Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 112. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 412  —  112. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um öldrunarstofnanir.

     1.      Hvernig er opinberum greiðslum til öldrunarstofnana háttað?
    Greiðslur til hjúkrunarheimila fyrir hjúkrunarrými eru af þrennu tagi. Sum heimilin eru á föstum fjárlögum, önnur fá greiddar fastar fjárveitingar samkvæmt þjónustusamningi og enn önnur fá greidd daggjöld. Frá og með 1. janúar 2003 er fyrirhugað að taka upp samræmt greiðslukerfi þar sem öll hjúkrunarheimili verða á daggjöldum.
    Greiðslur til öldrunarheimila fyrir dvalar- og dagvistarrými eru samkvæmt daggjöldum sem birt eru í reglugerð í upphafi hvers árs.

     2.      Með hvaða hætti er í greiðslunum tekið tillit til þeirrar þjónustu sem veitt er á hverri öldrunarstofnun fyrir sig?

    Árlega er metið heilsufar og aðbúnaður einstaklinga sem dvelja á hjúkrunarheimilum með svokölluðu RAI-mati. Það felur m.a. í sér mat á hjúkrunarþyngd og umönnunarþörf vistmanna og er notað við ákvörðun á daggjöldum daggjaldastofnana. RAI-matið tekur mið af umönnunarþætti daggjaldsins sem er um 59% af rekstrarkostnaði eins hjúkrunarrýmis. Ef hjúkrunarheimili með RAI = 1,00 fengi 11.000 kr. daggjald, þá fengi hjúkrunarheimili með RAI = 1,05 daggjald sem næmi 11.325 kr. á hjúkrunarrými, sbr. eftirfarandi útreikning: 11.000 x 0,59 x 1,05 + 11.000 x 0,41 = 11.325 kr.
    RAI-mat hefur haft óveruleg áhrif á greiðslur til hjúkrunarheimila á föstum fjárlögum fram til ársins 2002. Þetta á einnig við um hjúkrunarheimili á föstum fjárlögum sem eru með þjónustusamning. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir að þessar fastafjárlagastofnanir verði gerðar að daggjaldastofnunum. Þá taka fjárveitingar og daggjaldataxtar mið af RAI-mati heimilanna eins og hjá hjúkrunarheimilum sem nú eru á daggjöldum.
    Öldrunarstofnanir fá greitt ákveðið gjald samkvæmt daggjaldataxta fyrir þjónusturými og ákveðið gjald fyrir dagvistarrými. Gjaldið breytist ekki eftir umönnunarþörf vistmanna né mismunandi þjónustu sem veitt er milli heimila. Þó má benda á að dagvistarheimili með MS- sjúklinga, Alzheimer-sjúklinga og geðsjúklinga fá hærra daggjald fyrir dagvistun en öldrunarheimili með almenn dagvistunarrými.

     3.      Hvaða reglur gilda um gjaldtöku af dvalarmönnum á öldrunarstofnunum?

    Samkvæmt reglugerð nr. 47/1990, um stofnanaþjónustu fyrir aldraða, skulu vistmenn með tekjur umfram 37.744 kr. á mánuði taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Með tekjum umfram 37.744 kr. á mánuði skal vistmaður greiða dvalarkostnað sinn að hluta eða öllu leyti. Vistmaður skal þó aldrei greiða hærri fjárhæð en sem nemur daggjaldi á þjónusturými sem nú er 137.331 kr. á mánuði.
    Ef vistmaður á dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða hefur engar aðrar tekjur en bætur almannatrygginga greiðir Tryggingastofnun ríkisins dvalarkostnað hans.
    Einstaklingur sem nýtur þjónustu dagvistar tekur þátt í kostnaðinum og greiðir 500 kr. fyrir hvern dagvistardag. Fjárhæðin hefur verið óbreytt í mörg ár. Samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, má ekki innheimta hærri fjárhæð en sem nemur óskertum grunnlífeyri einstaklings samkvæmt almannatryggingalögum. Grunnlífeyrir er nú 19.990 kr. á mánuði eða 657 kr. á dag. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna dagvistar af Tryggingastofnun ríkisins.

