ríkissaksóknari tók ákvörðun um að áfrýja ekki dóminum. Í kjölfar dómsins hætti efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans við rannsókn á meintum innherjaviðskiptum í einu máli þar sem málið þótti ekki líklegt til sakfellis í ljósi hins nýgengna dóms. Í kjölfar dómsins var ákvæði verðbréfaviðskiptalaga sem bannar innherjasvik breytt, með lögum nr. 39/2002. Eftir lagabreytinguna hafa öll tvímæli verið tekin af um saknæmiskröfur í innherjamálum, þ.e. að gáleysi nægi til sakfellingar.
    Í nokkrum öðrum tilvikum greindi Fjármálaeftirlitið efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans frá málum á verðbréfamarkaði. Mál þessi varða meint brot á reglum er varða almennt útboð, brot á almennum hegningarlögum og fleira.
    Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu staðfest reglur flestra fjármálafyrirtækja um aðskilnað hagsmuna (kínamúra), eigin viðskipti fyrirtækja, viðskipti starfsmanna og atvinnuþátttöku stjórnenda og starfsmanna. Með leiðbeinandi tilmælum nr. 1/2001 hafði Fjármálaeftirlitið sett fram kröfur um meginefni slíkra reglna, en þeim er ætlað að stuðla að betri starfsháttum á verðbréfamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið hefur enn fremur unnið að staðfestingu reglna sem útgefendum verðbréfa ber að setja sér um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja. Reglur nokkurra útgefenda hafa verið staðfestar og aðrar bíða staðfestingar. Skil á þessum reglum hafa hins vegar verið dræm og yfirferð þeirra tímafrek. Fjármálaeftirlitið hefur brýnt það fyrir útgefendum verðbréfa að fylgja grundvallarreglum þeim sem fram koma í leiðbeinandi tilmælum nr. 2/2001 þó tafir hafi orðið á setningu reglna stjórnar og staðfestingu Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið hefur á tímabilinu lagt áherslu á að styrkja eftirlit með verðbréfasjóðum, m.a. með reglulegum skýrsluskilum um sundurliðun fjárfestinga verðbréfasjóða. Drög að skýrsluformi voru kynnt í umræðuskjali á miðju sumri 2002 og eftirlitsskyldum aðilum gefinn kostur á að setja fram athugasemdir. Verðbréfasjóðir skila nú tveimur skýrslum ársfjórðungslega; annars vegar ársfjórðungslegu efnahagsyfirliti og hins vegar sundurliðun um fjárfestingar. Aukið eftirlit á þessu sviði miðar jafnframt að því að gera Fjármálaeftirlitið betur í stakk búið til að takast á við breytingar á starfsumhverfi verðbréfasjóða sem vænta má með nýjum lögum um slíka sjóði og aðlögun að nýrri tilskipun Evrópusambandsins.

1.1.3 Lífeyrismarkaður.

Áherslur á tímabilinu: Mikilvægi innra eftirlits ítrekað. Aukið markaðsaðhald. Starfshættir við sölu viðbótarlífeyrissparnaðar. Gegnsæi í tryggingafræðilegu mati.

    Viðamesta verkefni eftirlits með lífeyrissjóðum á tímabilinu voru ítarlegar athuganir á fjárfestingum lífeyrissjóða, en í tengslum við þessar athuganir voru gerðar sérstakar athuganir á gögnum um innra eftirlit, ársreikningum og endurskoðunarskýrslum sjóðanna. Meginmarkmiðið með þessum athugunum er að fara yfir fjárfestingar einstakra lífeyrissjóða með hliðsjón af ákvæðum VII. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Athuganir á fjárfestingum leiddu í ljós að fjárfestingar allmargra lífeyrissjóða eru ekki innan þeirra marka sem lög setja, sérstaklega hvað varðar fjárfestingar í óskráðum verðbréfum og verðbréfum útgefnum af sama aðila. Hefur Fjármálaeftirlitið þurft að gera ítrekaðar athugasemdir við nokkra lífeyrissjóði. Þá hafa nokkrir lífeyrissjóðir verið krafðir um úrbætur í samræmi við niðurstöður athugana. Í nokkrum tilvikum hafa þessar athuganir leitt í ljós þörf á mun ítarlegri könnun á starfsemi lífeyrissjóða og sammerkt hjá þeim sjóðum hefur verið að innra eftirliti hefur ekki verið nægjanlega sinnt. Þá má almennt segja að gögnum um innra eftirlit hjá lífeyrissjóðunum sem kallað var eftir hafi í mörgum tilvikum verið ábótavant eða ekki skilað sér nægilega vel. Fjármálaeftirlitið hefur ítrekað við stjórnir nokkurra lífeyrissjóða ábyrgð þeirra á innra eftirliti.
    Fjármálaeftirlitið hefur komið á framfæri ítarlegum athugasemdum og ábendingum varðandi útfyllingu á ársfjórðungslegum skýrslum um sundurliðanir fjárfestinga, í tengslum við athuganir á fjárfestingum. Í byrjun sumars stóð Fjármálaeftirlitið fyrir sérstakri kynningu á útfyllingu skýrslnanna fyrir lífeyrissjóðina og var kynningin vel sótt. Ofangreindar aðgerðir hafa stuðlað að bættum frágangi á skýrslunum en Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að vandað sé til skýrslugerðarinnar enda gegna skýrslurnar mikilvægu hlutverki í eftirliti með fjárfestingum lífeyrissjóða. Skýrslurnar nýtast ekki síður sjóðunum sjálfum við að fylgjast með að fjárfestingar þeirra séu innan ramma laganna.
    Nokkur brögð eru að því að ársreikningar lífeyrissjóða séu ekki í samræmi við reglur sem um þá gilda. Hefur Fjármálaeftirlitið gert margvíslegar athugasemdir við lífeyrissjóði í þessu sambandi og í einu tilviki var lífeyrissjóði gert að gefa út ársreikning sinn að nýju.
    Á tímabilinu hafa komið upp alvarleg mál sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Fjármálaeftirlitið hafa tekið til athugunar og tengjast starfsemi lífeyrissjóða. Í einhverjum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir eða leiða málin fyrr í ljós með virku innra eftirliti þessara lífeyrissjóða.
    Fjármálaeftirlitið hefur í hyggju að styrkja verulega eftirlit sitt með skuldbindingum lífeyrissjóða og tryggingafræðilegum úttektum. Í undirbúningi eru aukin skýrsluskil til Fjármálaeftirlitsins í tengslum við tryggingafræðilegar úttektir á lífeyrissjóðum.
    Samfara verulegum vexti og þróun á markaði viðbótartryggingaverndar og séreignarsparnaðar undanfarin missiri hefur töluvert af fyrirspurnum, ábendingum og athugasemdum sem lúta að lífeyrissparnaði verið beint til Fjármálaeftirlitsins frá vörsluaðilum, rétthöfum og launagreiðendum. Meginverkefni Fjármálaeftirlitsins tengt viðbótarlífeyrissparnaði er þó að veita umsagnir um reglur um lífeyrissparnað og breytingar á þeim til fjármálaráðherra en vörsluaðilum lífeyrissparnaðar ber að leita staðfestingar ráðherra á reglunum og breytingum á þeim. Fjármálaeftirlitið hyggst fylgja eftir mikilvægum atriðum, sem upp hafa komið í eftirlitsverkefnum varðandi framkvæmd viðbótarlífeyrissparnaðar og túlkun laga og reglna sem um sparnaðinn gilda, með setningu leiðbeinandi tilmæla á næstu missirum.
    Samkvæmt nýlegum breytingum á lögum um lífeyrissjóði er sjóðunum nú skylt að setja sér verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna, sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið hefur átt í töluverðum samskiptum við lífeyrissjóði um setningu reglnanna á tímabilinu og eru nær allir lífeyrissjóðir nú komnir með staðfestar verklagsreglur.
    Á tímabilinu fengu 19 lífeyrissjóðir staðfestar breytingar á samþykktum sínum og gaf Fjármálaeftirlitið umsagnir um breytingarnar.

1.1.4 Vátryggingamarkaður.

Áherslur á tímabilinu: Aðgerðir vegna rekstrarerfiðleika tiltekinna vátryggingamiðlana. Markaðsaðhald og gegnsæi vegna iðgjaldaákvarðana í ökutækjatryggingum. Leiðbeinandi tilmæli vegna starfshátta. Upplýsingagjöf til viðskiptavina.

