Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 401  —  361. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vegagerð milli Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

Flm.: Jónas Hallgrímsson.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna gerð sumarvegar milli Loðmundarfjarðar fyrir Brimnesfjall og til Seyðisfjarðar.

Greinargerð.


    Strandlengjan milli Borgarfjarðar eystri og Seyðisfjarðar var fyrr á tímum byggð, Álftavík – Húsavík – Litlavík – Breiðavík – Kjólsvík – Glettinganes – Brúnavík – og Loðmundarfjörður. Nú er allt í eyði utan tvær jarðir sem eru setnar að sumarlagi, þær eru Stakkahlíð og Sævarendi.
    Akfær sumarvegur er frá Borgarfirði eystri til Loðmundarfjarðar um Nesháls og Húsavíkurheiði. Þessi vegur er alla jafna bílfær 2–3 mánuði að sumrinu í venjulegu árferði.
    Norðanvert í Seyðisfirði er tengi- og safnvegur að bænum Selsstöðum, sem nú er ysti bær í byggð og þaðan er ruddur vegslóði út að eyðibýlinu Sléttanesi. Frá Sléttanesi við Seyðisfjörð til Sævarenda í Loðmundarfirði eru u.þ.b. 10 km.
    Milli Sævarenda og Stakkahlíðar fellur Fjarðará, eina umtalsverða vatnsfallið sem brúa þyrfti, en þar hefur nýlega verið komið fyrir göngubrú.
    Sú leið sem enn er veglaus er um landsvæðið með ströndinni fyrir Brimnesfjall og inn svonefnda Hjálmaströnd. Að mati reyndra vegagerðarmanna og kunnugra heimamanna er vegarlagning um þetta svæði ekki erfiðleikum háð.
    Mikil náttúrufegurð í Loðmundarfirði er rómuð og ógleymanleg þeim sem notið hafa. Gróðurfar er mjög fjölbreytt og gróðursæld með eindæmum. Snjóþyngsli á vetrum geta hins vegar verið mikil á þessum slóðum svo að ekki þarf að gera ráð fyrir að hér verði um vetrarnotkun vegarins að ræða nema með miklum kostnaðarauka. Því er hér einungis átt við að komast megi um svæðið að sumar- og haustlagi. Mundi þessi vegur, ef af yrði, bæta mjög aðstæður vegna fjallskila og smalamennsku, auk þess sem ferðaþjónusta á svæðinu nyti góðs af, allir aðdrættir yrðu auðveldari, t.a.m. flutningur farangurs og búnaðar göngufólks sem fjölgar ört. Vegur fyrir Brimnesfjall hefði ekki truflandi áhrif á merkta og rómaða gönguleið sem er um Hjálmadalsheiði.
    Á undanförnum árum hefur ferðaþjónusta eflst mjög á Borgarfirði eystri. Veldur þar einstök náttúrufegurð og sinna heimamanna á að laða ferðafólk á staðinn, m.a. með framleiðslu og sölu fyrirtækisins Álfasteins á margs konar minjagripum úr steinum. Hefur fjöldi ferðafólks sem komið hefur í fyrirtækið síðustu ár verið á bilinu 7–8.000 en komist hæst í um 9.700 manns.
    Þá er fuglalíf í Hafnarhólma með því sérstæðasta sem fyrirfinnst.
    Nýlegt framtak heimamanna í samstarfi við m.a. Reykjavíkurborg um starfrækslu svonefndrar Kjarvalsstofu er til fyrirmyndar og hvetur áreiðanlega marga ferðalanga á þessar slóðir.
    Vegalengdin frá Seyðisfirði um Fljótsdalshérað og Borgarfjörð eystri til Loðmundarfjarðar er u.þ.b. 130 km. Frá Seyðisfirði til Sævarenda yrði vegalengdin u.þ.b. 25 km. Hér yrði því um byltingarkennda styttingu að ræða og möguleikar svæðisins stórykjust.
    Í Stakkahlíð í Loðmundarfirði hefur á undanförnum árum verið unnið að uppbyggingu myndarlegrar ferðaþjónustu enda margt forvitnilegt á að líta á þessum slóðum, svo sem biksteinsnámu í Skúmhattardal undir fjallinu Skúmhetti.
    Til Seyðisfjarðar, sem er önnur stærsta innflutningshöfn ferðafólks til landsins, koma árlega 8–9.000 manns með farþega- og bílaferjunni m/f Norröna og gera áætlanir ráð fyrir fjölgun þessara ferðalanga á næstu árum vegna nýrrar og afkastameiri ferju.
    Margoft hefur verið bent á af heimamönnum hve erfitt er að halda ferðafólkinu á austurströndinni sakir fábreytni í afþreyingu. Þessi nýja hringleið, Seyðisfjörður – Loðmundarfjörður – Borgarfjörður eystri og til Fljótsdalshéraðs mundi tvímælalaust stórauka möguleika ferðaþjónustu á svæðinu og verða til þess að treysta og festa þá viðkvæmu byggð sem nú er reynt að viðhalda á þessum slóðum.