Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 372. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 418  —  372. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


1. gr.

    Orðin „og launagreiðenda“ í 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, svohljóðandi:

Fjársýsla ríkisins.

    Fjársýsla ríkisins skal halda skrá sem sýnir greiðslustöðu launagreiðenda á staðgreiðsluári. Til að sinna því hlutverki skal Fjársýsla ríkisins hafa sömu heimildir og um getur í 3. mgr. 24. gr.

3. gr.

    2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Álag til viðbótar af upphæð vanskilafjár frá og með gjalddaga, hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga. Skal álag þetta vera hið sama og dráttarvextir sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

4. gr.

    2. mgr. 36. gr. laganna orðast svo:
    Endurgreiðsluskrá skal send Fjársýslu ríkisins sem sér um endurgreiðslu fyrir hönd ríkissjóðs og sveitarfélaga eftir að skuldajöfnun á móti gjaldföllnum sköttum til ríkis og sveitarfélaga hefur farið fram.


5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu á því ári.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Allt frá því að staðgreiðsla opinberra gjalda kom til framkvæmda árið 1988 hefur staðgreiðslukerfið bæði verið álagningarkerfi og innheimtukerfi. Í þessu frumvarpi er hins vegar lagt til að Fjársýslu ríkisins verði falinn innheimtuþáttur kerfisins. Þá er einnig lagt til að ekki verði einungis hægt að skuldajafna á móti þinggjöldum og sveitarsjóðsgjöldum heldur almennt á móti sköttum til ríkis og sveitarfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.

    Hér er lagt til að utanumhald um skrá þá sem sýnir greiðslustöðu launagreiðenda á staðgreiðsluári flytjist frá ríkisskattstjóra til Fjársýslu ríkisins. Þessar upplýsingar verða framvegis geymdar í tekjubókhaldskerfi ríkisins en ekki í staðgreiðslukerfi ríkisskattstjóra eins og verið hefur hingað til.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að dráttarvextir vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda verði reiknaðir sem dagvextir í stað mánaðarvaxta samkvæmt gildandi lögum. Þá er upphafstími vaxtanna miðaður við gjalddaga hafi ekki verið greitt á 1. degi næsta mánaðar eftir eindaga. Eru breytingar þessar nauðsynlegar samfara flutningi innheimtuþáttar staðgreiðslukerfisins frá ríkisskattstjóra til Fjársýslu ríkisins.

Um 4. gr.

    Lagt er til að rýmkaðar verði heimildir til skuldajöfnunar. Samkvæmt gildandi ákvæði eru heimildir til skuldajöfnunar í staðgreiðslu í reynd þrengri en samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð. Hér er lagt til að ekki verði einungis hægt að skuldajafna á móti þinggjöldum og sveitarsjóðsgjöldum heldur almennt á móti sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Með þessari breytingu verður heimilt að skuldajafna ofgreiddri staðgreiðslu á móti gjaldföllnum þungaskatti, bifreiðagjaldi, virðisaukaskatti og öðrum sköttum.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1987,
um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra í gjalda. Í fyrsta lagi er lagt til að Fjársýslu ríkisins verði falin innheimta staðgreiddra opinberra gjalda og skrá um greiðslustöðu greiðenda í stað ríkisskattstjóra. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimildir til að skuldajafna ofgreiddum staðgreiddum sköttum á móti öðrum sköttum verði rýmkaðar. Í þriðja lagi verði reiknaðir dráttarvextir á vangoldinn skatt sem dagvextir frá gjalddaga hafi ekki verið greitt á fyrsta degi næsta mánaðar eftir eindaga. Ekki er gert ráð fyrir að þessar breytingar leiði til teljandi útgjalda og áformar fjármálaráðuneytið að þær verði framkvæmdar innan gildandi útgjaldaramma fjárlaga. Einnig er reiknað með að áhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs verði óveruleg.