    Nokkrar breytingar hafa orðið á vátryggingamarkaði á tímabilinu. Á seinni hluta síðasta árs hættu tvö bátaábyrgðarfélög starfsemi með flutningi vátryggingastofns þeirra til Sjóvár-Almennra trygginga hf. Starfsleyfi annars þeirra var fellt niður en hitt tekur ekki við nýtryggingum. Þá var vátryggingastofn Samábyrgðarinnar hf. færður til Sjóvár-Almennra trygginga hf. og starfsemin sameinuð. Í júlí á þessu ári var nýju skaðatryggingafélagi, Íslandstryggingu hf., veitt starfsleyfi og hefur það hafið starfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur til afgreiðslu umsókn frá líftryggingafélagi um starfsleyfi.
    Einnig urðu nokkrar breytingar í hópi vátryggingamiðlara en á tímabilinu skiluðu sex aðilar inn starfsleyfum sínum, ýmist að eigin frumkvæði, í samráði við Fjármálaeftirlitið eða að kröfu þess. Rekstrarerfiðleika hefur gætt hjá nokkrum vátryggingamiðlurum og hefur Fjármálaeftirlitið þurft að grípa til aðgerða vegna þess, þó eftirlit þess sé bundið við þjónustu þeirra en ekki fjárhagslegt eftirlit.
    Iðgjöld í lögboðnum ökutækjatryggingum hafa lengi verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi og hefur Fjármálaeftirlitið haldið áfram að fylgjast með þróun vátryggingaskuldar í þessum greinaflokki. Fjármálaeftirlitið telur áfram brýnt að hvert vátryggingafélag taki forsendur iðgjaldaákvarðana sinna í ökutækjatryggingum til endurskoðunar um leið og reynsla gefur tilefni til. Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á markaðsaðhald og hefur leitast við að tryggja meira gegnsæi í því skyni. Nefnd sem skipuð var á árinu 2000 var falið það verkefni að endurskoða reglugerð um ársreikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga. Gerðar voru ýmsar breytingar sem miðuðu að þessu. Enn fremur gaf Fjármálaeftirlitið út leiðbeinandi tilmæli nr. 4/2002 um reikningsskil vátryggingafélaga, varðandi túlkun og framkvæmd á fyrrnefndri reglugerð.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2002 um innra eftirliti og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum. Kveðið er á um lágmarkskröfur sem Fjármálaeftirlitið gerir til innra eftirlits og áhættustýringar, þar á meðal um yfirsýn stjórnenda og eftirlitshætti, greiningu og mat á áhættum, aðgreiningu starfa o.fl.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli nr. 5/2002 um bónusreglur vátryggjenda í lögboðnum ökutækjatryggingum. Tilmælin eiga við um ákvörðun iðgjalds út frá einstaklingsbundinni tjónareynslu. Vátryggingartaki á að geta treyst því að bónusreglur haldist óbreyttar út vátryggingatímabilið hverju sinni með sama hætti og vátryggingaskilmálar. Vitneskja um reglurnar og breytingar á þeim er til þess fallin að auka gegnsæi í viðskiptunum og er liður í því að gera bónusreglur virkar.
    Þá hefur Fjármálaeftirlitið gefið út leiðbeinandi tilmæli nr. 3/2002 um rétt tjónþola til bótagreiðslu með fyrirvara. Markmið þeirra er að vátryggjendur hagi tjónsuppgjörum sínum í samræmi við ófrávíkjanleg ákvæði laga um vátryggingarsamninga (24. gr. þeirra) og móti verklag sem miðar að því að tjónþoli fái greinargóðar upplýsingar um réttarstöðu sína og bótagreiðslu án ástæðulauss dráttar. Nokkur misbrestur hefur verið á þessu.
    Á tímabilinu hefur Fjármálaeftirlitið tekið til athugunar upplýsingagjöf og almenn vinnubrögð við sölu vátrygginga, hjá vátryggingafélögum og vátryggingamiðlurum. Í sumum tilvikum hefur þótt ástæða til að gera athugasemdir og krefjast úrbóta. Sem dæmi má nefna að talsvert hefur verið um það að viðskiptavinir vátryggingafélaga, innlendra sem erlendra, hafi verið að færa líftryggingar sínar til annarra félaga, þ.e. sagt upp vátryggingasamningi og skipt um vátryggingafélag. Mikilvægt er að neytendur séu upplýstir um þann kostnað sem slíkt hefur í för með sér þegar um söfnunarlíftryggingu er að ræða þannig að uppsögn sé gerð að athuguðu máli. Ástæða er til þess að ætla að á þessu hafi verið misbrestur.
    Ýmsir erfiðleikar hafa komið fram í miðlun vátrygginga á tímabilinu. Nokkur mál má rekja til þess að vátryggingamiðlanir hafa í ýmsum tilvikum ráðið til sín fjölda ráðgjafa án þess að tryggja nægilega yfirsýn yfir starfsemina. Fjármálaeftirlitið hefur að fenginni reynslu mælst til þess að þeir sem hyggjast hefja miðlun vátrygginga takmarki fjölda ráðgjafa/sölumanna sinna svo fullvíst megi telja að viðkomandi hafi yfirsýn yfir starfsemina.
    Fjármálaeftirlitið hefur á grundvelli laga um vátryggingastarfsemi beint því til vátryggingafélaga að þau setji sér verklagsreglur um verðbréfaviðskipti félagsins sjálfs, starfsmanna þeirra og stjórnenda. Fjármálaeftirlitið hefur gefið út leiðbeinandi tilmæli um efni þessara reglna.

1.2 Eftirlit með virkum eignarhlutum.
    Eftirlit með eigendum virkra eignarhluta verður sífellt umfangsmeiri hluti af starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Ástæður þess eru einkum tvær. Annars vegar hafa á síðustu missirum orðið talsverðar sviptingar í eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum. Hins vegar voru lagaákvæði um eftirlit með virkum eignarhlutum hert með lögum nr. 69/2001, um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum.
    Reynt hefur á eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins í nokkrum tilvikum. Í einu tilviki taldi Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að svipta eiganda virks eignarhluta atkvæðisrétti. Í öðru tilviki féll atkvæðisréttur tímabundið niður þar sem ekki var farið að lögum við eigendaskipti. Þá hefur Fjármálaeftirlitið einnig synjað um leyfi til að eignast virkan eignarhlut.
    Brýnt er að kaupendur virks eignarhlutar hafi í huga þá lagaskyldu sem á þeim hvílir að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram fyrir kaupunum, en misbrestur hefur verið á því í framkvæmd í nokkrum tilvikum.

1.3 Fyrirhugaðar lagabreytingar á fjármálamarkaði.
    Fjármálaeftirlitið tekur í flestum tilvikum þátt í undirbúningi lagafrumvarpa er varða starfsemi á fjármálamarkaði. Þannig á Fjármálaeftirlitið fulltrúa í nefndum sem skipaðar eru til að endurskoða löggjöf og semja frumvörp til laga. Fjármálaeftirlitið er í lykilstöðu hvað varðar yfirsýn yfir það hvernig lög reynast í framkvæmd og tekur á þeim forsendum þátt í undirbúningi lagafrumvarpa.
    Á tímabilinu hefur staðið yfir endurskoðun á meginlöggjöf á flestum sviðum fjármálamarkaðar. Unnið var að heildarendurskoðun laga á lánamarkaði og hefur frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki verið lagt fram á Alþingi. Á verðbréfamarkaði er unnið að endurskoðun laga um verðbréfaviðskipti, laga um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða og laga um verðbréfasjóði. Á vátryggingamarkaði eru lög um vátryggingarsamninga, reglur um miðlun vátrygginga og reglur um slit vátryggingafélaga til endurskoðunar.

1.4 Erlent samstarf.
    Fjármálaeftirlitið tekur þátt í erlendu samstarfi á öllum sviðum fjármálamarkaðar. Með því getur Fjármálaeftirlitið miðlað á íslenskan fjármálamarkað reynslu og þekkingu sem fengist hefur í eftirliti með stærri og eftir atvikum þróaðri mörkuðum. Einnig stuðlar slíkt samstarf að samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar.
    Fjármálaeftirlitið hefur gefið út á heimasíðu sinni yfirlit yfir þátttöku þess í erlendu samstarfi. Þar er að finna upplýsingar um þau samtök og þær stofnanir sem Fjármálaeftirlitið er aðili að og nefndir og sérfræðihópa sem eftirlitið á fulltrúa í eða fylgist með. Greint er frá meginverkefnum í þessu samstarfi, hvaða starfsmenn Fjármálaeftirlitsins taka þátt í eða fylgjast með viðkomandi starfi og hvernig fundarsókn er háttað.
    Evrópusamstarf fjármálaeftirlita á einstökum sviðum fjármálamarkaðar er í gagngerri endurskoðun um þessar mundir, í tengslum við breytingar á ákvörðunarferli innan Evrópusambandsins. Fjármálaeftirlitið er aðili að nýju samstarfi verðbréfaeftirlita, CESR (The Committee of European Securities Regulators). Nefndin var sett á stofn í tengslum við fyrrgreindar breytingar og hefur það hlutverk að sinna ráðgjöf gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samræma eftirlit og framkvæmd Evrópulöggjafar á Evrópska efnahagssvæðinu. Fjármálaeftirlitið hefur tekið virkan þátt í þessu samstarfi á árinu. Fyrstu ráðgjafaverkefni CESR til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tengjast fyrirhuguðum tilskipunum um markaðssvik (Market Abuse) annars vegar og útboðslýsingum (Prospectuses) hins vegar. Þessir vinnuhópar hafa formlegt erindisbréf frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en einnig eru starfandi aðrir vinnuhópar sem m.a. fjalla um mismunandi skipulag verðbréfamarkaðar, verðmyndun og viðskiptahætti. Fjármálaeftirlitið var gestgjafi fastanefndar á vegum þessa samstarfs nú í haust.
    Samstarf evrópskra fjármálaeftirlita á lánamarkaði og vátryggingamarkaði er nú til endurskoðunar með hliðsjón af framangreindum breytingum á samstarfi verðbréfaeftirlita.
    Fjármálaeftirlitinu var á tímabilinu boðið að taka þátt í úttekt Evrópusambandsins á vátryggingamarkaði á Möltu, en úttektir af þessu tagi eru hluti af aðildarviðræðum Evrópusambandsins við einstök ríki. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins tók þátt í þessu starfi og er unnið að lokafrágangi skýrslu vegna þessa. Verkefnið var lærdómsríkt og skilar sér tvímælalaust í aukinni þekkingu starfsfólks Fjármálaeftirlitsins.

1.5 Rekstur Fjármálaeftirlitsins.
Rekstrarumfang og eftirlitsgjald.
    Samkvæmt ársreikningi Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2001 námu gjöld að meðtöldum eignakaupum alls 210,8 m.kr. Tekjur að meðtöldum fjármunatekjum á árinu 2001 námu alls 206,3 m.kr., en þar af voru tekjur af eftirlitsgjaldi 198,2 m.kr. Gjöld umfram tekjur námu því 4,5 m.kr. á árinu 2001. Á árinu 2000 voru sambærilegar tölur 179,1 m.kr. fyrir gjöld að meðtöldum eignakaupum og 192,9 m.kr. fyrir tekjur en þar af nam innheimt eftirlitsgjald 192,5 m.kr. Í framangreindum tölum eru undanskilin gjöld og tekjur vegna úrskurðarnefnda, sem vistaðar eru hjá Fjármálaeftirlitinu.
    Samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir að gjöld á árinu verði alls 263,5 m.kr. en upphafleg rekstraráætlun gerði ráð fyrir 259 m.kr. gjöldum. Áætlað er að tekjur að meðtöldum vaxtatekjum verði 219 m.kr en þar af verði tekjur af eftirlitsgjaldi 211,7 m.kr. Gjöld umfram tekjur að fjárhæð 44,5 m.kr. verða brúaðar af uppsöfnuðum tekjuafgangi fyrri ára.
    Rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2003 hefur nú verið kynnt viðskiptaráðherra í samræmi við ákvæði laga. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarumfang á árinu 2003 verði svipað og á árinu 2002, en hækkun rekstrargjalda samtals nemi um 2% frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir að gjöld verði 268,4 m.kr. og tekjur að meðtöldum fjármunatekjum verði 265 m.kr. en þar af verði álagt eftirlitsgjald á árinu 2003 um 260 m.kr.
    Samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skulu eftirlitsskyldir aðilar standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins. Um álagningu eftirlitsgjalds gilda lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum. Eftirlitsgjaldið reiknast ýmist sem hundraðshluti af heildareignum, rekstrargjöldum eða tryggingariðgjöldum eftirlitsskyldra aðila í samræmi við eðli starfsemi þeirra. Í öllum tilvikum er þó um að ræða ákveðna lágmarksfjárhæð. Frá stofnun Fjármálaeftirlitsins árið 1999 hefur orðið veruleg aukning á umsvifum margra eftirlitsskyldra aðila sem hefur leitt til lækkunar á álagningarhlutföllum. Sem dæmi má nefna að álagningarstofnar hjá helstu flokkum eftirlitsskyldra aðila, sem reiknað er út frá við álagningu eftirlitsgjaldsins, hafa hækkað á bilinu 139–216% en álagningarhlutföll lækkað um 22–48% frá 1999–2002.