     4.      Eru til reglur um lágmarksþjónustu sem öldrunarstofnanir skulu veita, eða er í bígerð að setja slíkar reglur?

    Í 14. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, er kveðið á um að á dvalarheimilum skuli vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi. Aðstaða skal vera fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu. Þjónustan skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og skal byggjast á hjálp til sjálfshjálpar.
    Í sömu grein er fjallað um hjúkrunarheimili sem ætluð eru öldruðum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónustan skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða.
    Í 2. gr. reglugerðar nr. 422/1992 um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu er kveðið á um þá þjónustu sem öldrunarstofnanir skulu tryggja vistmönnum. Þar segir: „Öldrunarstofnanir skulu tryggja að þeir sem þar dvelja eigi kost á eftirfarandi heilbrigðisþjónustu sem stofnunin kostar að fullu, hvort sem þjónustan er veitt inni á stofnuninni eða utan hennar. Þjónusta sem hver einstaklingur nýtur fer eftir einstaklingsbundnu mati á þörf. Um er að ræða eftirfarandi þjónustu:
     a.      Almenn læknishjálp og sérfræðilæknishjálp. Sé þjónusta veitt utan öldrunarstofnunarinnar skal stofnunin greiða samkvæmt umsaminni gjaldskrá Tryggingastofnunar ríkisins og læknafélaganna eða skv. sérstökum samningi sem öldrunarstofnunin gerir við lækna.
     b.      Lyf.
     c.      Rannsóknir og röntgengreining.
     d.      Endurhæfing t.d. sjúkraþjálfun.
     e.      Hjálpartæki, þó ekki gleraugu, heyrnartæki eða hjólastólar.
     f.      Sjúkraflutningur, annar en sá sem sjúkrahúsi ber að greiða skv. 43. gr. 1. mgr. i-lið laga nr. 67/1971, um almannatryggingar. Þó skal sjúkraflutningur að ósk vistmanns eða aðstandenda greiddur af þeim sem óskar flutningsins.
    Ef einstaklingur sem býr á öldrunarstofnun er lagður inn á sjúkrahús dvelst hann þar á kostnað sjúkrahússins.“
    Öldrunarstofnun er ekki skylt að kosta persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu.
    Í gildi eru fimm þjónustusamningar við öldrunarheimili. Í öllum samningunum er kveðið á um lágmarksþjónustu sem hjúkrunarheimilin eiga að veita vistmönnum sem þar dvelja.

     5.      Hvernig er háttað reglubundnu eftirliti með þeirri þjónustu sem öldrunarstofnanir veita?

    Landlæknir hefur faglegt eftirlit með gæðum þjónustu sem öldrunarstofnanir veita vistmönnum sínum, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.
    Í reglugerð nr. 546/1995, um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á öldrunarstofnunum, segir að árlega skuli meta heilsufar og aðbúnað einstaklinga sem dveljast á slíkum stofnunum. Matið skal byggt á RAI-mælingum (raunverulegum aðbúnaði íbúa). Markmiðin með matinu eru að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð hins aldraða, afla upplýsinga um þarfir og umönnun hins aldraða, afla samræmdra upplýsinga um þarfir öldrunarstofnana og tryggja hámarksgæði þjónustu og sem besta nýtingu fjármagns. RAI-mat skal fara fram við upphaf dvalar einstaklings á öldrunarstofnun og reglulega eftir það samkvæmt nánari ákvörðun RAI-nefndar, þó ekki sjaldnar en árlega.
    Einn hjúkrunarfræðingur er í fullu starfi hjá landlæknisembættinu við að fylgjast með RAI-mati öldrunarstofnana. Hjúkrunarfræðingurinn metur gæðavísa RAI-mats og heimsækir öldrunarstofnanir þar sem matið er óeðlilegt eða gæðavísar þess benda til ófullnægjandi umönnunar. Hann gerir athugasemdir og leiðbeinir um úrbætur.