Starfsmannafjöldi.
    Af fjölda starfsmanna ráðast helstu þættir í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins, svo sem laun og launatengd gjöld, stærð húsnæðis og umfang tölvubúnaðar. Á árinu 2001 vann Fjármálaeftirlitið mat á starfsmannaþörf í stofnuninni og fylgdi greinargerð þess efnis með rekstraráætlun þeirri sem þá var unnin. Í greinargerðinni var lagt ítarlegt mat á starfsmannaþörf Fjármálaeftirlitsins til skemmri tíma og hugað að þörf til lengri tíma. Nú er ljóst að áætlun um starfsmannaþörf stofnunarinnar til skemmri tíma, þ.e. til ársloka 2002, hefur í meginatriðum gengið eftir. Fjármálaeftirlitið leggur ekki til fjölgun starfsfólks á árinu 2003 í forsendum fyrir rekstraráætlun ársins.
    Í ársbyrjun 2002 var 31 stöðugildi í Fjármálaeftirlitinu og gert er ráð fyrir að þau verði 33 í árslok. Á miðju ári 2001 voru stöðugildin 27. Frá miðju ári 2001 til miðs árs 2002 hófu alls 10 starfsmenn störf hjá stofnuninni en 3 létu af störfum. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru að meiri hluta sérfræðimenntaðir, einkum á sviði viðskipta, hagfræði, lögfræði eða tölvufræða.

Innri reglur og verkferlar.
    Sífellt er unnið að því að treysta innri umgjörð um starfsemi í Fjármálaeftirlitinu. Á síðasta ári setti viðskiptaráðherra sérstakar reglur um viðskipti stjórnarmanna, forstjóra og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins við eftirlitsskylda aðila. Reglurnar eru settar skv. 6. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og er ætlað að tryggja hlutlægni við úrlausn verkefna stofnunarinnar og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra eða að hugsanleg hagsmunatengsl myndist. Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur enn fremur sett reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfaviðskipti stjórnarmanna, forstjóra og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Reglurnar eru settar skv. 37. gr. laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti. Framangreindar reglur eru birtar á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins. Einnig hefur verið hugað sérstaklega að málsmeðferð og verkefnavinnslu í Fjármálaeftirlitinu í því skyni að samræma málsmeðferð vegna mála á mismunandi sviðum fjármálamarkaðar og hraða afgreiðslu. Þá er í mótun heildstæð eftirlitshandbók vegna verkefna stofnunarinnar.

Viðbætur við húsnæði.
    Í febrúar 2002 fékk Fjármálaeftirlitið afhent viðbótarhúsnæði í nýbyggingu á 5. hæð hússins að Suðurlandsbraut 32, en bygging þess hófst á miðju árinu 2001. Með þessari viðbót stækkaði húsnæði stofnunarinnar og öll aðstaða til fundahalda og í sambandi við kynningarstarfsemi batnaði til muna. Húsnæði stofnunarinnar er leigt til ársins 2011.

Ýmsar tölulegar upplýsingar á tímabilinu 1. júlí 2001–30. júní 2002.
    Á tímabilinu 1. júlí 2001–30. júní 2002 sendi Fjármálaeftirlitið frá sér um 3.000 bréf og móttók um 1.800 bréf. Á sama tímabili skiluðu eftirlitsskyldir aðilar Fjármálaeftirlitinu um 1.500 skýrslum vegna reglubundinnar gagna- og upplýsingaöflunar stofnunarinnar. Eftirlitsskyldir aðilar sækja nú öll eyðublöð og skýrsluform vegna skýrsluskila sinna til Fjármálaeftirlitsins á heimasíðu eftirlitsins. Þessu fyrirkomulagi fylgir mikið hagræði fyrir alla aðila.
    Fjármálaeftirlitið heldur utan um verkefni sín í sérstöku málaskráningarkerfi. Stofnuð eru mál um erindi sem beint er til stofnunarinnar og einstök verkefni sem falla til vegna starfseminnar og fá þau afgreiðslu í samræmi við leiðbeiningar til starfsmanna sem áður hafa verið nefndar. Á því 12 mánaða tímabili sem hér er fjallað um urðu til um 860 slík afgreiðslumál hjá stofnuninni en samsvarandi fjöldi fyrir sambærilegt tímabil þar á undan var 760.
    Fjármálaeftirlitinu berast stöðugt margs konar formlegar fyrirspurnir er varða starfsemi á fjármálamarkaði hér á landi. Erlendis frá berst þannig ávallt nokkuð af fyrirspurnum í tengslum við alþjóðlegt samstarf um eftirlit á fjármálamörkuðum og einnig frá ýmsum aðilum sem stunda upplýsingamiðlun á fjármálamörkuðum og aðilum í fjármálastarfsemi. Innlendar fyrirspurnir koma hins vegar fyrst og fremst frá eftirlitsskyldum aðilum, viðskiptavinum þeirra eða ýmsum opinberum aðilum. Á því tímabili sem hér um ræðir bárust Fjármálaeftirlitinu alls 152 formlegar fyrirspurnir og þar af voru 62 frá erlendum aðilum.
    Kvörtunar- og neytendamál eru annar flokkur erinda sem Fjármálaeftirlitinu berst stöðugt eitthvað af. Um er að ræða erindi vegna viðskipta við fjármálafyrirtæki sem Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til að taka til athugunar. Alls bárust eftirlitinu 55 slík mál á nefndu tímabili.
    Úr málaskráningarkerfi Fjármálaeftirlitsins má fá margvíslegar upplýsingar til viðbótar við framangreint um viðfangsefni stofnunarinnar. Þannig má nefna, að á því tímabili sem hér er til umfjöllunar voru skráð mál vegna eftirlits á starfsstöðvum eftirlitsskyldra aðila alls 45, mál sem varða starfsleyfisumsóknir 29, mál sem varða innherjaviðskipti 15 og mál sem varða peningaþvætti 6.

Dagsektir.
    Í júlí 2001 var sett reglugerð, nr. 560/2001, um beitingu dagsekta og févítis í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Reglugerðin heimilar stjórn Fjármálaeftirlitsins m.a. að leggja á dagsektir með sérstökum ákvörðunum vegna vanhalda við reglubundin skýrsluskil til eftirlitsins. Ákvæðum reglugerðarinnar var í fyrsta sinn beitt í þremur tilvikum á fyrri hluta ársins 2002 vegna skýrslna sem eftirlitsskyldum aðilum bar að skila vegna ársloka 2001.

2. Fjármálamarkaðurinn – þróun og horfur.
2.1 Lánamarkaður.
Óbreytt heildarafkoma.
    Þótt rekstrarumhverfi lánastofnana hafi að mörgu leyti breyst undanfarin missiri hefur arðsemi þeirra í heild haldist að miklu leyti óbreytt. Samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða fyrir skatta árið 2001 nam 7,4 ma.kr. samanborið við 7,5 ma.kr. hagnað árið 2000. 1 Arðsemi eigin fjár hækkaði úr tæplega 11% í 13,5% milli áranna 2000 og 2001, sbr. mynd 1. Þótt hreinar rekstrartekjur hafi aukist talsvert á þessu tímabili skilaði sú aukning sér ekki í auknum hagnaði. Að hluta til má rekja það til aukinna framlaga í afskriftareikning en framlögin jukust um 3,8 ma.kr., þ.e. úr 4,3 ma.kr. árið 2000 í 8,1 ma.kr. árið 2001.
    Á fyrri árshelmingi 2002 nam samanlagður hagnaður viðskiptabanka og sparisjóða fyrir skatta 5,5 ma.kr. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 13,2% á fyrri hluta 2002. Helstu breytingar frá árinu 2001 felast annars vegar í lækkun á vaxtamun, m.a. vegna lægri verðbólgu, og hins vegar hækkun á öðrum tekjum sem stafar fyrst og fremst af jákvæðum viðsnúningi í gengishagnaði lánastofnana. Lítil hlutfallsleg breyting hefur orðið á öðrum tekjum lánastofnana en gengishagnaði á fyrri hluta árs 2002 samanborið við heilsársrekstrartölur 2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Framangreindar tölur um arðsemi eigin fjár og kostnaðarhlutföll eru mismunandi milli einstakra lánastofnana. Þannig var arðsemi eigin fjár fjögurra stærstu bankanna frá 13% til 21% á fyrri hluta ársins 2002 og á bilinu -8,7% til 10,8% hjá Sparisjóðabanka og stærstu sparisjóðum.

Kostnaðarhlutföll fara lækkandi.
    Kostnaðarhlutfall, þ.e. rekstrargjöld í hlutfalli af hreinum rekstrartekjum, var lægra á fyrri hluta ársins 2002, eða 62,8%, en á árinu 2001 þegar það var 66,7%, sbr. mynd 1. Á árunum 1995–1998 var hlutfallið 66–68% en lækkaði niður í 62% árið 1999 m.a. vegna óvenju mikils gengishagnaðar það ár. Samkvæmt framansögðu hefur lækkun á þessu hlutfalli verið fremur hæg síðustu 5–6 árin. Þess má geta að miðgildi sambærilegra kostnaðarhlutfalla valinna erlendra banka er 54% fyrir árið 2001. 2 Kostnaðarhlutfall fjögurra stærstu bankanna á fyrri hluta ársins 2002 var á bilinu 54%–71% og á bilinu 47%–99% hjá Sparisjóðabanka og stærstu sparisjóðum.
    Helstu rekstrarliðir í hlutfalli af heildareignum hjá bönkum og sparisjóðum eru sýndir á mynd 2. Ef litið er aftur til ársins 1998 hafa rekstrargjöld sem hlutfall af heildareignum stöðugt farið lækkandi, eða úr 3,7% árið 1998 í 3,0% á fyrri hluta ársins 2002. Þá lækkuðu hreinar vaxtatekjur úr 3,1% árið 1998 í 2,6% á fyrra hluta árs 2002. Aðrar rekstrartekjur í hlutfalli af heildareignum náðu hámarki árið 1999 eða 2,6%, lækkuðu svo næstu árin en hækkuðu svo og námu 2,1% á fyrri hluta ársins 2002. Afskriftaframlög voru 0,66% árið 1998, 0,60% árið 1999, 0,54% árið 2000, hækkuðu upp í 0,80% árið 2001 og námu 0,77% á fyrri hluta ársins 2002.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Aukin útlánahætta.
    Eins og sést á mynd 3 námu heildarvanskil 3 einstaklinga og fyrirtækja við innlánsstofnanir í lok júní sl. 25,6 ma.kr. eða 3,5% af útlánum. Í árslok 2000 námu heildarvanskil 13,3 ma.kr. eða 2,1% af útlánum.
    Hlutfallslega hafa vanskil einstaklinga verið hærri en vanskil fyrirtækja. Þannig námu vanskil einstaklinga í lok júní sl. 10,5 ma.kr. eða 5,8% af útlánum til einstaklinga en vanskil fyrirtækja námu 15,1 ma.kr. eða 2,7% af útlánum til fyrirtækja. Í lok árs 2000 námu vanskil einstaklinga 5,8 ma.kr. eða 3,3% af útlánum til einstaklinga. Á sama tíma voru vanskil fyrirtækja 7,5 ma.kr. eða 1,7% af útlánum til fyrirtækja. Vanskil heimila eru sérstakt áhyggjuefni vegna hárrar skuldastöðu heimilanna í hlutfalli af ráðstöfunartekjum.


         

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 3.
    Síðustu missiri hafa óvaxtaberandi útlán 4 í hlutfalli af útlánum hjá bönkum og sparisjóðum aukist, sbr. mynd 4. Þannig nam hlutfall óvaxtaberandi útlána af útlánum banka og sparisjóða 2,8% í lok júní sl., 1,9% í lok 2001 og 1,6% í lok 2000. Fullnustueignir hafa ekki aukist í samræmi við aukningu óvaxtaberandi útlána. Aukning óvaxtaberandi útlána sýnir að útlánaáhætta lánastofnana hefur aukist sem líklegt er að leiði til aukinna útlánaafskrifta.


Mynd 4.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Samanlagt framlag í afskriftareikning hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum nam 4,2 ma.kr. fyrstu sex mánuði ársins 2002 samanborið við 3,2 ma.kr. afskriftaframlag á fyrri hluta árs 2001. Aukning milli tímabila er um 1 ma.kr. eða 31%. Aukið afskriftaframlag helst í hendur við aukin vanskil og aukningu óvaxtaberandi lána.
    Aukin vanskil, aukning óvaxtaberandi útlána og auknar afskriftir gefa til kynna að gæði útlána lánastofnana hafi rýrnað sem auka líkur á vaxandi útlánatöpum næstu missirin.
    Athyglisvert er að skoða mynd 5 sem sýnir tólf mánaða raunaukningu meðalútlána (meðalútlán leiðrétt fyrir áhrifum verðlagsbreytinga) og afskriftir í hlutfalli af meðalútlánum. Ef litið er á þróunina síðastliðin fimm ár sést að árin 1997–2001 var tólf mánaða raunaukning meðalútlána á bilinu 10–20%. Undanfarna mánuði hafa útlán lánastofnana dregist saman og er áætlað að tólf mánaða raunsamdráttur meðalútlána verði um 4% á árinu 2002. Árið 1992 náðu afskriftir í hlutfalli af meðalútlánum hámarki í 4,2%. Árin 1992–2000 lækkuðu afskriftirnar og náðu lágmarki í 0,85% af meðalútlánum. Síðustu missiri hefur hlutfallið hækkað á nýjan leik og eru afskriftir í hlutfalli af meðalútlánum áætlaðar um 1,7% á árinu 2002. Ætla má að framvinda efnahagsmála ráði miklu um afskriftaþörf næstu missirin.

    Mynd 5.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Útlánavöxturinn fram til 2001 var að miklu leyti fjármagnaður með erlendum lántökum en í minna mæli með innlánum eða innlendri verðbréfaútgáfu. Á mynd 6 er sýnd þróun í nettó skuldum helstu lánastofnana við erlenda aðila á síðustu missirum. Þar kemur fram að hrein erlend staða bankanna var í hámarki á miðju ári 2001 en hefur farið lækkandi fram til miðs árs 2002 m.a. vegna hækkunar á gengi krónunnar. Mótvægi við þessi erlendu lán eru í meginatriðum gengisbundin lán til innlendra lánþega sem í mismunandi miklum mæli hafa tekjur í samsvarandi gjaldmiðlum en í því felst óbein útlánaáhætta fyrir bankana.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Stöðuaukning í markaðsverðbréfum.
    Hluti eigna lánastofnana er bundinn í markaðsverðbréfum sem háð eru sveiflum á gengi á markaði. Eins og mynd 7 sýnir var nettó skuldabréfaeign 5 viðskiptabanka og sparisjóða 73 ma.kr. í lok júní sl. samanborið við 62,1 ma.kr. nettó skuldabréfaeign í lok júní 2001. Nettó skuldabréfaeign viðskiptabanka og sparisjóða jókst því um 10,9 ma.kr. eða 17,6%. Nettó hlutabréfaeign 6 í lok júní sl. nam 53,8 ma.kr. samanborið við 44,4 ma.kr. eign í lok júní 2001 sem er aukning um 9,4 ma.kr. eða 21,2%. Á tímabilinu jukust heildareignir viðskiptabanka og sparisjóða um 6% og lögbundið eigið fé um 8,8%.
    Skulda- og hlutabréfaeign í hlutfalli af lögbundnu eigin fé jókst milli tímabila. Þannig nam skuldabréfaeign nettó í hlutfalli af lögbundnu eigin fé 81% í lok júní sl. samanborið við 75% í lok júní 2001. Hlutabréf í hlutfalli af lögbundnu eigin fé námu 60% í lok júní sl. samanborið við 54% í lok júní 2001. Framangreindar tölur sýna að aukning hefur orðið á markaðsáhættu lánastofnana.


    Mynd 7.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Viðhalda þarf núverandi eiginfjárstöðu.
    Eigið fé samkvæmt lögum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum 7 nam 102,1 ma.kr. í lok júní sl., 94 ma.kr. um sl. áramót og 84,6 ma.kr. í lok júní 2001. Hækkunin frá júní 2001 til júní 2002 nam 17,5 ma.kr. eða 21%.
    Í lok júní sl. höfðu viðskiptabankar og sparisjóðir gefið út víkjandi skuldabréf, sem teljast til eiginfjárþáttar B og C við útreikning á eiginfjárhlutfalli, fyrir samtals 25,2 ma.kr. Fjárhæð víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar B og C nam 27,1 ma.kr. um sl. áramót og 28,1 ma.kr. í lok júní 2001.
    Í lok árs 2000 heimilaði Fjármálaeftirlitið lánastofnunum útgáfu víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar A við útreikning á eiginfjárhlutfalli, en þetta var gert á grundvelli nýrrar reglugerðar viðskiptaráðuneytisins. Í lok júní sl. nam fjárhæð víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar A 6,1 ma.kr., 6,3 ma.kr. um sl. áramót og 5,5 ma.kr. í lok júní 2001.
    Samkvæmt þeim reglum sem gilda um víkjandi lántökur eru ýmsar takmarkanir á því að hve miklu leyti þær mega reiknast með í eiginfjárútreikningi í hlutfalli við hefðbundið eigið fé. Í lok júní 2002 höfðu margar lánastofnanir nær fullnýtt heimildir sínar til töku víkjandi lána sem teljast til eiginfjárþáttar A. Svigrúm til töku víkjandi lána B og C var meira.
    Samanlagður áhættugrunnur viðskiptabanka og sparisjóða nam 825,7 ma.kr. í lok júní sl., 826,5 ma.kr. um sl. áramót og 766,1 ma.kr. í lok júní 2001. Hækkunin frá júní 2001 til júní 2002 nam 59,6 ma.kr. eða 7,8% en á fyrri hluta ársins 2002 varð lítils háttar samdráttur.
    Eins og mynd 8 ber með sér voru eiginfjárhlutföll viðskiptabankanna milli 9 og 10% árin 1995–2000 en eiginfjárhlutföll án víkjandi lána B og C lækkuðu jafnt og þétt. Árið 2001 hækkuðu eiginfjárhlutföll viðskiptabankanna en á fyrri hluta 2002 hafa eiginfjárhlutföllin lækkað um 0,5% frá áramótum og námu 10,8% og 7,6% án víkjandi lána B og C. Frá árinu 1995 lækkuðu eiginfjárhlutföll sparisjóðanna úr rúmlega 14% í 10,5% og 7,1% án víkjandi lána B og C miðað við lok júní 2000. Frá miðju ári 2000 til miðs árs 2001 hækkuðu hlutföllin í 13% og 9,7% án víkjandi lána B og C. Undanfarin tvö missiri hafa eiginfjárhlutföll sparisjóðanna lækkað á ný og námu í lok júní sl. 11,9% og 9,1% án víkjandi lána B og C.
    Síðustu ár hefur Fjármálaeftirlitið varað við hugsanlegum afleiðingum lágra eiginfjárhlutfalla. Ljóst er að eiginfjárhlutföll viðskiptabanka og sparisjóða hafa hækkað frá lágmarki fyrri ára. Að mati Fjármálaeftirlitsins þurfa viðskiptabankar og sparisjóðir að lágmarki að viðhalda núverandi eiginfjárstöðu með hliðsjón af því að líkur eru á vaxandi útlánatöpum á næstu missirum.

Mynd 8.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2.2 Verðbréfamarkaður.
Velta á verðbréfamarkaði eykst.
    Heildarvelta hluta- og skuldabréfa í Kauphöll Íslands hefur farið vaxandi allt frá öðrum ársfjórðungi 2000, en þá var heildarveltan 91 m.a.kr. Fór heildarveltan hægt vaxandi frá þeim tíma og tók síðan stökk á fjórða ársfjórðungi 2001 og var þá 228 ma.kr. og hélt áfram að vaxa fram á árið 2002. Viðskipti með skuldabréf eiga stóran þátt í þessum vexti, en þar hefur verið stöðug veltuaukning allt frá öðrum ársfjórðungi 2000, sbr. mynd 9, að undanteknum fjórða ársfjórðungi 2000 og fyrsta ársfjórðungi 2002, en þar varð örlítill samdráttur. Viðskipti með hlutabréf hafa hins vegar farið vaxandi frá þriðja ársfjórðungi 2001.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hækkun einstakra viðskipta.
    Almenn niðursveifla hefur verið á verðbréfamörkuðum um allan heim og hafa atburðir frá 11. september 2001 svo og bókhaldshneyksli dýpkað niðursveifluna. Niðursveifla varð einnig á íslenskum verðbréfamarkaði. Sveiflan virðist þó hvorki hafa orðið jafndjúp né verið jafnlangvinn og á stærstu mörkuðum erlendis, en segja má að uppsveifla hafi verið hér stöðug síðan á þriðja ársfjórðungi 2001. Mikil viðskipti hafa átt sér stað á skuldabréfamarkaði allt frá áramótum 2001, en aðeins hefur dregið úr viðskiptum nú á árinu 2002, sbr. mynd 9. Það er athyglisvert að meðalfjárhæð hverra viðskipta með skuldabréf hefur farið hækkandi með hverjum ársfjórðungi. Almenna reglan er sú að þegar vöxtur er á hlutabréfamarki er samdráttur á skuldabréfamarkaði og öfugt. Þessi fylgni virðist ekki eiga sér stað hér.
    Þegar litið er á mynd 10 sést að heildarvelta utanþingsviðskipta með skuldabréf hefur aukist á þessu tímabili á meðan heildavelta þingviðskipta hefur hins vegar dregist saman á árinu 2002. Sé litið á fjölda utanþingsviðskipta miðað við veltu sést að hver einstök viðskipti verða stærri.
    Viðskipti með hlutabréf urðu einnig fjörlegri á sama tímabili, þ.e. frá og með fjórða ársfjórðungi 2001 eftir nokkuð stöðuga niðursveiflu, sbr. mynd 11. Velta utanþingsviðskipta með hlutabréf hefur hækkað hlutfallslega meira á þessu tímabili en velta þingviðskipta og hver einstök utanþingsviðskipti því hærri að sama skapi. Ein ástæða þessarar hækkunar er sú að töluvert hefur verið um kaup á fyrirtækjum og yfirtökur á síðustu missirum. Greiðslumáti slíkra viðskipta hefur gjarnan verið á þann hátt að greitt hefur verið með hlutabréfum í yfirtökufyrirtækinu og fara þau viðskipti fram utanþings.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hlutabréfavísitölur á uppleið.
    Hlutabréfavísitölur á Íslandi hækkuðu nokkuð stöðugt lengi vel og náðu hámarki sínu á fyrsta ársfjórðungi ársins 2000, sbr. mynd 12. Heildarvísitala aðallista náði þá tæpum 1.800 stigum en ICEX-15 tæpum 1.900 stigum. Eftir það fóru vísitölurnar lækkandi og voru í lágmarki á þriðja ársfjórðungi 2001 en þá var heildarvísitala aðallista um 1.000 stig en ICEX-15 fór undir 1.000 stiga múrinn. Frá þeim tíma hafa þessar vísitölur farið hækkandi og eru yfir 1.300 stig miðað við 3. ársfjórðung 2002. Heildarvísitala aðallista hefur þó hækkað meira en ICEX-15 fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs, eða um 15,9% á móti 12,3%. Þessi uppsveifla íslenskra hlutabréfavísitalna er athyglisverð sé litið til stærstu verðbréfamarkaða erlendis, en þar er ekki að sjá sambærilega uppsveiflu þar sem hlutabréfavísitölur hafa farið lækkandi það sem af er ári.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Skráðum fyrirtækjum í kauphöll fækkar.
    Allt frá árinu 1992 til ársins 1999 fór skráðum félögum fjölgandi í kauphöllinni, eða úr 11 félögum í 75, sbr. mynd 13. Talan var óbreytt árið 2000 en lækkaði síðan og var 71 félag skráð í kauphöll árið 2001. Í lok september 2002 hafði skráðum fyrirtækjum fækkað í 66. Aðeins eitt nýtt félag (Vátryggingafélag Íslands hf.) hefur verið skráð á árinu, en 6 verið afskráð (Húsasmiðjan hf., Keflavíkurverktakar hf., Loðnuvinnslan hf., Skagstrendingur hf., Talenta Hátækni hf., Útgerðarfélag Akureyringa hf.) miðað við lok þriðja ársfjórðungs 2002. Tvö fyrirtæki til viðbótar hafa verið afskráð nú í byrjun október (Delta hf., Þróunarfélag Íslands hf.). Samþjöppun hefur verið mikil í lyfjaiðnaði og sjávarútvegi og er útlit fyrir enn frekari hagræðingu í sjávarútvegi. Hlutabréfasjóðir hafa einnig tilkynnt um breytingar, en þegar hefur verið sagt frá viðræðum tveggja hlutabréfasjóða um samruna við önnur félög. Aðeins eitt fyrirtæki hefur tilkynnt opinberlega um að það komi til með að sækja um skráningu í kauphöll fyrir áramót. Útlit er því fyrir enn meiri fækkun skráðra félaga það sem eftir lifir árs, en þegar er vitað um nokkur félög sem koma til með að verða afskráð á fjórða ársfjórðungi. Ástæður áðurnefndra afskráninga eru tvíþættar, annars vegar hafa félög verið afskráð vegna samruna við önnur fyrirtæki sem einnig eru skráð í kauphöll og hins vegar vegna þess að þau uppfylltu ekki lengur skilyrði um dreifða eignaraðild. Þegar litið er á þau félög sem hafa þegar verið afskráð er það sameiginlegt með þeim að velta með bréf þeirra hefur verið lítil. Þessi þróun er því jákvæð fyrir verðbréfamarkaðinn, en þau fyrirtæki sem eftir eru styrkjast og seljanleiki hlutabréfa þeirra eykst sem aftur dregur úr áhættu fjárfesta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
2.3 Lífeyrismarkaður.

Neikvæð raunávöxtun á árinu 2001.
    Hrein eign lífeyrissjóða til greiðslu lífeyris í árslok 2001 nam 644,8 ma.kr. Raunaukning hreinnar eignar á árinu 2001 var um 5% sem er sama aukning og árið áður. Iðgjaldagreiðslur fóru úr 49,7 á árinu 2000 í 62,7 ma.kr. á árinu 2001 og lífeyrisgreiðslur úr 18,9 ma.kr. í 22,2 ma.kr., þ.e. nettó aukning inngreiðslna var 9,7 ma.kr. Hrein raunávöxtun lífeyrissjóða á árinu 2001 var neikvæð um 1,9%. Á mynd 14 má sjá hreina raunávöxtun á árunum 1991–2001 og sker hrein raunávöxtun áranna 2000 og 2001 sig úr. Síðustu 10 árin hefur meðaltal hreinnar raunávöxtunar verið 5,9%. Breytt eignasamsetning lífeyrissjóða, þ.e. aukning hlutabréfa og hlutdeildarskírteina verðbréfasjóða, mun leiða til meiri sveiflna í ávöxtun í framtíðinni.
    Mynd 14.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Í samanburði við aðrar hagstærðir voru eignir lífeyrissjóðanna rúmlega 86% af vergri landsframleiðslu (VLF) í lok árs 2001 og höfðu vaxið úr 39% árið 1990. Eignir lífeyrissjóða sem hlutfall af skuldum lánakerfisins jukust úr 26% á árinu 1991 í 34% á árinu 2001, sbr. mynd 15.

    Mynd 15.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.
    Í lögum um lífeyrissjóði eru ákvæði um fjárfestingar lífeyrissjóða, sem miða að dreifingu eigna á ýmsa flokka verðbréfa auk þess sem kveðið er á um að tillit skuli tekið til áhættu jafnt og ávöxtunar í fjárfestingarákvörðunum. Frá árslokum 2000 hafa fjárfestingar lífeyrissjóða og flokkun þeirra verið til sérstakrar athugunar. Fjárfestingar flestra lífeyrissjóða eru í samræmi við ákvæði lífeyrissjóðalaganna. Helstu athugasemdir Fjármálaeftirlitsins í þeim athugunum sem gerðar hafa verið varða fjárfestingar umfram heimildir í óskráðum verðbréfum eftir gildistöku lífeyrissjóðalaganna.

Litlar breytingar á eignasamsetningu.
    Í árslok 2001 var hlutfall óskráðra verðbréfa 9% af hreinni eign lífeyrissjóða en í árslok 2000 var hlutfallið 10%, sjá mynd 16. Þrátt fyrir að heildarhlutfall óskráðra verðbréfa sé undir hámarksheimildum voru 23 lífeyrissjóðir af 54 með yfir 10% í óskráðum verðbréfum í árslok 2001. Þann 30. júní sl. hafði þeim fækkað í 21.

    Mynd 16.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna í heild í árslok 2001, bein eign og eign í gegnum verðbréfasjóði, var 192 ma.kr. eða 30% af hreinni eign til greiðslu lífeyris en í árslok 2000 var hún 181 ma.kr. eða 32% af eignum, sjá mynd 17. Í árslok 2001 var hlutfall hlutabréfa af hreinni eign lífeyrissjóða/deilda á bilinu 0%–49% en hæsta leyfilega hlutfall er 50%. Þann 30. júní sl. var hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna í heild komin í 27,7% af eignum. Á mynd 17 má sjá að nánast enginn munur var þann 30. júní sl. á hlutfalli hlutabréfa í safni sjóða með ábyrgð og sjóða án ábyrgðar en munurinn var mikill á árunum 1999 og 2000.

    Mynd 17.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gengisbundnar eignir lífeyrissjóða fóru úr 23% í árslok 2000 í 22% í árslok 2001. Samkvæmt heimildum í lífeyrissjóðalögunum er leyfilegt að vera með allt að 50% af eignum í erlendum gjaldmiðlum. Enginn sjóður var nálægt því hámarki en sjö sjóðir/deildir voru með yfir 30% eigna sinna í erlendum myntum og var hæsta hlutfallið 39%. Þann 30. júní sl. var hlutfall gengisbundinna eigna lífeyrissjóða komið í 18%, sbr. mynd 18, og er munur á hlutfalli gengisbundinna eigna hjá sjóðum með ábyrgð og sjóðum án ábyrgðar nánast enginn sem er mikil breyting frá árinu 1999.

    Mynd 18.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fjárhagsstaða lífeyrissjóða.
    Samkvæmt lífeyrissjóðalögunum telst sjóður vera í jafnvægi sé mismunur á hreinni eign til greiðslu lífeyris ásamt núvirtum framtíðariðgjöldum og heildarlífeyrisskuldbindinga ekki meiri en 10% eða 5% fimm ár í röð.
    Í árslok 2001 voru 27 samtryggingadeildir af 45 án ábyrgðar reknar með halla, þar af voru tvær reknar með meira en 10% halla og 9 deildir voru með halla á bilinu 5–10%. Átján deildir voru reknar með afgangi þar af einn með meira en 10%. Leiði árleg úttekt tryggingastærðfræðings í ljós að lífeyrissjóður sé ekki í jafnvægi ber að breyta samþykktum hans þannig að jafnvægi náist. Í árslok 2002 eru fimm ár liðin frá því að lög um lífeyrissjóði tóku gildi og þá fyrst mun reyna á ákvæði laganna um að sjóðir sem reknir eru með mismun á bilinu 5%–10% samfellt í fimm ár þurfi að gera breytingar á samþykktum sínum.
    Samtryggingadeildir þeirra lífeyrissjóða sem hafa bakábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða banka á skuldbindingum eru undanskildar ákvæðum laga um fulla sjóðsöfnun. Þessir sjóðir taka ekki við nýjum sjóðfélögum utan tveggja sem hafa nýtt sér heimild í lögum til að stofna nýjar deildir sem byggjast á fullri sjóðsöfnun. Fjárhagsstaða lífeyrissjóða með bakábyrgð er í flestum tilfellum slæm, en lokun þeirra hefur í för með sér að hraðar gengur á eignir þó dregið sé úr aukningu heildarskuldbindinga til lengri tíma litið. Um er að ræða samtals 17 samtryggingadeildir og eru 15 þeirra reknar með halla á bilinu 4%–96%, hinar tvær eru reknar í jafnvægi.
    Lífeyrisbyrði lífeyrissjóða er mælikvarði sem nota má til að álykta um stöðu og framtíðarhorfur lífeyrissjóða en lífeyrisbyrði er lífeyrisgreiðslur sem hlutfall af iðgjöldum. Lífeyrisbyrði hækkar almennt eftir því sem sjóðirnir eldast og há lífeyrisbyrði gefur til kynna að hraðar gengur á eignir sjóðsins. Þannig er lífeyrisbyrði lífeyrissjóða án bakábyrgðar á bilinu 0%–180%. Hins vegar er lífeyrisbyrði lífeyrissjóða með bakábyrgð á bilinu 0,3%–170%. Lífeyrisbyrði lífeyrissjóða í heild er um 35%.

Aukin fjölbreytni í lífeyriskerfum.
    Þann 1. júlí 2002 voru starfandi lífeyrissjóðir alls 52 en þar af taka 11 þeirra ekki lengur við iðgjöldum og eru fullstarfandi sjóðir því 41. Af 52 (41) lífeyrissjóðum teljast 38 (28) vera lífeyrissjóðir án ábyrgðar annarra, 14 (13) lífeyrissjóðir með ábyrgð annarra.
    Töluvert margir lífeyrissjóðir starfa í fleiri en einni samtryggingadeild vegna mismunandi réttindakerfa og 21 lífeyrissjóður er með séreignardeild. Samtryggingadeildir og séreignarleiðir eru samtals 103.

    Mynd 19.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Skipting heildareigna lífeyrissjóða í lok árs 2001 eftir lífeyriskerfum er eftirfarandi, stigakerfi 443,6 ma.kr. (68,8%), hlutfallskerfi 127,7 ma.kr. (19,8%), aldurstengt kerfi 30,6 ma.kr. (4,7%) og séreignarsparnaður 42,8 ma.kr. (6,6%). Skipting heildareigna lífeyrissjóða milli kerfa er lítið breytt frá árslokum 1999, sjá mynd 19, helsta breytingin sem átt hefur sér stað er hækkun eigna í aldursháðu kerfi og hlutfallskerfi um tæp 5% á kostnað eigna í hefðbundnu stigakerfi. Hækkun eigna í hlutfallskerfi má nánast alfarið rekja til innborgana í B-deild LSR. Séreign er enn mjög lítill hluti af heildareignum sjóðanna.

Viðbótartryggingavernd og séreignarlífeyrissparnaður.
    Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar eru nú 50 talsins, þ.e. 22 lífeyrissjóðir, 4 bankar, 20 sparisjóðir, 3 líftryggingafélög og 1 verðbréfafyrirtæki.
    Lífeyrissparnaður hefur aukist stöðugt undanfarin ár samkvæmt upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hefur safnað saman frá vörsluaðilum lífeyrissparnaðar. Eignir séreignardeilda lífeyrissjóða, að undanskildum þeim 7 sjóðum sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fram að gildistöku laga nr. 129/1997 þann 1. júlí 1998, voru 1,0 ma.kr. í árslok 1999, 1,9 ma.kr. í árslok 2000 og 3,4 ma.kr. í árslok 2001. Lífeyrissparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða var 0,6 ma.kr. í árslok 1999, 2,0 ma.kr. í árslok 2000 og 5,5 ma.kr. í árslok 2001. Þannig var lífeyrissparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 8,9 ma.kr. í árslok 2001. Á mynd 20 er sýnd nánari sundurliðun á lífeyrissparnaði eftir vörsluaðilum og þróunin síðustu þrjú árin.
    Heildarséreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila var 30,6 ma.kr. í árslok 1999, 37 ma.kr. í árslok 2000 og 48,3 ma.kr. í árslok 2001. Stærstur hluti lífeyrisréttinda í séreign tengist því þeim sjö lífeyrissjóðum sem voru hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997.
    Lífeyrisréttindi í séreign geta sprottið af viðbótariðgjaldi umfram lögbundið 10% iðgjald annars vegar og af 10% lögbundnu iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar hins vegar. Séreign sem sprettur af 10% lögbundnu iðgjaldi skiptist í séreign til lágmarkstryggingaverndar og séreign til viðbótartryggingaverndar. Sjö lífeyrissjóðir nýta sér heimildir í lögum til að skilgreina lágmarkstryggingavernd lægri en 10% og bjóða upp á lágmarkstryggingavernd sem er samþætting séreignar og sameignar. Sjóðfélagi getur óskað eftir að sá hluti lögbundins lágmarksiðgjalds sem skilgreindur er sem séreign sé ráðstafað til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar honum að kostnaðarlausu.

Mynd 20.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
    Hrein eign lífeyrissjóðanna var 644,8 ma.kr. í árslok 2001 og lífeyrissparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða 5,5 ma.kr. Þannig var lífeyrissparnaður í séreign og sameign 650,3 ma.kr. í árslok 2001. Lífeyrissparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða sem störfuðu sem hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 var því 1,4% af heildareignum lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila en heildarséreignarsparnaður í vörslu allra lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila 7,5%.

2.4 Vátryggingamarkaður.
Aukinn hagnaður vátryggingafélaga.
    Árið 2001 einkenndist af betri afkomu vátryggingafélaga heldur en verið hefur á undanförnum árum. Má meðal annars rekja það til lítillar aukningar á eigin tjónum félaganna samanborið við eigin iðgjöld, en eigin tjón vátryggingafélaga hækkuðu mikið á árunum 1999 og 2000.
    Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir starfsemi íslenskra vátryggingafélaga eins og hún birtist í ársreikningum fyrir reikningsárið 2001. Allar fjárhæðir eru færðar til verðlags ársins 2001. Breytingar fjárhæða milli ára verða því breytingar umfram verðlagsbreytingar. Viðlagatrygging Íslands starfar samkvæmt sérlögum, hefur afmarkað hlutverk og er því sleppt í umfjöllun um rekstur vátryggingafélaga hér á eftir. Iðgjöld Viðlagatryggingar voru 721 m.kr. á árinu 2001, en tjón námu 161 m.kr. Á árinu 2000 námu tjón Viðlagatryggingar hins vegar 2,6 ma.kr.
    Samanlagður hagnaður vátryggingafélaganna 8 var 2,7 ma.kr. á árinu 2001 og jókst um 71%. Mynd 21 sýnir hvernig hagnaður hefur þróast frá 1997:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í rekstrarreikningi er fjárfestingartekjum skipt á vátryggingarekstur og fjármálastarfsemi og síðan reiknaður hagnaður af hvorum hluta starfseminnar um sig. Þessi skipting hefur hvorki áhrif á fjárfestingartekjur í heild né niðurstöðutölu rekstrarreikningsins, hagnaðinn. Hagnaður af vátryggingarekstri hafði minnkað ár frá ári síðan þessi reikniaðferð var fyrst notuð við reikningsskil fyrir árið 1996 en hagnaður af fjármálarekstri aukist á móti. Á árinu 2001 varð hins vegar sú breyting að hagnaður af vátryggingarekstri varð sá mesti síðan 1996, en hagnaður af fjármálarekstri dróst saman frá árinu áður. Almennt má þó segja að töluverður hagnaður hafi verið á öllum sviðum starfseminnar.
     Mynd 22 sýnir hvernig hagnaður af helstu þáttum starfseminnar hefur skipst frá árinu 1997:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Tjónagreiðslur vátryggingafélaga lækka – iðgjöld hækka.
    Iðgjaldatekjur skaðatryggingafélaganna héldu áfram að hækka á árinu 2001. Iðgjaldatekjur ársins hækkuðu um 9% umfram verðlagsbreytingar frá fyrra ári, eða um 1,6 ma.kr. og námu 19,9 ma.kr. Sé eingöngu horft á ökutækjatryggingar var hækkunin 1,9 ma.kr. Einnig hækkuðu iðgjöld lítillega í öðrum greinum frumtrygginga, en á móti kom veruleg lækkun iðgjalda í endurtryggingum. Iðgjöld í innlendum endurtryggingum lækkuðu um 800 m.kr., eða 71%.
    Tjón ársins lækkuðu hins vegar frá fyrra ári um 8%, eða um 1,6 ma.kr. Mestu munar um að tjón í eignatryggingum drógust saman um tæpar 800 m.kr. Einnig lækkuðu tjón í lögboðnum ökutækjatryggingum um 460 m.kr., en eru þó enn sem fyrr hærri en iðgjöld ársins í sömu grein. Tjón í innlendum endurtryggingum lækkuðu um tæpar 600 m.kr. Þegar hlutur endurtryggjenda í iðgjöldum og tjónum hefur verið dreginn frá standa eftir eigin iðgjöld ársins að fjárhæð 16,7 ma.kr. og eigin tjón að fjárhæð 16,2 ma.kr.
     Mynd 23 sýnir þróun í iðgjöldum og tjónum í skaðatryggingum síðan 1997, annars vegar þróun heildarfjárhæða og hins vegar iðgjöld og tjón í eigin hlut. Þrátt fyrir lækkun tjóna í heild á árinu 2001 hafa tjón í eigin hlut hækkað. Ástæðan er að á árinu á undan urðu stærri tjón sem voru að stærri hluta bætt af endurtryggjendum félaganna.

    Mynd 23.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Auk iðgjalda og tjóna hafa rekstrarkostnaður, fjárfestingartekjur og breyting á útjöfnunarskuld mikil áhrif á afkomu vátryggingastarfseminnar. Rekstrarkostnaður var 3,5 ma.kr. og hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Í heildina var lagt í útjöfnunarskuld á árinu, samtals um 269 m.kr. Á árinu var farið fram á við vátryggingafélögin að þau settu sér reglur um ákvörðun um breytingu á útjöfnunarskuld. Einungis þau félög sem sett hafa sér reglur og fengið þær staðfestar af Fjármálaeftirlitinu hafa heimild til að leggja í útjöfnunarskuld.

Einstakir greinaflokkar skaðatrygginga.
     Mynd 24 sýnir hvernig tjón ársins skiptast eftir greinaflokkum og samanburð við fyrra ár. Tjón í eignatryggingum lækkuðu um tæpar 800 m.kr. frá fyrra ári, eða um 19%. Endurtryggingastarfsemi íslenskra vátryggingafélaga hefur dregist verulega saman þar sem stærsta endurtryggingafélagið, Íslensk endurtrygging hf., hefur hætt að taka að sér nýjar tryggingar. Umfang ábyrgðartrygginga og slysa- og sjúkratrygginga hefur aukist jafnt og þétt á milli ára mælt bæði í iðgjöldum og tjónum.
    Í lögboðnum ökutækjatryggingum lækkuðu tjón um tæpar 500 m.kr. eða 5% og námu um 8,4 ma.kr., eða 46% af öllum frumtryggingatjónum félaganna. Tjónagreiðslur skiptust þannig að tjónaskuld hækkaði um 2,5 ma.kr. en bókfærð tjón námu 5,9 ma.kr. Árið 2000 voru tjónin á verðlagi þess árs 8,3 ma.kr. en skiptust þannig að hækkun á tjónaskuld nam 2,7 ma.kr. en bókfærð tjón 5,6 ma.kr.
    Tjón í lögboðnum ökutækjatryggingum voru 513 m.kr. umfram iðgjöld, eða 7%. Í allri vátryggingastarfsemi voru þó iðgjöld umfram tjón um 1,56 ma.kr. og þar af voru iðgjöld í frjálsum ökutækjatryggingum tæpum 1 ma.kr. umfram tjón, eða 51%.

    Mynd 24.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Mynd 25 sýnir hvernig iðgjöld ársins hafa þróast í helstu greinaflokkum skaðatrygginga. Jafnframt sést innbyrðis vægi einstakra greinaflokka í iðgjaldatekjum.
    Frumtryggingaiðgjöld ársins 2001 voru samtals 19,6 ma.kr. en samsvarandi tjón 18,0 ma.kr. Í endurtryggingum sem íslensk vátryggingafélög tóku að sér voru iðgjöld tæplega 320 m.kr., en tjón 356 m.kr.
    Í lögboðnum ökutækjatryggingum hækkuðu iðgjaldatekjur um 1,6 ma.kr. frá fyrra ári, eða um 25%. Iðgjöld ökutækjatrygginga voru hækkuð á miðju ári 2000 og var því hluti þeirrar hækkunar að koma fram á árinu 2001. Hlutur lögboðinna ökutækjatrygginga var 40% af heildariðgjöldum frumtrygginga, og hefur hækkað úr 37% árið 2000. Hlutur ökutækjatrygginga í heild var 55% af samanlögðum frumtryggingaiðgjöldum á árinu 2001 og hefur einnig aukist jafnt og þétt á undanförnum árum.     Mynd 25.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Vöxtur í líftryggingastarfsemi.
    Síðustu ár hafa bókfærð iðgjöld líftryggingafélaga aukist jafnt og þétt. Á föstu verðlagi jukust iðgjöldin um 353 m.kr. eða 23%. Bókfærð iðgjöld voru 1,9 ma.kr. á árinu 2001. Vöxtur í líftryggingum með fjárfestingaráhættu líftryggingataka hélt áfram og umfang þessa þáttar nærri tvöfaldaðist á sama ári.
     Mynd 26 sýnir þróun bókfærðra iðgjalda í líftryggingum á árunum 1997–2001. Til viðbótar iðgjöldum sem greidd voru til innlendra líftryggingafélaga voru 516 m.kr. greiddar í iðgjöldum til erlendra líftryggingafélaga í gegnum innlendar vátryggingamiðlanir.

    Mynd 26.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Eignir vátryggingafélaga aukast.
    Samanlagðar eignir vátryggingafélaga voru 71,0 ma.kr. við lok ársins 2001 og höfðu þá hækkað frá fyrra ári um 7,7 ma.kr. Í samræmi við eðli vátryggingastarfsemi voru fjárfestingar stærsti eignaliður félaganna, 50,9 ma.kr. í árslok 2001. Skuldamegin er vátryggingaskuldin stærst, 48,0 ma.kr. Í grófum dráttum má segja að fjárfestingar og vátryggingaskuld séu nálægt 70% af efnahagsreikningnum.
     Mynd 27 sýnir þróun helstu fjárfestingaliða frá 1997. Vöxtur í fjárfestingum var einkum í verðbréfum með breytilegum tekjum, en einnig jukust fjárfestingar í verðbréfum með föstum tekjum. Bílalán drógust saman á árinu 2001.

    Mynd 27.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Víða erlendis hafa eignir vátryggingafélaga lækkað verulega vegna lækkana á flestum hlutabréfamörkuðum. Sú þróun hefur ekki orðið í sama mæli hér á landi enda hafa lækkanir á innlendum hlutabréfum ekki verið jafnmiklar og erlendis og verðbréfaeign vátryggingafélaganna er að mestu í innlendum bréfum. Íslensku vátryggingafélögin færa hlutabréf sín á kaupverði eða markaðsverði, hvort sem lægra reynist, í lok reikningsárs. Í árslok 2001 nam bókfært verð skráðra hlutabréfa þriggja stærstu vátryggingafélaganna um 13,1 m.kr. og markaðsverð um 16,2 m.kr.
     Mynd 28 sýnir eigið fé og vátryggingaskuld í heild. Báðir liðir hafa vaxið jafnt og þétt. Hluti eigin fjár er þó tvítalinn vegna eignarhluta sem vátryggingafélög eiga í öðrum vátryggingafélögum.
    Tjónaskuldin í heild var 35,5 m.kr., eða þrír fjórðu hlutar vátryggingaskuldarinnar. Hún er helmingur af efnahag vátryggingafélaga. Tjónaskuld í lögboðnum ökutækjatryggingum var 22,6 m.kr., eða um 2/3 af tjónaskuldinni.     Mynd 28.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.     Mynd 29 sýnir þróun helstu liða eigin vátryggingaskuldar. Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem eignaliður í ársreikningum, en hann nam 4,5 m.kr. í árslok 2001. Eigin vátryggingaskuld var því samtals 43,5 m.kr. og hefur aukist um 5,2 m.kr. frá árinu 2000.
    Iðgjaldaskuld hækkar í samræmi við aukin umsvif og hærri iðgjöld í ökutækjatryggingum og tjónaskuld hækkar einnig vegna þess að óuppgerð tjón á árinu 2001 eru metin hærri en sem nemur uppgjöri eldri tjóna á árinu. Eins og á fyrri árum stafar hækkun tjónaskuldar að mestu leyti af lögboðnum ökutækjatryggingum, en inni í þeirri tölu eru slysatjón sem hafa langan uppgjörstíma. Aukning tjónaskuldar í þessari grein nemur 2,6 m.kr. Útjöfnunarskuld dregst lítillega saman á föstu verðlagi.     Mynd 29.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3. Áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missiri.
    Fjármálaeftirlitið hefur byggt starfsemi sína á skýrum áherslum sem mótaðar eru með hliðsjón af aðstæðum á fjármálamarkaði. Áherslurnar taka ekki meginbreytingum milli ára heldur mynda þær kjölfestu í starfseminni yfir lengra tímabil. Yfirlit yfir starfsemina í 1. kafla hér að framan lýsir að stórum hluta verkefnum sem sett eru á verkáætlun og unnin í samræmi við þessar megináherslur.

3.1 Hlutverk stjórna – áhættustýring og innra eftirlit.

Stuðlað er að því að í hverju fjármálafyrirtæki séu stjórnendur sem til þess eru bærir að búa fyrirtækinu sterkt skipulag, skýra stefnu, skilvirkar innri reglur og verkferla, viðeigandi upplýsingakerfi og innri endurskoðun. Með því er stjórnendunum sjálfum og öðrum starfsmönnum kleift að meta með réttu þá áhættu sem í starfseminni felst og stýra henni í samræmi við styrkleika fyrirtækisins.

    Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Leiðbeinandi tilmæli um innra eftirlit og áhættustýringu fjármálafyrirtækja (1/2002).
          Styrking reglna um mat á afskriftum (51/2002).
          Styrking eftirlits með eiginfjárhlutföllum og gæðum útlána.
    Skakkaföll í starfsemi fjármálafyrirtækja má undantekningarlítið rekja til veikleika í stjórnun, áhættustýringu og innra eftirliti. Fjármálaeftirlitið hefur í starfsemi sinni aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar á starfsemi stjórna fjármálafyrirtækja og leiðum sem þeim eru færar til að sinna hlutverki sínu.
    Hingað til hefur Fjármálaeftirlitið lagt áherslu á samskipti við stjórnir fyrirtækja sem eru í erfiðleikum eða gerðar eru alvarlegar athugasemdir við í eftirliti. Á næstu missirum mun Fjármálaeftirlitið leitast við að auka upplýsingamiðlun og samskipti við stjórnir fjármálafyrirtækja almennt. Þannig mun Fjármálaeftirlitið bjóða stjórnarmönnum fjármálafyrirtækja á hverju sviði fjármálamarkaðar til kynningarfunda þar sem fjallað verður um hlutverk stjórna og þau tæki sem þær hafa til að sinna hlutverki sínu. Áhersla verður lögð á að fjalla um þau atriði sem úrskeiðis hafa farið að undanförnu að mati Fjármálaeftirlitsins.
    Ástæða er til að huga sérstaklega að því hvernig innra eftirliti er sinnt í fjármálafyrirtækjum. Algengt er að innra eftirlit sé í höndum ytri endurskoðanda samkvæmt sérstökum samningi. Almenn reynsla af þessu gefur tilefni til að hugað sé að frekari aðskilnaði ytri og innri endurskoðunar og mun Fjármálaeftirlitið leita viðræðna við hagsmunaaðila um færar leiðir í þessu efni. Fjármálaeftirlitið hefur enn fremur vakið máls á því að áskilja þurfi í löggjöf um vátryggingafyrirtæki og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu að til staðar sé innri endurskoðun sem heyri beint undir stjórn viðkomandi fyrirtækis.

3.2 Starfshættir á fjármálamarkaði.

Fjármálaeftirlitið fylgist með því að starfsemi á fjármálamarkaði sé í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Í samræmi við þetta leggur Fjármálaeftirlitið áherslu á að fylgjast með starfsháttum á fjármálamarkaði.

    Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Uppbygging markaðsvaktar á verðbréfamarkaði.
          Umræðuskjal vegna tilmæla um greiningar/greiningardeildir.
          Umræðuskjal vegna tilmæla um starfshætti í vátryggingamiðlun.
    Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu lagt áherslu á að styrkja markaðsvakt sína og skapa forsendur fyrir skilvirku eftirliti á verðbréfamarkaði. Enn fremur hefur Fjármálaeftirlitið hugað sérstaklega að starfsháttum á vátryggingamarkaði og lífeyrismarkaði.
    Fjármálaeftirlitið telur að huga þurfi sérstaklega að starfsháttum á fjármálamarkaði í tengslum við eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Miklar breytingar á eignarhaldi fjármálafyrirtækja undanfarna mánuði og fengin reynsla gefur Fjármálaeftirlitinu tilefni til að huga sérstaklega að því hvernig staðið er að öflun virkra eignarhluta, þátttöku eigenda virkra eignarhluta í stjórnum fjármálafyrirtækja og áhrifum þeirra á starfsemi viðkomandi fyrirtækja. Fjármálaeftirlitinu er með núgildandi lögum ætlað mikið hlutverk á þessu sviði þar sem leita ber samþykkis fyrir kaupum á virkum eignarhluta og kveðið á um tæki til áframhaldandi eftirlits eftir að kaup eiga sér stað.
    Í tengslum við þetta mun Fjármálaeftirlitið leggja aukna áherslu á eftirlit með viðskiptatengslum fjármálafyrirtækja og aðila sem venslaðir eru þeim, t.d. stjórnarmanna fjármálafyrirtækis, stærstu hluthafa og fyrirtækja í eigna- eða stjórnunartengslum við fjármálafyrirtæki. Þetta á ekki síst við um lánastofnanir. 3.3 Markaðsaðhald.

Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að stuðla að auknu gegnsæi í starfsemi fjármálafyrirtækja. Með því skapast aukið aðhald af hálfu markaðarins, samhliða aðhaldi innra eftirlits og opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi.

    Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Endurskoðun reglugerðar um ársreikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga (951/2001) og leiðbeinandi tilmæli um reikningsskil vátryggingafélaga (4/2002).
          Leiðbeinandi tilmæli um viðbótarupplýsingar varðandi fjármálaskjöl í ársreikningum lánastofnana.
          Umræðuskjal um ný skýrsluskil lífeyrissjóða um tryggingafræðilegar úttektir.
    Fjármálaeftirlitið mun áfram huga að endurskoðun og samræmingu reikningsskila á fjármálamarkaði. Fylgst hefur verið með þróun löggjafar á erlendum vettvangi, en endurbætur og samræming reikningsskila eru mjög til umfjöllunar innan Evrópusambandsins og víðar.
    Á næstu missirum mun Fjármálaeftirlitið huga að auknu gegnsæi í eftirliti á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitinu ber að byggja á trúnaði gagnvart aðilum máls í meðferð mála á öllum sviðum fjármálamarkaðar og ekki er ætlunin að gera á því breytingar. Vegna meginreglna um gegnsæi á verðbréfamarkaði og jafnræði fjárfesta ber Fjármálaeftirlitinu hins vegar að leita allra leiða til að gera grein fyrir starfsemi sinni, ástandi fjármálamarkaða og fjármálastöðugleika. Með því getur Fjármálaeftirlitið fyrir sitt leyti stuðlað að auknu aðhaldi markaðarins. Fjármálaeftirlitið mun eins og hingað til beita heimasíðu sinni og öðrum útgáfum í þessu skyni.
    Fjármálaeftirlitið leggur aukna áherslu á hlutverk sitt í upplýsingamiðlun og kynningu á málefnum er tengjast fjármálamarkaði. Sú kynning beinist að svo stöddu aðallega að starfsmönnum fjármálafyrirtækja en nýtist einnig í að byggja upp þekkingu á fjármálamarkaði. Með stækkun húsnæðis hefur Fjármálaeftirlitið nú yfir að ráða aðstöðu til að sinna þessu hlutverki í auknum mæli.

3.4 Samkeppnishæfni fjármálamarkaðar.

Fjármálaeftirlitið hefur hlutverki að gegna við að skapa hér samkeppnishæfan fjármálamarkað. Jafnframt ber Fjármálaeftirlitinu að taka þátt í mótun fjármálamarkaðar og fylgja eftir sjónarmiðum um hagsmuni viðskiptamanna og öryggi í fjármálaþjónustu.

    Dæmi um almennar aðgerðir á síðasta tímabili:
          Orðið við athugasemdum og ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem settar voru fram í athugun á stöðugleika íslenska fjármálakerfisins.
          Markviss skipulagning á þátttöku Fjármálaeftirlitsins í erlendu samstarfi.
    Samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar er í senn forsenda og ástæða virkra tengsla markaðarins við erlenda fjármálamarkaði. Síaukin starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis er mikilvægur þáttur í að byggja upp samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins í heild. Um leið kæmi þessi erlenda þátttaka tæpast til greina nema vegna þess að hin innlendu fjármálafyrirtækja standast samkeppniskröfur.
    Aukin erlend þátttaka innlendra fjármálafyrirtækja kallar á breytingar í yfirsýn Fjármálaeftirlitsins yfir starfsemina og styrkingu á eftirliti á samstæðugrundvelli. Því mun Fjármálaeftirlitið leggja áherslu á að styrkja enn frekar samstarf sitt við eftirlitsaðila í þeim ríkjum þar sem starfsemin fer fram.


Fylgiskjal IV.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er greint frá áætlun um umfang og kostnað af opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi og lagðar til gjaldaheimildir til að standa undir kostnaðinum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður af starfsemi Fjármálaeftirlitsins verði 268,4 m.kr. árið 2003. Það greiðist að mestu með álögðu gjaldi á fjármálafyrirtæki sem er áætlað 259,7 m.kr. árið 2003 og er það 22,6% hækkun miðað við áætlaða innheimtu ársins 2002. Þess má geta að á árinu 2002 var nýtt 47,9 m.kr. yfirfærsla frá fyrra ári. Einnig er gert ráð fyrir að sértekjur stofnunarinnar verði 5,3 m.kr. og yfirfærslur frá þessu ári eru 3,4 m.kr.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Tekið er mið af samstæðuuppgjörum viðskiptabankanna fimm og sex stærstu sparisjóða þegar fjallað er um viðskiptabanka og sparisjóði í þessum kafla nema annað sé tekið fram. Við samanburð milli tímabila er tekið tillit til þess að Kauþing banki hf. fékk starfsleyfi sem viðskiptabanki í byrjun árs 2002 og eru samanburðarfjárhæðir leiðréttar með tilliti til þess nema annað sé tekið fram.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Þessar stofnanir eru Jyske Bank í Danmörku, SEB í Svíþjóð, DnB í Noregi, Sampo í Finnlandi, HVB í Þýskalandi, og Bank of Ireland.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Með vanskilum er hér átt við vanskil sem staðið hafa lengur en einn mánuð. Kaupþing banki hf. er innifalinn í tölum m.v. lok mars 2002 og síðar.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Óvaxtaberandi útlán að frádregnum sérstökum afskriftum. Fullnustueignir eru ekki meðtaldar í fjárhæð óvaxtaberandi útlána.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Skuldabréfaeign að frádregnum framvirkum samningum og skiptasamningum á móti skuldabréfaeign.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Hlutabréfaeign að frádregnum framvirkum samningum og skiptasamningum á móti hlutabréfaeign.
Neðanmálsgrein: 7
    7 Íslandsbanka, Landsbanka, Búnaðarbanka, Kaupþingi banka og sex stærstu sparisjóðum.
Neðanmálsgrein: 8
    8 Þessar tölur eru samanlagðar tölur allra vátryggingafélaganna. Ekki er tekið tillit til þess að vátryggingafélög eiga eignarhluti í öðrum vátryggingafélögum, sem verður til þess að hagnaður er tvítalinn að hluta.